Í dag eru 37 dagar frá síðustu kosningum. Einu stjórnarmyndunarviðræðurnar sem átt hafa sér stað eftir þær eru á milli þeirra þriggja flokka sem störfuðu saman í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili: Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Viðræður þeirra hafa nú staðið yfir í lengri tíma en það tók að mynda ríkisstjórn eftir kosningarnar 2017, þrátt fyrir að reynt hafi verið við tvö mismunandi form þá.
Fyrst ræddu Vinstri græn, Framsóknarflokkur, Samfylking og Píratar saman um myndun ríkisstjórnar en þeim viðræðum var slitið 6. nóvember, tíu dögum eftir kosningar. Við tóku viðræður Vinstri grænna og Framsóknarflokks við Sjálfstæðisflokk og þann 30. nóvember 2017 var stjórnarsáttmáli þeirra kynntur. Þá voru liðnir 33 dagar frá kosningum.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, benti á það í stöðuuppfærslu á Twitter á föstudag að yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræður væru þá orðnar þær næst lengstu í 30 ár. Einu viðræðurnar sem hefðu tekið lengri tíma var eftir kosningarnar 2016.
Í dag urðu þetta næstlengstu stjórnarmyndunarviðræður síðustu 30 ára. Er eitthvað að frétta? pic.twitter.com/jBs4T50JCN
— Andrés Ingi (@andresingi) October 29, 2021
Þá var afar erfitt að mynda ríkisstjórn og allir flokkar sem náðu inn á þing reyndu fyrir sér við stjórnarmyndun á þeim 74 dögum sem liðu frá því að kosið var og þar til ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, undir forsæti Bjarna Benediktssonar, var kynnt til leiks í janúar 2018. Sú stjórn hafði minnsta mögulega meirihluta og sprakk um miðjan september sama ár vegna uppreist æru-málsins.
Ríkisstjórnarflokkarnir styrktu stöðu sína
Sú staða er ekki uppi í dag. Ríkisstjórnin ríghélt í kosningunum sem fóru fram í lok september síðastliðins og bætti samanlagt við sig þingmönnum þrátt fyrir að heildarfylgi hennar hafi ekki vaxið mikið.
Framsóknarflokkurinn var óumdeildur sigurvegari kosninganna. Hann bætti við sig 6,6 prósent fylgi og fimm þingmönnum, en alls 13 verða á hans vegum á Alþingi á komandi kjörtímabili. Það er besta niðurstaða hans í kosningum frá árinu 2013, en vert er þó að taka fram að árin 2016 og 2017 fékk Framsókn sína verstu útreið í sögu flokksins sem spannar nú meira en eitt hundrað ár.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk sína næst verstu niðurstöðu í sögunni og missti fyrsta þingmann í tveimur kjördæmum, en er áfram stærsti flokkur landsins. Vinstri græn töpuðu fylgi en í reynd einungis einum þingmanni, þar sem tveir yfirgáfu flokkinn á síðasta kjörtímabili vegna andstöðu við stjórnarsamstarfið.
Þessi niðurstaða kallar á breytt valdajafnvægi milli flokkanna.
Orkuöflun erfitt viðfangsefni
Óformlegar viðræður um áframhaldandi stjórnarsamstarf hófust strax að loknum kosningum og gengið var út frá því að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og langvinsælasti stjórnmálamaður landsins, yrði áfram forsætisráðherra. Ómögulegt er fyrir Vinstri græn að taka þátt í stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokki, sem flokkurinn skilgreindi sem höfuðandstæðing sinn í íslenskum stjórnmálum í aðdraganda kosninganna 2017, nema að sú stjórn sé leidd af Katrínu.
Viðræðurnar hafa þó gengið hægt og lítið formfast komið út úr þeim, þótt byrjað sé að vinna með einhver texta til að máta við nýjan stjórnarsáttmála samkvæmt heimildum Kjarnans.
Það eru stór og krefjandi verkefni framundan. Endurreisn efnahagslífsins eftir kórónuveirufaraldur og næsta stóra lota kjarasamningaviðræðna, sem hefst á fullu á næsta ári, skipta þar miklu.
Svo eru það skatta- og loftslagsmál og samspili þeirra við efnahagsstefnu næstu ríkisstjórnar.
Þar eiga stjórnarflokkarnir erfiðara að ná saman en annarsstaðar. Hugmyndir Vinstri grænna um aðgerðir til að bregðast við loftlagsvánni eru allt aðrar en hugmyndir hinna flokkanna tveggja, sem snúast um að uppistöðu um að virkja meira til að auka það magn af endurnýjanlegri orku sem Ísland getur nýtt, eða selt. Í stefnuskrá Vinstri grænna er hins vegar sagt að neyðarástand ríki vegna loftlagsmála, að flokkurinn vilji viðhalda rammaáætlun sem stjórntæki til að ákveða hvað verði virkjað og ef það þurfi nýjar virkjanir þurfi að ríkja sátt um það hvernig orkunnar er aflað. „Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins og í takti við vaxandi notkun, til að mæta fólksfjölgun og þörfum grænna og meðalstórra fyrirtækja en ekki í einstaka stórum stökkum.“
Uggur vegna loftlagsmálaskýrslu
Það hversu viðkvæm þessi mál eru sést vel á því að þegar íslensk stjórnvöld skiluðu skýrslu sinni um langtímaáætlun í loftlagsmálum til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) í aðdraganda COP26, loftslagsfundar Sameinuðu þjóðanna, sem hefst í Glasgow í Skotlandi í dag. Skýrslan var birt fyrir helgi og olli miklum titringi á bakvið tjöldin, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Í frétt stjórnarráðsins vegna birtingu skýrslunnar segir að hún byggi á fyrirliggjandi stefnumörkun og áætlunum og varpi „ljósi á þær ákvarðanir sem þarf að taka á næstu árum til að markmið Íslands um kolefnishlutleysi náist. Í skýrslunni er greint frá þegar samþykktum markmiðum stjórnvalda og síðan fjallað um mögulegar leiðir að kolefnishlutleysi.“
Í skýrslunni, sem birt var af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem lýtur stjórn Guðmundar Inga Guðbrandssonar, varaformanns Vinstri grænna, var gerð grein fyrir fimm mismunandi sviðsmyndum um þróun samfélagsins og rýnt í áhrif þeirra á losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis fram til ársins 2040. Í einni sviðsmyndinni er gert ráð fyrir að álframleiðsla á Íslandi dragist saman um helming og í annarri að hún hverfi alveg. Þetta hefur farið öfugt ofan í hagsmunasamtök atvinnulífsins, sérstaklega þau sem gæta hagsmuna áliðnaðarins, og ýmsa innan stjórnarflokkanna sem líta á orkuskipti sem tækifæri til aukins hagvaxtar, en ekki sem tækifæri til að draga úr starfsemi mengandi iðnaðar á Íslandi. Heimilidir Kjarnans herma að þessar sviðsmyndir hafi ekki verið ræddar sem neinu nemur milli stjórnarflokkanna áður en þær voru settar fram.
Skattamál, aukin kostnaður og heilbrigðismál
Skattamál verða líka erfið viðureignar hjá næstu ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn lofaði til að mynda því að taka upp þrepaskipt tryggingagjald og fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja þar sem hreinn hagnaður fyrirtækja umfram 200 milljónir króna verður skattlagður á móti lækkun til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Vinstri græn lofuðu því að taka upp þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt, nota skattkerfið frekar til að jafna kjör og nýta það til að styðja við markmið í loftlagsmálum.
Sjálfstæðisflokkurinn er enda með ólíkar áherslur en ofangreindar í flestum þessum málaflokkum.
Heilbrigðismálin eru líka flókið viðfangsefni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur mikinn áhuga á að taka yfir heilbrigðisráðuneytið og hefur talað fyrir auknum einkarekstri innan þess kerfis.
Framsóknarflokkurinn tók að hluta til undir þær áherslur í aðdraganda kosninga og sagðist vilja skoða „hvort frekari tilefni sé til aukins einkareksturs innan heilbrigðisgeirans.“
Vinstri græn vilja hins vegar auka fjárfestingu í innviðum heilbrigðiskerfisins og auka geta opinbera hluta þess, í stað þess að auka hluta einkageirans. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þurfti að sæta mikilli gagnrýni frá Sjálfstæðisflokknum á síðasta kjörtímabili vegna stefnu sinnar í málaflokknum og þykir ólíkleg til að samþykkja kúvendingu innan hans.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars