Stytting vinnuvikunnar og aukin framleiðni eru meðal helstu atriða til umfjöllunar í komandi kjarasamningum ýmissa stéttarfélaga og samtaka vinnuveitenda. Ísland er eftirbátur viðmiðunarríkja þegar kemur að framleiðni vinnuafls, reiknuð sem landsframleiðsla á hverja vinnustund. Því vilja bæði launþegar og atvinnurekendur breyta, enda allra hagur. Heyra má samhljóm um vandamálið þótt aðilar séu ekki endilega á einu máli um hvernig það megi leysa – og auka framleiðni íslensks vinnuafls.
Það er í sjálfu sér ekki ný staða að Ísland komi illa út úr samanburði við önnur ríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, þegar framleiðni vinnuafls er borin saman. Slík hefur staðan verið um árabil. Árið 2013 var Ísland í 17. sæti á lista yfir framleiðni ríkjanna. Í samanburði við meðaltal framleiðni tíu efstu ríkjanna þá er framleiðni vinnuafls á Íslandi aðeins um 73% af framleiðni tíu efstu ríkjanna. Í skýrslu McKinsey frá 2012 um Ísland og vaxtamöguleika sagði að framleiðni á Íslandi væri að jafnaði um 20% minni en í viðmiðunarríkjum.
Hér fyrir neðan má sjá framleiðni vinnuafls, reiknað sem landsframleiðsla á hverja vinnstund í dollurum, árið 2013. Sú staðreynd að Ísland er yfir meðaltali OECD ríkja þegar litið er til landsframleiðslu á mann, en undir meðaltali þegar litið er til framleiðni á vinnuafls, segir einfaldlega að við sækjum hagsæld með lengri vinnudegi en aðrar þjóðir.
Grunnlaunin dugi til framfærslu
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.
Guðmundur Ragnarsson, formaður félags Vélstjóra og málmtæknimanna (VM), segir mikilvægt að auka framleiðni meðal sinna félagsmanna og að lausnin felist í hækkun grunnlauna. Að hans mati er íslenskur vinnumarkaður fastur í vítahring og ráðast þurfi í grundvallarbreytingar til þess auka framleiðni og komast úr vítahringnum. „Davinnulaun duga ekki fyrir framfærslu. Því þurfa allir að vinna aukavinnu til þess að framfleyta sér og fjölskyldunni. Starfsmenn geta vel framkallað sama vinnuframlag á átta tímum, sem þeir gera í dag á tíu til tólf tímum.,“ segir hann og bendir á að framleiðni á Íslandi hafi í samanburði við aðrar þjóðir verið léleg í áratugi.
Rúm fjögur ár eru síðan VM fór að ræða þátt framleiðni af mikilli alvöru og kortleggja hvernig hana megi auka meðal félagsmanna. Af aðildarfélögum Alþýðusambandsins, þá er VM komið einna lengst launþegahreyfinga í þessari vinnu.
Kröfur VM eru ekki að stytta 40 stunda vinnuvikuna, heldur að vinda ofan af aukavinnu og framkvæma það sama og gert er í dag á venjulegum vinnutíma á ásættanlegum dagvinnulaunum, segir Guðmundur.
Kúltúrinn þarf að breytast
Spurður hvort vandamálið felist í íslenskum „vinnukúltúr“ tekur hann að að hluta undir það. „Bæði við og atvinnurekendur verðum vör við breyttar áherslur. Á síðustu tíu árum eða svo hefur ungt fólk komið út á vinnumarkaðinn og hefur allt annað viðhorf en fyrri kynslóðir. Þau segja: Við ætlum að eiga líf eftir vinnu. Þetta sáum við til dæmis í læknadeilunni, þar sem lækarnir sýndu að þeir ætli ekki að eiga heima á Landspítalanum og vera annars á bakvakt heima hjá sér,“ segir hann.
„Á Íslandi viðgengst mikill vinnutími og orsökin er lág dagvinnulaun. Ég fullyrði að ef við hækkum þau þá gerum við það sama á átta vinnustundum og gert er í dag á tíu til tólf tímum. Við verðum að komast út úr þessum vítahring með því að framkvæma vinnuna á styttri tíma. Framleiðni vinnuafls mun þá mælast eins og hjá siðuðum þjóðum,“ segir Guðmundur.
Stærðaróhagkvæmni og rangir hvatar
Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur SI.
Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, telur nokkrar ástæður geta skýrt hvers vegna framleiðni íslensks vinnuafls mælist svo illa í samanburði. Samtök iðnaðarins hafa látið þátt framleiðni sig sérstaklega varða og gáfu meðal annars út blað í fyrra sem hét einfaldlega „Aukum framleiðni“.
„Ein ástæðna er sú að við erum þjökuð af stærðar-óhagkvæmni. Rekstrareiningar á Íslandi eru margar ótrúlega litlar. Það eru þúsundir fyrirtækja í byggingariðnaði og helmingur þeirra er með einn starfsmann.“ Í þessu felst mikil óhagkvæmni, þegar sami starfsmaðurinn þarf að ganga í mörg, mismunandi verk, segir Bjarni Már.
„Önnur möguleg skýring snýr að opinbera geiranum. Ýmsar grunnstofnanir eru að ákveðinni lágmarksstærð. Dæmi um slíka stofnun er Tryggingastofnun. Ef íbúafjöldi tvöfaldast þá þyrfti Tryggingastofnun, eða aðrar ríkisstofnanir, ekki að tvöfaldast að stærð,“ skýrir hann.
Þriðja skýringin á lítilli framleiðni vinnuafls snýr að yfirvinnutímum og röngum hvötum. „Við viljum öll standa okkur vel í vinnunni en einnig bera sem mest úr bítum. Á Íslandi er yfirvinnutíminn 80 prósent dýrari en dagvinnutíminn [þ.e. yfirvinna greiðir 80 prósent meira en dagvinna]. Í Hollandi, svo dæmi sé tekið, er yfirvinnutíminn 20 prósent dýrari. Það er hvati til staðar fyrir starfsmenn að reyna að ná í þessari launahærri vinnustundir.“ Bjarni segir þetta skapa ranga hvata til þess að reyna að vinna á hærri launataxta.
Hvort kemur á undan?
Bjarni Már og Guðmundur tala báðir um mikilvægi þess að unnið sé á vinnutíma, það er að starfsfólk sé ekki að skreppa eða í persónulegum útréttingum á vinnutíma. Það dragi augljóslega úr framleiðni, það er vinnuframlagi á hverri vinnstund. Guðmundur talar fyrir hærri dagvinnulaunum, svo launþegar þurfi ekki að vinna yfirvinnu, og Bjarni Már segir það til skoðunar hvort breyta eigi eðli kjarasamninga þannig að greitt sé fyrir vinnuframlag. Þessar nálganir á vandann eru ekki andstæður, þótt þær séu ekki nákvæmlega eins.
En hvort er það sem kemur á undan, laun eða framleiðni? Myndi launahækkun skila aukinni framleiðni eða þarf aukna framleiðni til þess að hægt sé að hækka laun? Þessu er ekki auðsvarað, að mörgu leyti snýst umræðan um þessa spurningu og ekki myndu allir hag- eða sérfræðingar á vinnumarkaði gefa sama svarið.
Viðar Ingason, hagfræðingur VR.
Viðar Ingason, hagfræðingur VR stéttarfélags, skrifar athyglisverða grein í nýjasta tölublaði VR blaði. Þar segir hann: „Yfirleitt er gert ráð fyrir því að framleiðni þurfi fyrst að aukast, svo hækki launin. Margar hagfræðikenningar og rannsóknir sýna að sambandið sé frá auknum launahækkunum til aukinnar framleiðni. Hækkun launa getur vissulega haft áhrif á verðlag en atvinnurekendur leita oft annarra leiða til að mæta hækkun launa en að velta þeim út í verðlag. Þeir reyna til að mynda að auka afköst með því að auka starfshæfni starfsfólks og menntunarstig sem getur leitt til virðisauka. Þannig eykst framleiðni eftir að laun hækka. Starfsfólk getur einnig lagt sig meira fram eftir að laun þess hækka, þar sem nú er meira í húfi. Þannig virka launahækkanir sem hvatning til að gera betur,“ skrifar Viðar.