Síðastliðinn þriðjudag, 7. júní, boðaði sænski atvinnumálaráðherrann, Karl-Petter Thorwaldsson til fréttamannafundar, með skömmum fyrirvara. Á fundinum tilkynnti ráðherrann að Svíar væru ekki tilbúnir að leggja SAS flugfélaginu til aukið fjármagn. „SAS verður að leita annað eftir fjármagni, sænski peningakassinn er lokaður,“ sagði ráðherrann. Þessi yfirlýsing ráðherrans vakti athygli og verður ekki til að draga úr erfiðleikum SAS sem voru þó ærnir fyrir.
Nokkrum dögum fyrir fréttamannafund sænska ráðherrans tilkynnti stjórn SAS að áætlun félagsins sem sett var fram fyrr á þessu ári, nefnd SAS forward, um niðurskurð og sparnað gengi ekki eftir. Nú þarf félagið nauðsynlega á auknu fé að halda, að mati stjórnenda þess 6,8 milljarða danskra króna (127 milljarða íslenska) til að halda rekstrinum gangandi og SAS forward áætlunin gangi upp. Nú virðist ljóst að þeir peningar komi ekki úr sænska ríkiskassanum. En í orðum sænska atvinnumálaráðherrans lá fleira.
Vilja draga sig út úr SAS
Karl-Petter Thorwaldsson sagði á áðurnefndum fréttamannafundi að þótt sænska stjórnin styddi neyðaráætlun SAS stefndi stjórnin jafnframt að því að draga úr eignarhaldi sænska ríkisins í félaginu. Sænska ríkið á nú 21.8 prósenta hlut í SAS, danska ríkið á annað eins og aðrir aðilar afganginn. Félagið var skráð á hlutabréfamarkað árið 2001.
Scandinavian Airlines System, eins og félagið hét upphaflega var formlega stofnað 1. ágúst 1946. Tilgangurinn með stofnun SAS, eins og félagið hefur frá upphafi verið kallað, var að sameina millilandaflug þriggja félaga: Svensk Interkontinental Lufttrafik, Det Danske Luftfartselskab og Det Norske Luftfartselskap. Félögin þrjú héldu áfram innanlandsflugi, hvert í sínu landi, næstu árin en eftir 1950 náði starfsemi félagsins (sem nú heitir Scandinavian Airlines) einnig til innanlandsflugsins.
Norðmenn drógu sig út úr SAS árið 2018 og ef Svíar fara sömu leið standa Danir einir stofnendanna eftir.
Setur Dani í mikinn vanda
Yfirlýsing Svía kemur á afar óheppilegum tíma fyrir SAS. Félagið, sem er mjög skuldugt, á í viðræðum við lánadrottna um að breyta skuldum í hlutafé og ákvörðun Svía auðveldar ekki þá samninga. Jafnframt á félagið í viðræðum við stéttarfélög um breytt fyrirkomulag í því skyni að draga úr kostnaði.
Danska ríkisstjórnin hefur enn sem komið er lítið vilja segja en Nicolai Wammen fjármálaráðherra sagði í viðtali við danska útvarpið að stjórnin myndi, um miðjan þennan mánuð, greina frá áætlunum sínum varðandi framtíð SAS. Í viðtölum við fjölmiðla hafa margir danskir stjórnmálmenn lýst þeirri skoðun að mikilvægt sé að tryggja rekstur SAS, en áætlanir þar að lútandi verði að vera raunsæjar og lúta ákveðnum skilyrðum.
Hverjir eru möguleikarnir?
Ljóst er að SAS þarf nauðsynlega á auknu fjármagni að halda til að tryggja áframhaldandi rekstur. Spurningin er hvaðan þeir peningar geti komið. Miðað við ummæli danskra stjórnmálamanna, bæði stuðningsflokka stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar virðist líklegt að þingið muni samþykkja að styðja við bakið á SAS.
Danskir fjölmiðlar hafa leitað álits fjármálasérfræðinga og spurt hverjir gætu hugsanleg haft áhuga fyrir að fjárfesta í SAS. Án þess að nefna tiltekna fjárfesta eða fyrirtæki sögðu þeir sem leitað var til að líklegt væri að kaupendur fyndust að hlut í SAS, eða jafnvel félaginu öllu. Vitað er að þýska flugfélagið Lufthansa hefur lengi rennt hýru auga til SAS og myndi að líkindum íhuga alvarlega að komast þar til áhrifa.
Hver yrði staða Kastrup flugvallar?
Í tengslum við hugsanlegar breytingar á eigendahópi SAS, einkum ef nýir fjárfestar, aðrir en danskir koma til sögunnar vakna spurningar varðandi framtíð Kastrup flugvallar. Þingmenn hafa í samtölum við fjölmiðla lagt mikla áherslu á mikilvægi flugvallarins. Í dag starfa um 14 þúsund manns á flugvellinum og fer fjölgandi, fyrir kórónaveiruna vorum starfsmenn um 22 þúsund.
Kaupmannahöfn er vinsæll ferðamannastaður, milljónir ferðamanna heimsækja borgina ár hvert, og tekjurnar vegna þeirra skipta verulegu máli í danska þjóðarbúskapnum. Ef erlendir fjárfestar kæmu að rekstri SAS er, að mati danskra sérfræðinga, ekki öruggt að Kastrup flugvöllur yrði sama „umferðarmiðstöðin“ og nú er. Troels Lund Poulsen, fyrrverandi atvinnumálaráðherra og fjármálatalsmaður, Venstre, stærsta stjórnarandstöðuflokksins á danska þinginu, Folketinget, sagði í viðtali við danska útvarpið, að allt þetta yrði að taka með í reikninginn þegar rætt væri um framtíð SAS. „Að mati okkar í Venstre má SAS ekki fara í þrot.“
Flugmenn boða verkfall ef ekki semst
Að morgni síðastliðins fimmtudags, 9. júní, sendi félag flugmanna hjá SAS, Dansk Pilotforening, frá sér tilkynningu. Þar kom fram að eftir margra mánaða samningaviðræður, sem engu hefðu skilað, væri boðað til verkfalls frá og með 24. júní, ef samningar nást ekki fyrir þann tíma. Um er að ræða þúsund flugmenn, í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Henrik Thyregod, formaður Dansk Pilotforening, sagði í viðtali að flugmenn hefðu lagt sig alla fram en stjórn SAS stæði þversum í öllum samningamálum og verkfall væri síðasta úrræði flugmanna.
Ein helsta krafa flugmanna er að SAS stofni ekki ný dótturfélög í því skyni að ráða flugmenn á öðrum og lakari kjörum en þeir búa nú við. ,,Þessu hefur SAS ekki viljað lofa“ sagði Henrik Thyregod. Nokkrum klukkustundum eftir tilkynningu flugmanna sendi yfirstjórn SAS frá sér yfirlýsingu. Þar segir að hótanir flugmanna sýni algjört skilningsleysi þeirra á stöðu félagsins og þeir setji eigin hagsmuni ofar öðru. „Verkfall flugmanna gæti orðið banabiti SAS,“ segir í yfirlýsingu yfirstjórnarinnar.