Stjórnvöld smyrja kjarasamninga með nýjum íbúðum, hærri húsnæðisbótum og nýju barnabótakerfi
Kjarasamningar voru undirritaðir í dag við stóran hóp á almennum vinnumarkaði, og þar með er búið að semja út janúar 2024 við um 80 prósent hans. Laun hækka um 6,75 prósent í 9,3 prósent verðbólgu en þó aldrei meira en um 66 þúsund krónur.
Samningarnir sem Samtök atvinnulífsins undirrituðu við VR, LÍV og samflot iðnaðarmanna í dag gilda frá 1. nóvember síðastliðnum og til 31. janúar 2024. Í þeim felast að almennar launahækkanir verða 6,75 prósent og þær taka gildi frá 1. nóvember síðastliðnum. Hækkunin getur þó að hámarki orðið 66 þúsund krónur, sem þýðir að þak hennar er rétt undir einni milljón króna mánaðarlaunum. Þá var samið um að desemberuppbót fyrir næsta ár verði 103 þúsund krónur og orlofsuppbót 56 þúsund krónur.
Hagvaxtaraukinn svokallaði, sem átti að taka gildi 1. apríl næstkomandi, fellur samhliða niður. Það þýðir að hagvaxtaraukinn fellur inn í launahækkunina. Auk þess taka nýjar launatöflur gildi hjá fólki sem vinnur samkvæmt taxta sem leiða til einhverra hækkana umfram almennu hækkunina.
Þetta kemur fram í kynningu Samtaka atvinnulífsins á samningunum. Með þeim er búið að ljúka skammtímasamningum við meirihluta almenns vinnumarkaðar, en áður hafði verið samið við Starfsgreinasambandið. Um er að ræða 80 þúsund manna hóp. Enn á eftir að semja við um 20 prósent af almenna vinnumarkaðinum og er stærsti bitinn þar Efling, næst stærsta stéttarfélag landsins. Til viðbótar við þann hóp starfa um 61 þúsund manns á opinbera markaðinum og hjá öðrum aðilum.
Gerðir eru skammtímasamningar vegna viðsjárverðra aðstæðna í efnahagslífinu sem birtast í mikilli þenslu og hárri viðvarandi verðbólgu, sem mælist nú 9,3 prósent. Mikil alþjóðleg óvissa vegna stríðsátaka og annarrar sviptinga vigta þar líka inn í.
Samningarnir eru framlenging á lífskjarasamningnum sem gerður var í apríl 2014 og með því er viðræðum um öll önnur atriði en launaliðinn frestað fram í næstu lotu viðræðna, sem stefnt er að því að ljúka seint á næsta ári. Þá er vonast til að verðbólga verði farin að hjaðna verulega og því betri forsendur til að semja til lengri tíma.
Ríkið hækkar húsnæðisbætur
Til að liðka fyrir gerð samninga lögð stjórnvöld til ýmsar aðgerðir sem auka eiga ráðstöfunarfé lág- og millitekjuhópa á Íslandi.
Þessar aðgerðir snúa að húsnæðismálum, húsnæðisstuðningi og auknum barnabótum. Sumar þeirra hafa verið kynntar áður, en aðrar eru nýjar af nálinni þótt þeirra hafi verið getið í stjórnarsáttmála.
Á meðal endurnýttra aðgerða eru uppbygging 35 þúsund íbúða á næsta áratug, en nýja bragðefnið í þeim pakka er að 30 prósent þeirra verði hagkvæmar og á viðráðanlegu verði og fimm prósent þeirra félagslegar. Þá verður áfram unnið að stækkun almenna íbúðakerfisins, sem rekið er af óhagnaðardrifnum leigufélögum, og stofnframlög til þeirra verða fjórir milljarðar króna á næsta ári.
Húsnæðisbætur til leigjenda verða hækkaðar um 13,8 prósent í byrjun næsta árs og tekjuskerðingarmörk húsnæðisbóta verða hækkuð um 7,4 prósent. Þetta kostar 1,1 milljarð króna og eftir hækkunina verða húsnæðisbætur alls 9,6 milljarðar á næsta ári. Áætlanir gera ráð fyrir að 16.800 heimili fái húsnæðisbætur á árinu 2023.
Eignaskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu hækka um 50 prósent í upphafi árs 2023 og almenn heimild til nýtingar á séreignarsparnaði til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða ráðstöfunar inn á höfuðstól verður framlengd til ársloka 2024
Þá á að taka fyrirkomulag sérstaks húsnæðisstuðnings og húsnæðisbóta til leigjenda til skoðunar á samningstímanum með það að markmiði að tryggja jafnræði og einfalda kerfið fyrir leigjendur.
Nýtt barnabótakerfi
Stóra nýja kerfisbreytingin sem kynnt er til leiks snýr að barnabóta. Það er gert með því að einfalda kerfið þar sem dregið er úr skerðingum og jaðarskattar af völdum barnabóta verða lækkaðir. Þá verða teknar upp samtímagreiðslur barnabóta sem þýða að þær fara að greiðast í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir að barn fæðist í stað þess að bíða þurfi fram að næstu áramótum til að fá barnabætur. Þessi breyting á að skila því að fjölskyldum sem fá barnabætur fjölgað um 2.900.
Heildarfjárhæð barnabóta verður fimm milljörðum krónum hærri en í óbreyttu kerfi á næstu tveimur árum eftir að breytingin tekur gildi.
Á meðal annarra mála sem stjórnvöld ætla að vinna að á samningstímanum eru stuðningur til að auka aðhald á neytendamarkaði, með því að veita tíu nýjum milljónum króna í það verkefni. Þá á að skoða leiðir til að auðvelda lífeyrissjóðum að fjárfesta í íbúðarhúsnæði til útleigu og leggja mat á greiðslur og hámarksfjárhæðir í fæðingarorlofssjóði og ábyrgðarsjóði launa með það að markmiði að þær verði endurskoðaðar 2024.
Heildarendurskoðun atvinnuleysistrygginga á svo að ljúka eigi síðar en í lok apríl 2023 og á að leiða tii innleiðingar á umbótum.
Þá verða málefni og fjármögnun vinnustaðanámssjóðs endurskoðuð í tengslum við fjármálaáætlun til að styðja við markmið um aukið vægi starfsnáms.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
26. desember 2022Árið 2022: Húsnæðismarkaðurinn át kaupmáttinn
-
23. desember 2022Íslensk veðrátta dæmd í júlí
-
22. desember 2022Verðbólgan upp í 9,6 prósent – Einungis tvívegis mælst meiri frá 2009
-
21. desember 2022VR búið að samþykkja kjarasamninga – 82 prósent sögðu já
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
19. desember 2022Kjarasamningur SGS samþykktur hjá öllum 17 aðildarfélögunum
-
18. desember 2022Kaupmáttur ráðstöfunartekna ekki dregist jafn mikið saman í næstum tólf ár