Mynd: Bára Huld Beck

Stjórnarmyndunarviðræðurnar orðnar þær næst lengstu í 30 ár

Orkumál, skattkerfisbreytingar, kostnaðarsöm kosningaloforð og heilbrigðismál eru stærstu ásteytingarsteinarnir í viðræðum milli stjórnarflokkanna um endurnýjað samstarf. Viðræður um endurnýjað samstarf hafa tekið mun lengri tíma en það tók að mynda stjórnina til að byrja með. Loftslagsskýrsla sem birt var fyrir helgi, og sýndi sviðsmyndir sem gerðu meðal annars ráð fyrir því að álvinnslu yrði hætt hérlendis, hefur valdið titringi.

Í dag eru 37 dagar frá síð­ustu kosn­ing­um. Einu stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­urnar sem átt hafa sér stað eftir þær eru á milli þeirra þriggja flokka sem störf­uðu saman í rík­is­stjórn á síð­asta kjör­tíma­bili: Sjálf­stæð­is­flokks, Fram­sókn­ar­flokks og Vinstri grænna. Við­ræður þeirra hafa nú staðið yfir í lengri tíma en það tók að mynda rík­is­stjórn eftir kosn­ing­arnar 2017, þrátt fyrir að reynt hafi verið við tvö mis­mun­andi form þá. 

Fyrst ræddu Vinstri græn, Fram­sókn­ar­flokk­ur, Sam­fylk­ing og Píratar saman um myndun rík­is­stjórnar en þeim við­ræðum var slitið 6. nóv­em­ber, tíu dögum eftir kosn­ing­ar. Við tóku við­ræður Vinstri grænna og Fram­sókn­ar­flokks við Sjálf­stæð­is­flokk og þann 30. nóv­em­ber 2017 var stjórn­ar­sátt­máli þeirra kynnt­ur. Þá voru liðnir 33 dagar frá kosn­ing­um. 

Andrés Ingi Jóns­son, þing­maður Pírata, benti á það í stöðu­upp­færslu á Twitter á föstu­dag að yfir­stand­andi stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræður væru þá orðnar þær næst lengstu í 30 ár. Einu við­ræð­urnar sem hefðu tekið lengri tíma var eftir kosn­ing­arnar 2016.

Þá var afar erfitt að mynda rík­is­stjórn og allir flokkar sem náðu inn á þing reyndu fyrir sér við stjórn­ar­myndun á þeim 74 dögum sem liðu frá því að kosið var og þar til rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks, Við­reisnar og Bjartrar fram­tíð­ar, undir for­sæti Bjarna Bene­dikts­son­ar, var kynnt til leiks í jan­úar 2018. Sú stjórn hafði minnsta mögu­lega meiri­hluta og sprakk um miðjan sept­em­ber sama ár vegna upp­reist æru-­máls­ins. 

Rík­is­stjórn­ar­flokk­arnir styrktu stöðu sína

Sú staða er ekki uppi í dag. Rík­is­stjórnin ríg­hélt í kosn­ing­unum sem fóru fram í lok sept­em­ber síð­ast­lið­ins og bætti sam­an­lagt við sig þing­mönnum þrátt fyrir að heild­ar­fylgi hennar hafi ekki vaxið mik­ið. 

Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson reyna nú að mynda þriðju ríkisstjórnina sem þeir sitja í saman. Báðir hafa áður verið forsætisráðherrar um skamma hríð en eiga enga möguleika á þeirri stöðu í ríkisstjórn með Vinstri grænum.
Mynd: Bára Huld Beck

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn var óum­­deildur sig­­ur­­veg­­ari kosn­­ing­anna. Hann bætti við sig 6,6 pró­­sent fylgi og fimm þing­­mönn­um, en alls 13 verða á hans vegum á Alþingi á kom­andi kjör­­tíma­bili. Það er besta nið­­ur­­staða hans í kosn­­ingum frá árinu 2013, en vert er þó að taka fram að árin 2016 og 2017 fékk Fram­­sókn sína verstu útreið í sögu flokks­ins sem spannar nú meira en eitt hund­rað ár.

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn fékk sína næst verstu nið­ur­stöðu í sög­unni og missti fyrsta þing­mann í tveimur kjör­dæm­um, en er áfram stærsti flokkur lands­ins. Vinstri græn töp­uðu fylgi en í reynd ein­ungis einum þing­manni, þar sem tveir yfir­gáfu flokk­inn á síð­asta kjör­tíma­bili vegna and­stöðu við stjórn­ar­sam­starf­ið. 

Þessi nið­ur­staða kallar á breytt valda­jafn­vægi milli flokk­anna.

Orku­öflun erfitt við­fangs­efni

Óform­legar við­ræður um áfram­hald­andi stjórn­ar­sam­starf hófust strax að loknum kosn­ingum og gengið var út frá því að Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­maður Vinstri grænna og lang­vin­sæl­asti stjórn­mála­maður lands­ins, yrði áfram for­sæt­is­ráð­herra. Ó­mögu­legt er fyrir Vinstri græn að taka þátt í stjórn­ar­sam­starfi með Sjálf­stæð­is­flokki, sem flokk­ur­inn skil­greindi sem höf­uð­and­stæð­ing sinn í íslenskum stjórn­málum í aðdrag­anda kosn­ing­anna 2017, nema að sú stjórn sé leidd af Katrínu.

Við­ræð­urnar hafa þó gengið hægt og lítið form­fast komið út úr þeim, þótt byrjað sé að vinna með ein­hver texta til að máta við nýjan stjórn­ar­sátt­mála sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans. 

Það eru stór og krefj­andi verk­efni framund­an. End­­ur­reisn efna­hags­lífs­ins eftir kór­ón­u­veiru­far­aldur og næsta stóra lota kjara­­samn­inga­við­ræðna, sem hefst á fullu á næsta ári, skipta þar miklu.

Svo eru það skatta- og lofts­lags­­mál og sam­­spili þeirra við efna­hags­­stefnu næstu rík­­is­­stjórn­­­ar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vinstri grænna og umhverfis- og auðlindaráðherra.
Mynd: Bára Huld Beck

Þar eiga stjórn­ar­flokk­arnir erf­ið­ara að ná saman en ann­ars­stað­ar. Hug­myndir Vinstri grænna um aðgerðir til að bregð­ast við loft­lags­vánni eru allt aðrar en hug­myndir hinna flokk­anna tveggja, sem snú­ast um að uppi­stöðu um að virkja meira til að auka það magn af end­ur­nýj­an­legri orku sem Ísland getur nýtt, eða selt. Í stefnu­skrá Vinstri grænna er hins vegar sagt að neyð­ar­á­stand ríki vegna loft­lags­mála, að flokk­ur­inn vilji við­halda ramma­á­ætlun sem stjórn­tæki til að ákveða hvað verði virkjað og ef það þurfi nýjar virkj­anir þurfi að ríkja sátt um það hvernig orkunnar er afl­að. „Mestu skiptir að það verði gert af var­færni gagn­vart við­kvæmri nátt­úru lands­ins og í takti við vax­andi notk­un, til að mæta fólks­fjölgun og þörfum grænna og með­al­stórra fyr­ir­tækja en ekki í ein­staka stórum stökk­um.“

Uggur vegna loft­lags­mála­skýrslu

Það hversu við­kvæm þessi mál eru sést vel á því að þegar íslensk stjórn­­völd skil­uðu skýrslu sinni um lang­­tíma­á­ætlun í loft­lags­­málum til Lofts­lags­­samn­ings Sam­ein­uðu þjóð­anna (UN­FCCC) í aðdrag­anda COP26, lofts­lags­fundar Sam­ein­uðu þjóð­anna, sem hefst í Glas­gow í Skotlandi í dag. Skýrslan var birt fyrir helgi og olli miklum titr­ingi á bak­við tjöld­in, sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans.

Í frétt stjórn­ar­ráðs­ins vegna birt­ingu skýrsl­unnar segir að hún byggi á fyr­ir­liggj­andi stefnu­mörkun og áætl­unum og varpi „ljósi á þær ákvarð­anir sem þarf að taka á næstu árum til að mark­mið Íslands um kolefn­is­hlut­leysi náist. Í skýrsl­unni er greint frá þegar sam­þykktum mark­miðum stjórn­valda og síðan fjallað um mögu­legar leiðir að kolefn­is­hlut­leysi.“

Í skýrsl­unni, sem birt var af umhverf­is- og auð­linda­ráðu­neyt­inu sem lýtur stjórn Guð­mundar Inga Guð­brands­son­ar, vara­for­manns Vinstri grænna, var gerð grein fyrir fimm mis­­mun­andi sviðs­­myndum um þróun sam­­fé­lags­ins og rýnt í áhrif þeirra á losun gróð­­ur­húsa­­loft­teg­unda og bind­ingu kolefnis fram til árs­ins 2040. Í einni sviðs­mynd­inni er gert ráð fyrir að álf­ram­leiðsla á Íslandi drag­ist saman um helm­ing og í annarri að hún hverfi alveg. Þetta hefur farið öfugt ofan í hags­muna­sam­tök atvinnu­lífs­ins, sér­stak­lega þau sem gæta hags­muna áliðn­að­ar­ins, og ýmsa innan stjórn­ar­flokk­anna sem líta á orku­skipti sem tæki­færi til auk­ins hag­vaxt­ar, en ekki sem tæki­færi til að draga úr starf­semi meng­andi iðn­aðar á Ísland­i. Heim­il­i­dir Kjarn­ans herma að þessar sviðs­myndir hafi ekki verið ræddar sem neinu nemur milli stjórn­ar­flokk­anna áður en þær voru settar fram.

Skatta­mál, aukin kostn­aður og heil­brigð­is­mál

Skatta­mál verða líka erfið viður­eignar hjá næstu rík­is­stjórn. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn lof­aði til að mynda því að taka upp þrepa­skipt trygg­inga­gjald og fleiri þrep í tekju­skatti fyr­ir­tækja þar sem hreinn hagn­aður fyr­ir­tækja umfram 200 millj­­ónir króna verður skatt­lagður á móti lækkun til lít­illa og með­­al­stórra fyr­ir­tækja.

Vinstri græn lof­uðu því að taka upp þrepa­­skiptan fjár­­­magnstekju­skatt, nota skatt­­kerfið frekar til að jafna kjör og nýta það til að styðja við mark­mið í loft­lags­­mál­­um. 

Sjálf­­stæð­is­­flokk­­ur­inn er enda með ólíkar áherslur en ofan­­greindar í flestum þessum mála­­flokk­­um.

Heil­brigð­is­málin eru líka flókið við­fangs­efni. Sjálf­­stæð­is­­flokk­­ur­inn hefur mik­inn áhuga á að taka yfir heil­brigð­is­ráðu­­neytið og hefur talað fyrir auknum einka­rekstri innan þess kerf­is.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn tók að hluta til undir þær áherslur í aðdrag­anda kosn­inga og sagð­ist vilja skoða „hvort frek­­ari til­­efni sé til auk­ins einka­­rekst­­urs innan heil­brigð­is­­geirans.“

Vinstri græn vilja hins vegar auka fjár­­­fest­ingu í innviðum heil­brigð­is­­kerf­is­ins og auka geta opin­bera hluta þess, í stað þess að auka hluta einka­­geirans. Svan­dís Svav­ars­dóttir heil­brigð­is­ráð­herra þurfti að sæta mik­illi gagn­rýni frá Sjálf­stæð­is­flokknum á síð­asta kjör­tíma­bili vegna stefnu sinnar í mála­flokknum og þykir ólík­leg til að sam­þykkja kúvend­ingu innan hans.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar