Tengsl á milli fjárframlaga til alþjóðastofnana og ráðninga Íslendinga
Fjárframlög íslenskra stjórnvalda til alþjóðastofnana og verkefna á þeirra vegum hafa aukist eftir að Íslendingar voru ráðnir til starfa. Utanríkisráðuneytið segir aukin framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu skýra aukin framlög til alþjóðastofnana, auk þess sem það sé skýrt markmið að fleiri Íslendingar ráðist til starfa hjá alþjóðastofnunum.
Dæmi eru um að fjárframlög íslenskra stjórnvalda til alþjóðlegra stofnana aukist þegar Íslendingar, nánar tiltekið fyrrverandi stjórnmálamenn, hefja störf hjá viðkomandi stofnun. Kjarninn greindi frá því í byrjun apríl að íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að styðja skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um eyðimerkursamninginn (UNCCD) með beinu fjárframlagi í fyrsta sinn. Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, hóf nýverið störf hjá stofnunni sem sérstakur ráðgjafi framkvæmdastjóra.
Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans sagði að fjárveitingin tengist ekki starfsmannahaldi skrifstofunnar. Hvað sem því líður er þetta í fyrsta sinn sem Ísland styður stofnunina með beinu fjárframlagi. Samningurinn felst í óskilyrtu kjarnaframlagi til þriggja ára, alls rúmlega 77 milljónum eða 25,8 milljónum til þriggja ára, 2021-2023.
Kjarninn óskaði í kjölfarið eftir upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu um störf fyrrverandi stjórnmálamanna og aðstoðarmanna ráðherra hjá alþjóðastofnunum og fjárframlögum hins opinberra til viðeigandi stofnana.
Í svari utanríkisráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið heldur ekki skrár yfir íslenska ríkisborgara sem ráðast til starfa hjá alþjóðastofnunum. Ef farið er yfir fjárframlög til stofnana þar sem Íslendingar hafa starfað má hins vegar finna dæmi um hækkun á fjárframlagi til stofnunarinnar í kjölfar þess að íslenskur ríkisborgari hefur störf..
Fjárframlög til FAO tóku stökk við ráðningu fyrrverandi fjármálaráðherra
Árni M. Mathiesen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og fjármálaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde 2005-2009 , sagði skilið við stjórnmálin eftir bankahrunið.
Í nóvember 2010 var hann ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO. Íslensk stjórnvöld studdu umsókn Árna. FAO sinnir meðal annars reglubundnu starfi hvað varðar aðgerðir til að bæta stjórn fiskveiða og þróun sjávarútvegs á heimsvísu. Í nóvember 2019 fól Kristján Þór Júlíusson, þáverandi sjávarútgegsráðherra, fiskveiðisviði FAO, sem Árni stýrði, að gera úttekt á viðsliptaháttum útgerða í þróunarlöndum. Úttektin var hluti af aðgerðum stjórnvalda til að auka traust á íslensku atvinnulífi í kjölfar Samherjamálsins.
Kjarnaframlög íslenskra stjórnvalda til FAO frá 2009 nema 279,5 milljónum króna. 2009, ári áður en Árni hóf störf hjá FAO, var árlegt framlag til stofnunarinnar tæpar 10,4 milljónir. Ári seinna var framlagið 9,1 milljón. Árni hóf störf hjá FAO í lok árs 2010. Árið eftir, 2011, námu fjárframlögin 21,9 milljónum.
Næstu ár á eftir héldu framlögin áfram að hækka og náðu hámarki 2016 þegar íslensk stjórnvöld greiddu 41,4 milljónir til FAO. Eftir það tóku þau að lækka á ný og voru á bilinu 11,9 til 17,9 milljónir til ársins 2021. Árni lét af störfum hjá stofnuninni í ársbyrjun 2021 eftir rúmlega tíu ára starf. .
Verkefni sem Hanna Birna fór fyrir hjá UN Women styrkt sérstaklega
Einnig eru dæmi um að verkefni sem íslenskir stjórnmálamenn hafa verið í forsvari fyrir hafi verið styrkt sérstaklega. Kjarninn greindi frá því í nóvember 2019 að verkefni sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, vann að hjá UN Women var styrkt af íslenskum stjórnvöldum.
Hanna Birna var ráðin sem tímabundinn ráðgjafi á aðalskrifstofu UN Women í New York í byrjun árs 2019. UN Women er stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Hún er jafnframt ein af áherslustofnunum Íslands á sviði þróunarsamvinnu og samkvæmt rammasamningi við UN Women greiðir Ísland almenn framlög til stofnunarinnar, sem og framlög til einstakra verkefna.
Hanna Birna var meðal annars ráðin til að vinna að verkefninu Women's Political Empowerment and Leadership en það er eitt þeirra verkefna sem íslensk stjórnvöld ákváðu að styrkja árið 2018. Verkefnið lýtur að pólitískri valdeflingu kvenna og leiðtogahæfni víða um heim.
Heildarstuðningur Íslands til stofnunarinnar frá árinu 2017 til dagsins í dag nema tæpum 1,3 milljörðum króna, eða um 216 milljónum árlega. Þar af voru kjarnaframlög tæpar 664 milljónir króna og framlög til sérstakra verkefna tæpar 539 milljónir króna. Árið 2019 var framlagið 234 milljónir króna, þar af voru 69,9 milljónum varið til Women's Political Empowerment and Leadership, verkefnisins sem Hanna Birna var ráðin til.
Aukin framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu skýri aukin framlög til alþjóðastofnana
Framlög Íslands til alþjóðastofnana hafa aukist umtalsvert á umliðnum árum.
Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að sú þróun haldist meðal annars í hendur við aukin framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Árið 2020 nam framlag Íslands 0,26 prósent af vergum þjóðartekjum en á þessu ári er gert ráð fyrir að hlutfallið verði hærra, alls 0,35 prósent.
Þannig hafa framlög Íslands til nokkurra alþjóðastofnana, meðal annars áherslustofnana Íslands á sviði mannúðar og þróunarsamvinnu, aukist jafnt og þétt undanfarinn áratug. Meðal áherslustofnana eru þróunaráætlun SÞ (UNDP), samræmingarskrifstofa SÞ í manníðarmálum (OCHA), mannfjöldasjóður SÞ þjóðanna (UNFPA), Palestínuflóttamannaaðstoðin (UNRWA), matvælaáætlun SÞ, auk FAO og UN Women.
Skýr stefna stjórnvalda að fjölga íslensku starfsfólki hjá alþjóðastofnunum
Þá kemur fram í svari ráðuneytisins að unnið hafi verið markvisst að því að fjölga íslenskum íslenskum sérfræðingum og stjórnendum hjá alþjóðastofnunum undanfarið. „Markmiðið er meðal annars að styrkja íslenska þekkingu og reynslu á þessum sviðum, sem og að auka sýnileika og framlag Íslands til viðkomandi stofnana en líka að gæta íslenskra hagsmuna og auka áhrif Íslands innan þeirra,“ segir meðal annars í svari ráðuneytisins.
Stefna íslenskra stjórnvalda er, að því er segir í svari ráðuneytisins, í samræmi við stefnu ýmissa vinaþjóða sem hafa það beinlínis að markmiði að fleiri úr þeirra röðum ráðist til starfa hjá alþjóðastofnunum.
Lestu meira
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Konungleg langtímafýla
-
2. janúar 2023Hungurleikar Pútíns grimma
-
2. janúar 2023Úkraínustríðið 2023: Skugginn yfir Evrópu
-
31. desember 2022Ár sem breytti heimsmyndinni
-
30. desember 2022Gjöreyðingaráætlun, elítuskóli, veiran, Zelensky og forríka forsetadóttirin
-
25. desember 2022Hundruð milljarða í endurbætur á Thule herstöðinni
-
24. desember 2022Fjölskylda sem varð ríkari vegna stríðs, píramídar, mútugreiðslur og ofboðslegur hiti
-
15. desember 2022Það kostar hálfan milljarð að auka viðbúnað lögreglu vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins
-
11. desember 2022Bakaravandi