Sænski herinn hefur síðan á föstudag leitað í skerjagarðinum utan við Stokkhólm að því sem þeir kalla „erlendum aðgerðum neðansjávar“. Leitað er úr herskipum og flugvélum en herinn hefur varist fregna af málinu og ekki viljað staðfesta eða hrekja sögusagnir um að rússneskur kafbátur valdi þessum usla.
„Við erum að reyna að sannreyna upplýsingar sem okkur bárust á föstudag, sem að okkar mati koma úr traustum heimildum, og sjá hvort einhver fótur sé fyrir þessum upplýsingum,“ sagði Jesper Tengroth, upplýsingafulltrúi sænska hersins við sænska fjölmiðla á laugardag. Spurður hvort eitthvað sérstakt ríki liggi frekar undir grun en annað sagðist hann ekki getað svarað. Á vef hersins er haft eftir Jonas Wikström, stjórnanda aðgerðanna, að ástæðan fyrir því að svæðið úti fyrir skerjagarðinum sé nú kortlagt af svo miklum móð sé að þarna sé mikil umferð sjófara.
[google_map width="100%" height="200 px" src="https://www.google.com/maps/embed?pb=!1m14!1m8!1m3!1d260256.57361456432!2d18.69487412109374!3d59.36209160880053!3m2!1i1024!2i768!4f13.1!3m3!1m2!1s0x46f5708488b7ab0d%3A0xb71e517625b40c61!2sKanholmsfjarden%2C+Sweden!5e0!3m2!1sis!2sse!4v1413802832702"]
Þó leitin hafi enn ekki borið árangur hefur ekkert verið dregið úr krafti leitarinnar. Dag Enander, talsmaður hersins, sagði í morgun að herinn hefði „gott úthald“ og mundi ekki gefast upp á næstu dögum jafnvel þó ekkert fyndist.
Herinn birti myndir í gær af furðulegu sjófari í skerjagarðinum utan við Stokkhólm. Ljósmyndarinn segist hafa séð eitthvað á yfirborði vatnsins og smellt af en eftir að hann tók myndina hvarf það ofan í hafið á ný. Í samtali við Svensk Dagbladet í dag segist hann sannfærður um að þetta hafi verið rússneskur kafbátur. Myndina má sjá hér að neðan.
Þrjár vísbendingar frá sjónvarvottum hafa borist um staðsetningu kafbátsins, allar í fjörðunum yst í skerjagarðinum utan við Stokkhólm. Vísbendingarnar eiga jafnframt að hafa borist á föstudag og sunnudag svo einhverstaðar er kafbáturinn þarna enn, ef um kafbát er að ræða.
Á myndinni sést hvar eitthvað skýtur upp kollinum í skerjagarðinum utan við Stokkhólm. Herinn hefur ekki staðfest hvaðan þetta sjófar er eða hverrar gerðar það er. Getgátur eru um að þarna sé rússneskur kafbátur á ferð.
Öll spjót beinast að Rússum
Svenska dagbladet greindi frá því í gær að kafbáturinn væri rússneskur og að öllum líkindum bilaður eða laskaður en sænski herinn hefur hvorki staðfest né hrakið þær fréttir. Útskýring dagblaðsins á því hvers vegna kafbáturinn hafi skotið sér upp á yfirborðið er að sé kafbátur bilaður eða laskaður getur verið erfitt að halda stjórn á honum.
Kafbátur í slíku ásigkomulagi þarf aðstoð frá öðru og stærra skipi og benti blaðið á furðulegt háttalag NS Concord, stórs olískips í eigu rússa, á miðju Eystrasalti. Skipið virðist hafa lagt af stað frá Sankti Pétursborg, silgt út Finnlandflóa og svo hringsólað á Eystrasalti norðan Gotlands. Skipið var opinberlega á leið til Danmerkur.
Í dag barst svo yfirlýsing frá forstjóra skipafélagsins sem gerir út NS Concord þar sem hann segist vera „upp með sér“ vegna aukins áhuga á siglingum skipsins en að enga tengingu megi finna við kafbátaleitina í Svíþjóð. Skipið sé aðeins að bíða fyrirmæla um hvar það skuli ferma lestir sínar.
Siglingaleið NS Concord frá Sankti Pétursborg og hringeggjan á Eystrasalti um helgina.
Anders Grenstad, aðmíráll í sænska hernum, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Stokkhólmi í gær en vildi ekki segja hvort um kafbát eða kafbáta væri að ræða. „Upplýsingarnar sem herinn hefur undir höndum gefa ekki vísbendingu um að hér sé á ferðinni laskaður rússneskur kafbátur,“ sagði hann. Þegar eftir því var leitað vildi Grenstad ekki segja hvort herinn telji Rússa vera líklegustu sökudólgana.
Á sunnudag kom einnig fram að rússneskt rannsóknarskip sem búið er búnaði til leitar neðansjávar stefni í átt til Stokkhólms. Á MarineTracker.com má sjá að skipið var statt fyrir minni Finnlandsflóa um miðjan dag í gær. Stefna skipsins er sögð vera á Las Palmas á Kanaríeyjum.
Christian Allerman, sænskur diplómati sem sinnt hefur verkefnum fyrir sendinefnd Svíþjóðar í Moskvu, sagði í viðtali við TT-fréttaveituna sænsku að Rússar væru líklegastir enda væri þar á ferð ríki sem ekki vildi að Svíar ræktuðu tengsl sín frekar við NATO. „Ef þarna er um manngert farartæki að ræða þá er líklegasta að erlent herríki standi hér að baki,“ sagði Allerman.
Hann sagði að líklegast væri herinn að leita að kafbátum eða köfurum. „Þetta eru smáir kafbátar, eða jafnvel hefðbundnir kafbátar sem ná 60 eða 70 metra lengd. Það seinna er þó ólíklegra.“
Rússar segast ekkert kannast við kafbátinn og hafna því alfarið að þeir standi fyrir „aðgerðum neðarsjávar“. Ónefndur embættismaður í Moskvu segir kafbátinn hollenskan. Hann hafi verið í Tallin á föstudag en sendur þaðan til Svíþjóðar. „Til að eyða spennunni í Eystasalti og til að spara sænskt skattfé ætti flotastjórnin að snúa sér til Hollands til að fá skýringar,“ sagði ónefndi embættimaðurinn.
Hollensk yfirvöld hafna því alfarið að kafbáturinn þeirra sé inn á milli skerjanna í Svíþjóð. „Við tókum þátt í heræfingu með Svíum í síðustu viku. Henni lauk á fimmtudag. Bruinvis-báturinn hélt til Eistlands þar sem hann hefur legið við bryggju yfir helgina. Báturinn er nú á leið til Hollands,“ sagði Marnoes Visser, talsmaður hollenska varnarmálaráðuneytisins við AFP-fréttaveituna.
Bruinvis-kafbáturinn hollenski sem Rússar segja að hafi siglt inn í skerjagarðinn í Svíþjóð.
Erlend öfl 50 km frá Stokkhólmi
Hernaðarsérfræðingur við Varnarmálaháskóla Svíþjóðar segir vaxandi spennu á Eystrasalti einfaldlega kalla á svona mikil viðbrögð við einhverju sem kann að reynast ómerkilegt.
„Það er til að sýna að við séum með allt á hreinu,“ segir sérfræðingurinn Stefan Ring. Hann vildi þó fara stíga varlega til jarðar og benti á að rannsaka þyfti atburðinn vel áður en hægt væri að benda á sökudólga.
Undanfarna mánuði hafa Rússar fært sig upp á skaftið í Eystrasalti. Svíar hafa til dæmis opinberlega kvartað undan hernaðaraðgerðum Rússa þar. Tilefni kvörnunarinnar var þegar SU24-orustuflugvél flaug inn i loftrými Svía og flaug gríðarlega nálægt sænskum farþegaþotum. Carl Bildt, þáverandi utanríkisráðherra, sagði þetta vera mestu „loftinnrás“ Rússa í nærri en áratug.
En hvaða ástæður gætu legið að baki þegar erlend herskip eru komin í 50 kílómetra radíus við höfuðborg Svíþjóðar? Johan Wiktorin, meðlimur í hernaðarfræðasetri Konunglegu akademíunar, telur þrjár líklegar ástæður í samtali við sænska vefmiðilinn The Local.
„Þeir gætu verið að kortleggja hafsvæðið til að geta auðveldar silgt þarna ef til ófriðar kemur. Þeir gætu verið að koma fyrir einhverjum búnaði, skynjurum jafnvel, sem gætu fylgst með herdeildum okkar á þessu svæði. Eða, þeir gætu verið að hlera varnarkerfi okkar, ef við höfum eitthvað á þessu svæði,“ sagði Wiktorin.
Á blaðamannafundinum í gær kom fram að sænski herinn hafi fylgst sérstaklega með þessu svæði í nokkur ár. Wiktorin segist hafa verið hissa að heyra það því það bendi enn frekar til þess að eitthvað bjáti á. Hann telur sænska herinn þó vel geta sinnt verkefnum á borð við þetta þrátt fyrir niðurskurð til varnarmála undanfarin misseri.
Rússar hafa áður lent í vandræðum við Svíþjóð
Í október 1981 silgdi rússneskur kafbátur í strand tvo kílómetra sunnan við aðalflotastöð sænska hersins í Karlskrona. Báturinn sat fastur á skeri í tíu daga áður en hægt var að losa hann en þessi atburður og alþjóðakrísan sem fylgdi í kjölfarið er stundum kallaður „Whiskey on the Rocks“.
Rússneski herinn var fljótur að senda björgunarleiðangur á staðinn sem samanstóð af þungvopnuðum tundurspillum og togbátum, en á sama tíma og kafbáturinn strandaði stóð yfir heræfing á sama svæði. Svíar stóðu fast á sínu og meinuðu sovéska flotanum að koma inn í lögsögu sína með þeim afleiðingum að það lá við átökum.
The last time a #Russia sub 'got lost' in Swedish waters was 1981. It was dubbed 'Whiskey on the rocks' incident. pic.twitter.com/Io5p4JbiWO
— Not a spy (@finriswolf) October 18, 2014
Svíarnir rannsökuðu kafbátinn og siglingabækur hans til að komast að því hvað Sovétmenn vildu í sænska lögsögu. Skipstjórinn var jafnframt yfirheyrður í Svíþjóð. Það sem olli kannski mestum áhyggjum var að eftir að sænski flotinn hafði gert leynilega könnun á geislnavirkni í sovéska bánum kom í ljós að í turdurskeytahlaupinu á bakborða var mjög líklega kjarnorkuvopn.
Síðar kom í ljós að áhöfninni hafði verið skipað að eyða kafbátnum og kjarnavopnunum ef svíar reyndu að komast yfir bátinn.
Óvopnaður sænskur flotaforingi hafði verið sendur um borð í kafbátinn rússneska til að leita svara við því hvers vegna þeir hefðu brotið landhelgina. Rússneski skipstjórinn svaraði því til að leiðsögubúnaður hafi bilað, jafnvel þó báturinn hafi þurft að sigla um mjög erfitt siglingasvæði til að komast inn í lögsögu Svía. Sovéski sjóherinn skýrði svo síðar frá því að vegna neyðaratviks hafi kafbáturinn þurft að komast í grynningar, jafnvel þó neyðarkall hafi aldrei borist.
Lesa má nánar um þessa áhugaverðu alþjóðadeilu árið 1981 á Wikipedia.