Breyting á stuðningi við aðild að Evrópusambandinu
Í könnun sem birt var í Fréttablaðinu 24. nóvember síðastliðinn sögðust 42,8 prósent landsmanna vera hlynnt inngöngu Íslands í Evrópusambandið en 35,1 prósent eru andvíg því og 22,1 prósent eru óviss um afstöðu sína.
Þar kom líka fram að stuðningur við aðild væri afgerandi á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 47 prósent styðja hana en 30 prósent eru á móti. Á landsbyggðinni mælist andstaða við aðild hins vegar nú meiri en stuðningur, en 35 prósent svarenda á henni segjast vilja ganga í Evrópusambandið á meðan að 44 prósent eru því mótfallinn. Þetta var þriðja könnunin í röð sem sýndi afgerandi meirihluta fyrir aðild að Evrópusambandinu á meðal ÍSlendinga.
Í mars birtust niðurstöður úr Þjóðarpúlsi Gallup sem sýndu að 47 prósent landsmanna væru hlynnt aðild að Evrópusambandinu en 33 prósent mótfallin henni. Það var í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem meirihluti mældist fyrir aðild í könnunum hérlendis.
Hlutfall þeirra sem eru hlynntir inngöngu Íslands í sambandið hafði raunar ekki mælst meira en rúmlega 37 prósent í mánaðarlegum könnunum sem MMR framkvæmdi frá 2011 og út síðasta ár. Í síðustu könnun fyrirtækisins, sem var gerð í desember í fyrra, mældist stuðningurinn 30,4 prósent en 44,1 prósent voru á móti.
Breyting á fylgi flokka
Fylgi Samfylkingarinnar mældist 21,1 prósent samkvæmt síðasta birta Þjóðarpúlsi Gallup. Það jókst 4,5 prósentustig milli mánaða og hafði þá rúmlega tvöfaldast frá síðustu kosningum, en þá fékk flokkurinn 9,9 prósent atkvæða. Þetta var í fyrsta sinn sem fylgi Samfylkingarinnar mælist yfir 20 prósent í könnun Gallup frá því í lok árs 2014, þegar flokkurinn sat síðast í ríkisstjórn, og mesta fylgi sem hann hefur mælst með í rúmlega tíu ár, eða frá því í október 2012. Þá sat Samfylkingin í ríkisstjórn með Vinstri grænum og var undir formennsku Jóhönnu Sigurðardóttur.
Á sama tíma mældist fylgi Vinstri grænna nálægt því minnsta sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með hjá Gallup, eða 7,5 prósent. Framsóknarflokkurinn mældist með 12,2 prósent fylgi sem er minnsta fylgi sem hann hefur mælst með á kjörtímabilinu. Sjálfstæðisflokkurinn var hins vegar við kjörfylgi.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja mældist 43,5 prósent í nóvemberkönnun Gallup. Það fylgi myndi ekki duga fyrir meirihluta á þingi. Flokkarnir þrír fengu 54,4 prósent atkvæða í kosningunum 2021 og því hafa þeir tapað 10,9 prósentustigum af fylgi á fyrsta ári kjörtímabilsins. Það er minna en allt það fylgi sem Samfylkingin hefur bætt við sig á því rúma ári sem liðið er frá síðustu kosningum, en það er 11,2 prósent.
Breyting á trausti til ráðherra
Á einu ári hefur traust á Sigurð Inga Jóhannsson, innviðaráðherra og formann Framsóknarflokksins, fallið um 24 prósentustig, Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann Vinstri grænna, fallið um 18 prósentustig og á Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, um 14,4 prósent.
Á sama tíma hefur vantraust á Sigurð Inga aukist um 22,4 prósent, á Katrínu um 18,3 prósentustig og Bjarna um 17,4 prósentustig. Katrín er samt sem áður sá formaður stjórnarflokks sem nýtur mest trausts, eða 43,2 prósent, og Bjarni sá ráðherra sem flestir vantreysta, eða 61,5 prósent.
Breyting á trausti til formanna
Í könnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið, og var birt 18. nóvember, kom fram að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, væri sá stjórnmálaleiðtogi sem landsmenn treystu best. Alls naut hún trausts 25,4 prósent þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, var sá leiðtogi sem næstflestir treystu, eða 17,5 prósent, og á hæla hennar kom Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, með 15,4 prósent. 11,3 prósent treystu Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins, mest og 9,7 prósent treysti Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanni Viðreisnar, best.
Í október í fyrra, rétt fyrir Alþingiskosningarnar, vildu 57,6 prósent landsmanna Katrínu sem forsætisráðherra samkvæmt könnun Maskínu. Enginn annar leiðtogi náði tíu prósentum í þeirri könnun.
Skoðun landsmanna á sölu á Íslandsbanka
Salan á 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars var eitt af stóru fréttamálum ársins. Ýmsar kannanir voru gerðar á skoðun þjóðarinnar á því hvernig tókst til.
Sú umfangsmest var gerð af Gallup í apríl. Í henni kom fram að 87,2 prósent landsmanna töldu að staðið hefði verið illa að útboði og sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Einungis 6,4 prósent töldu að það hefði vel tekist til. Kjósendur allra annarra flokka en Sjálfstæðisflokks voru nær alfarið á því að útboðið og salan hefði verið klúður, eða 89 til 97 prósent þeirra. Hjá kjósendum flokks Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, var staðan önnur. Þar töldu 26 prósent að útboðið og salan á hlutnum í Íslandsbanka hefði verið vel heppnum en 62 prósent að illa hefði tekist til.
Gallup spurði einnig að því hvort rannsóknarnefnd Alþingis ætti að gera úttekt á sölunni, líkt og þorri stjórnarandstöðunnar hefur lagt til. Niðurstaðan þar var sú að 73,6 prósent landsmanna töldu að það ætti að skipa rannsóknarnefnd en 26,4 prósent töldu nægjanlegt að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á sölunni, líkt og fjármála- og efnahagsráðherra hafði þá þegar falið henni að gera. Aftur skári kjósendur Sjálfstæðisflokksins sig úr þegar kom að þessu, en 74 prósent þeirra er á því að úttekt Ríkisendurskoðunar nægi.
Í könnun Gallup var líka spurt hvort fólk teldi að lög hefðu verið brotin við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Mikill meirihluti landsmanna, 68,3 prósent, töldu að söluferlið hefði falið í sér lögbrot, en 31,7 prósent að svo sé ekki. Athygli vakti að 77 prósent kjósenda Vinstri grænna töldu að lög hefðu verið brotin og 67 prósent kjósenda Framsóknarflokksins. Þegar kom að kjósendum þriðja stjórnarflokksins snerist staðan að venju við, en 77 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins voru sannfærðir um að engin lög hafi verið brotin.
Aðspurð hvort óeðlilegir viðskiptahættir hafi verið viðhafðir við söluna sögðu 88,4 prósent svarenda svo vera. Einungis 11,6 prósent töldu viðskiptahættina hafa verið eðlilega.
Nær allir kjósendur annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins (89 til 99 prósent) töldu söluna hafa verið framkvæmda með óeðlilegum viðskiptaháttum, en 41 prósent stuðningsmanna flokks fjármála- og efnahagsráðherra töldu að eðlilegum háttum hafi verið beitt.
Áður hafði Prósent gerð könnun um söluna á Íslandsbanka fyrir Fréttablaðið, en niðurstöður hennar voru birtar 20. apríl. Þar kom fram að rúmlega átta af hverjum tíu landsmönnum, alls 83 prósent aðspurðra, sögðust óánægð með fyrirkomulag á sölu.
Traust til að selja restina af Íslandsbanka
Eftir að Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu sinni um söluferlið í nóvember, þar sem niðurstaðan var að annmarkar söluferlisins hefðu verið fjölmargir, spurði Maskína landsmenn hvort þeir treystu ríkisstjórninni til að selja eftirstandandi 42,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka. Alls sögðust 63 prósent landsmanna að þeir treystu núverandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur illa til að selja hlutinn. Einungis 16 prósent sögðust treysta henni vel til þess og 21 prósent sögðust treysta henni í meðallagi.
Þegar afstaða fólks til þess hversu vel það treysta ríkisstjórninni til að selja banka er flokkuð niður á stjórnmálaskoðanir kom í ljós að það voru einungis kjósendur eins flokks sem treysta henni að meirihluta vel fyrir að selja restina af Íslandsbanka. Það voru kjósendur Sjálfstæðisflokksins, flokks Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra. Alls sögðust 58,9 prósent þeirra treysta ríkisstjórninni vel til að selja eftirstandandi hlut í bankanum.
Athygli vakti að kjósendur hinna stjórnarflokkanna treystu að uppistöðu ríkisstjórninni alls ekki til slíkra verka. Einungis 14,3 prósent kjósenda Vinstri grænna gerðu það og 16,1 prósent kjósenda Framsóknarflokksins. Auk þess sögðust 56,7 prósent kjósenda Vinstri grænna treysta ríkisstjórn sem leidd er af formanni þeirra illa til að selja restina af bankanum og 56,2 prósent kjósenda Framsóknarflokksins voru á sömu skoðun.
Skoðun landsmanna á kvótakerfinu
Í febrúar kannaði Prósent afstöðu landsmanna til núverandi kvótakerfis. Þar kom fram að tuttugu prósent þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni sögðust vera mjög eða frekar hlynnt kerfinu en 61 prósent frekar eða mjög andvíg því.
Konur voru töluvert andvígari kerfinu en karlar og íbúar höfuðborgarsvæðisins voru einnig andvígari því en íbúar á landsbyggðinni.
Mestur stuðningur við kerfið mældist hjá þeim sem eru 65 ára eða eldri og þeim tekjuhæstu. Andstaðan við kvótakerfið var mest í aldurshópnum 35 til 44 ára. 71 prósent fólks á þeim aldri er andvígt kerfinu en þrettán prósent styðja það.
Traust íbúa landsins til stofnana
Alls báru 36 prósent landsmanna traust til Alþingis samkvæmt þjóðarpúlsi í byrjun mars, en Gallup mælir árlega traust til stofnanna samfélagsins. Það jókst um tvö prósentustig milli ára og hefur aukist um 18 prósentustig á þremur árum. en Alþingi var samt sem áður í fjórða neðsta sæti yfir þær stofnanir sem almenningur treystir minnst. Traustið hefur enn ekki náð þeim hæðum sem það var í fyrir bankahrun, en í síðust mælingu Gallup fyrir það, sem framkvæmd var snemma árs 2008, mældist traust þjóðarinnar til Alþingis 42 prósent.
Fyrir neðan Alþingi voru einungis annað stjórnvald, borgarstjórn Reykjavíkur (21 prósent traust), bankakerfið (23 prósent) og þjóðkirkjan (29 prósent). Allar þrjár stofnanirnar töpuðu trausti á milli ára.
Almennt dróst traust til stofnanna íslensks samfélags saman milli ára. Alls dróst það saman gagnvart níu stofnunum, jókst gagnvart fjórum og stóð í stað gagnvart einni.
Mest dróst traustið saman gagnvart Seðlabanka Íslands, um tíu prósentustig milli ára og í ár treystu 52 prósent honum vel. Það var mikil breyting frá þeirri þróun sem orðið hafði árin áður. Milli áranna 2019 og 2021 tvöfaldaðist það og mældist í lok þess síðarnefnda 61 prósent.