Stjórnin talaði um betra Ísland en 2007, hanaslag alnetsins og kvenfyrirlitningu gagnrýnenda
Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fóru fram í gærkvöldi í fyrsta sinn eftir að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð. Stjórnarliðar sem tóku til máls mærðu eigin verk, stjórnun og framtíðarsýn og sögðu fólk vilja stöðugleika og óttast afleiðingar kollsteypustjórnmála. Kjarninn tók saman það helsta úr ræðum þeirra.
Vinstri græn:
Katrín Jakobsdóttir, sem verður að óbreyttu forsætisráðherra áfram út þetta kjörtímabil, flutti fyrstu stefnuræðu sína á kjörtímabilinu í gær. Þar sagðist hún hafa setið á þingi í tæp 15 ár og á þeim tíma hafi Ísland gengið í gegnum hrun og endurreisn, ólíkar ríkisstjórnir, sveiflur í stjórnmálum, fyrir utan ýmis utanaðkomandi áföll og er þar heimsfaraldurinn nærtækt dæmi. „Íslenskt samfélag hefur breyst og þróast á þessum tíma. Þó að manni finnist stundum miða hægt er það nú svo að okkur hefur miðað áfram á flestum sviðum eins og nýlegar rannsóknir stjórnmálafræðinga hafa m.a. dregið fram. Ekki myndi ég vilja skipta á Íslandi dagsins í dag og Íslandi ársins 2007, en þá var ég kjörin á þing, þegar ég horfi á stjórnkerfið, atvinnulífið og samfélagið.“
Lestu allt um ræður stjórnarandstöðunnar í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra:
Hún sagðist ekki líta eingöngu sem forsætisráðherra þeirra sem kusu hana heldur vill Katrín vanda sig við að vera forsætisráðherra allra landsmanna. Reglan um að þingmönnum beri að fara eftir eigin sannfæringu sé mikilvæg. „Hún ber með sér þá forsendu að þingmenn geti verið ósammála þótt þeir stefni að sama marki, sem við gerum öll, sem er að efla þjóðarhag. Rökræða og jafnvel rifrildi er mikilvæg forsenda þess að við leiðum fram kosti og galla hvers máls. Við þurfum því að sýna skoðunum annarra stundum meiri virðingu en gert er í hanaslag alnetsins og hollt er að muna að enginn er handhafi alls hins rétta og góða í samfélaginu.“
Sagði gagnrýnisraddir oft byggja á kvenfyrirlitningu
Varaformaður Vinstri grænna og nýr félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, talaði næstur fyrir hönd flokks síns.
Hann sagði mikilvæg skref hafa verið stigin í stórum málaflokkum á síðasta kjörtímabili og nefndi þar aðgerðir í loftslagsmálum, nýja stefnu í heilbrigðismálum og réttlátara skattkerfi. „Ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vill stíga stærri skref í átt að meiri jöfnuði og réttlátara samfélagi þar sem við getum öll lifað með reisn. Í viðleitni okkar til að skapa réttlátara samfélag eigum við að líta til þeirra sem lakast standa. Við eigum að efla skilning á fjölbreytni samfélagsins og tryggja réttindi allra hópa.“
Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, flutti síðustu ræðu Vinstri grænna í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra.
Hún sagði að enn væru Vinstri græn kölluð til verka og aftur undir forystu Katrínar. „Enn heyrast raddir um eftirgjöf og linkind, raddir sem oft byggja á lítilli þekkingu og vanmetakennd en líka kvenfyrirlitningu og eiga stundum rætur í inngróinni vantrú á því að kona geti verið í forystu.“
Svandís sagðist vísa þessum röddum á bug. „Þau okkar sem sjá forsætisráðherra í sínu hlutverki í dagsins önn greina vel að þar sem forystu er þörf og þar sem þarf að leysa flókin verkefni, þar er enginn betri. Þessi skilningur hefur margoft komið fram í afstöðu fólksins í landinu þegar spurt er um leiðtoga. Því er það sérstakt fagnaðarefni að nú í upphafi nýs kjörtímabils skuli hafa náðst öflugri meiri hluti en nokkru sinni fyrr um forystu Katrínar næstu fjögur ár.“
Sjálfstæðisflokkurinn:
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks og fjármála- og efnahagsráðherra, sagði fullveldið ekki vera sjálfsagðan hlut og fullveldisdagurinn 1. desember ætti að vera ærið tilefni til að rifja upp því sem fullveldið hefði skilað okkur sem þjóð.
Á það væri minnst í nýjum stjórnarsáttmála þar sem lögð væri áhersla á alþjóðlegt samstarf og opið frjálst markaðshagkerfi á Íslandi, allt á grunni fullveldisins. „Og við viljum, já, vera utan Evrópusambandsins.“
Hann sagði nýja ríkisstjórn, sem tekin væri til starfa, hafa mjög sterkt umboð. Mjög rífelur meirihluti að baki henni í þinginu væri gott veganesti fyrir stjórnina, sem Bjarni kallaði „stjórn nýrra tækifæra.“
Bjarni sagðist geta fullyrt að Ísland hafi valið rétta leið í baráttunni við afleiðingar kórónuveirufaraldursins. „Við höfum náð frábærum árangri með samstöðunni og á þeirri samstöðu eigum við að byggja áfram í framtíðinni, á grundvelli samstöðu sem skilaði sterkri stöðu. Eftir eitt erfiðasta efnahagslega áfall sem við höfum upplifað erum við í kjörstöðu til að grípa tækifæri samfélagsins, vaxa til velsældar og upphaf þingstarfa er fyrsta skrefið á þeirri leið.“
Fólk óttast afleiðingar kollsteypustjórnmála
Þeir oddvitar Sjálfstæðisflokks sem fengu ekki ráðherraembætti fluttu hinar tvær ræður flokksins í gær. Fyrst steig Guðrún Hafsteinsdóttir í pontu og sagði að það færi vel á því að ríkisstjórnin legði áherslu á að vaxa til velferðar. „Þannig verða til fleiri störf og aukin verðmæti til að standa undir auknum lífsgæðum landsmanna og velferð okkar. Eftir mótlæti og djúpa dýfu sem skrifast á veirufaraldurinn boðar ný ríkisstjórn mjög ákveðna viðspyrnu og stórsókn í atvinnulífinu. Það er boðskapur stjórnarsáttmálans að tryggja einkarekstri enn betri skilyrði til að þróast og dafna, samfélaginu öllu til góðs.
Hún sagðist hafa orðið vör við það á ferðum sínum í Suðurkjördæmi á árinu að ríkisstjórnarsamstarfið hafi notið víðtæks stuðnings og að sama skapi hafi fólk á förnum vegi gefið lítið fyrir málflutning stjórnarandstöðunnar. „Fólk vill stöðugleika og óttast afleiðingar kollsteypustjórnmála. Þess vegna komu úrslit kosninganna mér ekki á óvart og rökrétt var að láta reyna á áframhaldandi samstarf flokkanna þriggja sem mynduðu ríkisstjórn fyrir fjórum árum. Í heildina litið ber stjórnarsáttmáli með sér pólitískan vorblæ nú þegar við erum annars stödd í svartasta skammdeginu.“
Njáll Trausti Friðbertsson talaði um það í ræðu sinni að Ísland þyrfti að taka sig á í þjóðaröryggismálum. Þar sagði hann braka hressilega í svellinu. „Það er bráðnauðsynlegt að öryggi samfélagslegra innviða verði metið með tilliti til þjóðaröryggis landsins og að unnin verði markviss og heilsteypt löggjöf varðandi öryggismál þjóðarinnar. Ég tel nauðsynlegt að slík löggjöf verði samþykkt hér á Alþingi hið fyrsta. Þjóðaröryggislöggjöfin þyrfti m.a. að ná til mikilvægra samgönguinnviða, fæðuöryggis, netöryggis, heilbrigðiskerfisins, raforku- og fjarskiptakerfisins með tilliti til öryggis borgaranna og samfélagsins. Það er umhugsunarefni að nær öll lönd Evrópu búa að slíkri löggjöf og þar er Ísland eitt fárra landa sem teljast til undantekningar.“
Framsóknarflokkurinn:
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, sagði eitt af stóru verkefnum ríkisstjórnarinnar vera að stuðla að uppbyggingu atvinnutækifæra hringinn í kringum landið til að fólk ætti aukna möguleika á því að velja sér þann stað þar sem það vill búa. Orðalagið sem notað væri um þetta í stjórnarsáttmálanum marki tímamót í viðhorfi til þeirra sem starfi hjá ríkinu. „Hér er ekki talað um störf án staðsetningar sem sérstakt atriði heldur er hugsuninni snúið við. Sérstaklega þarf að rökstyðja að störf séu staðbundin. Þetta er stórt mál. Einnig ætlum við að styðja við klasasamstarf hins opinbera og einkaaðila til að búa til starfsaðstöðu á lykilstöðum á landinu, en fyrsta verkefnið af þessu tagi er að hefjast á Selfossi og minni verkefni eru til um land allt.“
Innviðaráðherrann sagði að Ísland væri að hefja nýja sókn. Ríkisstjórnin ætlaði sér að leggja upp með bjartsýni á framtíðina og á kraftinn sem búi í þjóðinni. „Það er einlæg trú mín að samstarf þessara þriggja flokka, Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, flokka sem já, spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapi jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara. Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er sáttmáli um að græn réttlát framtíð sé grundvöllur aukinna lífsgæða um land allt.“
Íslenskt listafólk okkar bestu sendiherrar
Varaformaður Framsóknar og nýr ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, notaði ræðu sína til að tala um menningu, listir og ferðaþjónustu og þau tækifæri sem fólgin séu í nýju ráðuneyti hennar.
Hún sagði einnig að þjóðir heims hefðu mismikil áhrif á söguna og leið þjóða eins og Íslands væri í gegnum hið mjúka vald, eða að hafa áhrif í gegnum menningu og listir. „Ljóst er að íslenskt listafólk hefur verið okkar bestu sendiherrar. Hildur Guðnadóttir, Ragnar Kjartansson, Erna Ómarsdóttir, Laufey Lín, Björk, Friðrik Þór og Arnaldur. Indriðason eru dæmi um slíka sendiherra. Því var það löngu tímabært að þjóðin eignaðist ráðuneyti sem beinir meira sjónum að menningu, listum og skapandi greinum en hingað til ásamt því að hlúa vel að ferðaþjónustu. Stór þáttur í aðdráttarafli Íslands er fólginn í sterku lista- og menningarlífi og brýnt er að hlúa að íslenskri frumsköpun.“
Willum Þór Þórsson, nýr heilbrigðisráðherra, sagðist standa auðmjúkur í pontu þegar hann flutti sína fyrstu ræðu í þessum þinglið sem ráðherra. „Heilbrigðismálin eru og ættu að vera okkur öllum ofarlega í huga, enda heilsan ein okkar dýrmætasta eign. Heimsfaraldurinn hefur í raun minnt okkur rækilega á þá staðreynd. Við slíkar aðstæður kjarnast oft hlutirnir. Við höfum reynt styrkinn í heilbrigðiskerfinu og baráttuviljann sem hefur komið bersýnilega í ljós og verða afrek heilbrigðisstarfsfólks seint fullþökkuð.“
Á hinn bóginn hefði hið mikla aukaálag sem fylgir slíkum aðstæðum líka afhjúpað veikleika í kerfinu. „En það gefur um leið tækifæri til að bregðast markvissar við. Það er forgangsmál þessarar ríkisstjórnar að snúa vörn í sókn, að styrkja og efla gott heilbrigðiskerfi.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars