Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra áformar að koma á laggirnar heildstæðu viðurlagakerfi vegna brota á helstu lögum á sviði fiskveiðistjórnar. Auk þess áformar hún að leggja til að hugtakið raunveruleg yfirráð við framkvæmd reglna um hámarksaflahlutdeild og tengdra aðila verði afmarkað nánar.
Þetta kemur fram í skjölum sem lögð hafa verið fram til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda. Þar segir að lagafrumvarp verði lagt fram á árinu 2023.
Ekki er tilgreint í hverju breytingarnar á viðurlagakerfi eigi að felast né hvernig ráðherrann hefur hug á því að afmarka hugtakið nánar. Í skjalinu segir þó að áformin komi ekki inn á svið stjórnarskrár og þjóðréttarskuldbindinga. „Takmarkanir á eignarrétti koma inn á svið stjórnarskrár en ekki er áformað að koma fram með nýjar takmarkanir heldur vinna með takmarkanir sem fyrir eru í lögum um stjórn fiskveiða og stuðla að skilvirkara eftirliti og framkvæmd.“
Gert er ráð fyrir að áformin muni leiða af sér fjárhagsáhrif fyrir ríkissjóð. Þau hafa þó ekki verið metin enn sem komið er. Um er að ræða hugsanlega auknar tekjur hvað varðar innheimtu á sektum og þjónustugjöldum sem myndu leggjast á útgerðarfyrirtæki. Auk þess gæti aukinn kostnaður fallið til vegna skilvirkara eftirlits. Í skjölunum stendur að sá samfélagslegi ávinningur sem sé af breytingunum feli í sér „öflugra eftirlit með fiskveiðiauðlindinni“ sem muni hafa “jákvæð samfélagsleg áhrif til lengri tíma litið.“
Þegar drög að lagafrumvarpi liggja fyrir verða þau birt í samráðsgátt stjórnvalda.
Svört skýrsla Ríkisendurskoðunar
Í desember 2018 skilaði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt um eftirlitshlutverk Fiskistofu. Skýrslan var gerð opinber í janúar 2019. Þar fékk stofnunin töluvert bága umsögn fyrir framkvæmd þess eftirlits sem henni er ætlað að hafa með höndum. Eftirlit með brottkasti var til dæmis sagt afar takmarkað, veikburða og ómarkvisst. Þá var eftirlit með vigtun sjávarafla einnig gagnrýnt. Þegar hefur verið brugðist við, að hluta, með því að breyta lögum þannig að hægt sé að hafa eftirlit með brottkasti með drónum.
Frumvarp lagt fram í fyrra sem var ekki afgreitt
Annað atriði sem verulegar athugasemdir voru gerðar við í skýrslunni, og vakti mikla athygli, var að Fiskistofa kannaði ekki hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum, eða kvóta, væru í samræmi við lög.
Umrædd lög eru skýr. Þau segja að enginn hópur tengdra aðila megi halda á meira en tólf prósent af heildarafla. Þau mörk eiga að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í sjávarútvegi á meðal þeirra fyrirtæki sem fá að vera vörsluaðili fiskimiðanna, sem eru samkvæmt lögum þó ekki eign þeirra heldur þjóðarinnar.
Í skýrslunni var meðal annars lagt til að ráðast í endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem snúa að yfirráðum yfir aflaheimildum og ákvæðum sem fjalla um tengsl aðila „svo tryggja megi markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda“.
í kjölfarið var skipuð verkefnastjórn sem hafði meðal annars það verkefni að tryggja markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda. Hún skilaði skýrslu í júní 2020 og Kristján Þór Júlíusson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagði fram frumvarp í apríl í fyrra sem sagt var byggja á þeirri vinnu. Í greinargerð þess sagði að megintilgangur þess væri að koma á heildstæðu viðurlagakerfi vegna brota á lögum á sviði fiskveiðistjórnar, að heimildir Fiskistofu til að sinna rafrænu eftirliti yrðu styrktar og að hugtakið raunveruleg yfirráð við framkvæmd reglna um hámarksaflahlutdeild yrði afmarkað betur. Það frumvarp náði ekki fram að ganga.
Í þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar kom fram að nýr ráðherra málaflokksins, Svandís Svavarsdóttir, ætlaði að leggja það fram að nýju í janúar 2022. Af því varð ekki en núna hefur hún boðað að frumvarp verði lagt fram á næsta ári.
Mikil samþjöppun á fáum árum
Mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi á Íslandi á undanförnum áratugum, eftir að framsal kvóta var gefið frjálst og sérstaklega eftir að heimilt var að veðsetja aflaheimildir fyrir bankalánum, þótt útgerðarfyrirtækin eigi þær ekki í raun heldur þjóðin. Slík heimild var veitt árið 1997.
Haustið 2020 héldu tíu stærstu útgerðir landsins með samanlagt á 53 prósent af úthlutuðum kvóta, en Kjarninn greindi frá því í nóvember í fyrra að það hlutfall væri komið upp í rúmlega 67 prósent. Samþjöppunin jókst svo enn í sumar við kaup Síldarvinnslunnar á Vísi.
Samkeppniseftirlitið hefur lengi haft til skoðunar möguleg raunveruleg yfirráð yfir stærstu blokkinni í íslenskum sjávarútvegi, þeirri sem hverfist utan um Samherja. Eftirlitið birti frummat í febrúar 2021 þar sem niðurstaðan var sú vísbendingar væru um að Samherji og tengd félög væru með raunveruleg yfirráð yfir Síldarvinnslunni og að samstarf væri á milli útgerða í blokkinni.
Kjarninn greindi frá því um miðjan júlí að engin ákvörðun hefði enn verið tekin um hvort ráðist yrði í formlega rannsókn á yfirráðum Samherja og tengdra aðila yfir Síldarvinnslunni og samstarfi þeirra á milli.
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji og félagið Kjálkanes, sem er í eigu sömu einstaklinga og eiga útgerðina Gjögur frá Grenivík. Þar er meðal annars um að ræða Björgólf Jóhannsson, sem var um tíma annar forstjóri Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum, meðal annars systkini hans. Auk þess á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, 15 prósent hlut í öðru félagi, Eignarhaldsfélaginu Snæfugli, sem á hlut í Síldarvinnslunni. Á meðal annarra hluthafa í Snæfugli er Björgólfur.
Að mati eftirlitsins voru veruleg tengsl milli stórra hluthafa í Síldarvinnslunni og þrír af fimm stjórnarmönnum í Síldarvinnslunni á þeim tíma voru skipaðir af eða tengdir Samherja og Kjálkanesi. Einn þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sem er stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja, var í fyrrahaust með fjórðu mestu aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 8,09 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, hélt svo á 1,1 prósent kvótans.
Gjögur, sem er í eigu sömu aðila og eiga Kjálkanes, hélt á 2,5 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum.
Þessir aðilar: Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur, sem Samkeppniseftirlitið telur mögulegt að séu tengdir, héldu því samtals á 22,14 prósent af öllum úthlutuðum kvóta í nóvember í fyrra.Í sumar bættist 2,16 prósent kvóti Vísis við og samanlagður úthlutaður kvóti til Samherja og mögulegra tengdra aðila fór upp í 24,3 prósent, eða næstum fjórðung allra úthlutaðra aflaheimilda á Íslandi.