Tekjuójöfnuður jókst á síðasta ári á Íslandi. Samkvæmt Gini-stuðlinum svokallaða jókst hann um eitt prósent. Skattbyrði þeirra tíu prósent landsmanna sem þénuðu mest dróst saman í fyrra á meðan að skattbyrði allra annarra jókst. Samhliða jukust ráðstöfunartekjur efstu tíundarinnar um tíu prósent, sem er vel umfram hlutfallslega hækkun á ráðstöfunartekjum annarra hópa. Því fór meira af kaupmáttaraukningu síðasta árs til efsta lagsins en annarra landsmanna.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju mánaðaryfirliti Alþýðusambands Íslands (ASÍ) sem birt var í dag.
Ekki miklar breytingar í sjálfu sér
Þar segir að breytingin á tekjuójöfnuði sé í sjálfu sér ekki mikil en ef hún myndi endurtaka sig í fleiri ár, myndi slíkt leiða til breytinga sem kalla mætti marktækar. Í umfjöllun ASÍ kemur fram að breytt tekjuskipting í fyrra megi einkum rekja til hækkunar á fjármagnstekjum.
Tekjuskipting sé þó enn mikil á Íslandi í samanburði við önnur lönd og einna jöfnust á meðal OECD-ríkja. Ein af ástæðum þess að tekjuskipting er jafnari hérlendis en t.d. á hinum Norðurlöndunum, þrátt fyrir að launadreifing sé ójafnari, er sú að atvinnuþátttaka er meiri hér á landi.
Ráðstöfunartekjur efstu tíundar hækkuðu um tíu prósent
Sá hópur sem jók fjármagnstekjur sínar mest í fyrra var allra tekjuhæsta tíund landsmanna. Kjarninn greindi frá því í júlí að í greiningu á álagningu opinberra gjalda einstaklinga eftir tekjutíundum sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi 22. júní síðastliðinn, hafi komið fram að þau tíu prósent landsmanna sem höfðu mestar fjármagnstekjur á síðasta ári hafi tekið til sín 81 prósent allra fjármagnstekna einstaklinga á árinu 2021. Alls höfðu einstaklingar 181 milljarð króna í fjármagnstekjur í fyrra og því liggur fyrir að efsta tíundin, sem telur nokkur þúsund fjölskyldur, var með tæplega 147 milljarða króna í fjármagnstekjur á síðasta ári. Heildarfjármagnstekjur einstaklinga hækkuðu um 57 prósent milli ára, eða alls um 65 milljarða króna. Mest hækkaði söluhagnaður hlutabréfa sem var 69,5 milljarðar króna á árinu 2021.
Fjármagnstekjur þær tekjur sem einstaklingar hafa af eignum sínum. Þær eru til að mynda vextir, arður, söluhagnaður eða leigutekjur af lausafé og af útleigu á fasteignum. Þeir sem fá mestar fjármagnstekjur á Íslandi eru því sá hópur einstaklinga sem á flest hlutabréf og flestar fasteignir. Sá hópur sem hefur sankað að sér flestum eignum.
Skattbyrði efstu tíundar dróst saman
Fjármagnstekjur dreifast mun ójafnar en launatekjur. Þær lendi mun frekar hjá tekjuhæstu hópum landsins, sem eiga mestar eignir.
Alls um níu prósent þeirra sem telja fram skattgreiðslur á Íslandi fá yfir höfuð fjármagnstekjur. Fjármagnstekjuskattur er líka 22 prósent, sem er mun lægra hlutfall en greitt er af t.d. launatekjum, þar sem skatthlutfallið er frá 31,45 til 46,25 prósent eftir því hversu háar tekjurnar eru.
Í Mánaðaryfirliti ASÍ kemur fram að skattbyrði haf heilt yfir aukist í fyrra þegar hún er reiknuð sem hlutfall tekju- og fjármagnstekjuskatts af heildartekjum. Hún fór úr 22,4 prósent af heildartekjum í 23,4 prósent.
Í minnisblaði um áðurnefnda greiningu sem lagt var fyrir ríkisstjórn í síðasta mánuði var þetta staðfest. Þar kom fram að hækkandi skattgreiðslur efstu tekjutíundarinnar séu fyrst og síðast tilkomnar vegna þess að fjármagnstekjur þeirra hafa stóraukist, enda greiðir þessi hópur 87 prósent af öllum fjármagnstekjuskatti.