Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var gestur Forystusætisins á RÚV í gær. Þar var hún meðal annars spurð út í það kosningaloforð flokksins að semja um gagnkvæmar gengisvarnir við Seðlabanka Evrópu og tengja þannig íslensku krónuna við evru.
Í þættinum sagði Þorgerður Katrín að hægt væri að gera slíkt samkomulag á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES), sem Ísland er aðili að og veitir landinu aðgengi að innri markaði Evrópu að hluta án þess að tilheyra Evrópusambandinu.
Hún vísaði meðal annars í skrif prófessoranna Guðmundar Magnússonar og Stefáns Más Stefánssonar máli sínu til stuðnings og benti auk þess á skrif Daða Más Kristóferssonar, varaformanns Viðreisnar og hagfræðiprófessors um málið. „Þeir sjá þetta þannig fyrir sér að við gerum samning um gagnkvæmar gengisvarnir. Við erum ekki að taka upp einhliða evruna eins og sum ríki hafa gert. Við erum einfaldlega að horfa til annarra ríkja eins og Danmerkur, eins og Króatíu sem hafa tengt sína gjaldmiðla, okkar íslenska krónu, við evruna. Við sjáum fram á það að eitt af því fyrsta sem við myndum þá gera í ríkisstjórn, næðist um það samkomulag, væri að fara bara strax með fyrstu flugvél og semja bara við evrópska seðlabankann um þessar gagnkvæmu gengisvarnir [...] Við getum þetta og það er möguleiki núna þegar gjaldeyrisvaraforðinn okkar er með þessum hætti að fara í þessa vegferð.“
Tvíhliða samningur um gengisvarnir
Sem stendur þá taka þrír gjaldmiðlar þátt í gengissamstarfi Evrópu, sem kallast nú ERM-II. Þeir eru danska krónan, króatísk kúna og búlgarska lefið. Með aðild að gengissamstarfi Evrópu er gengi gjaldmiðla þátttökuríkjanna haldið stöðugu gagnvart evru innan settra vikmarka og er fastgengið varið af bæði seðlabanka viðkomandi þátttökuríkis og Seðlabanka Evrópu. Slík gengistenging er því byggð á alþjóðlegu samstarfi þar sem Seðlabanki Evrópu og seðlabankar þátttökuríkjanna skuldbinda sig til að tryggja stöðugleika gengismarkmiðsins en ekki bara seðlabankar heimalandanna. Samkvæmt gildandi löggjöf um gengissamstarf Evrópu getur Ísland ekki tekið þátt í ERM-II án þess að gerast fyrst aðili að Evrópusambandinu.
Í skrifum sínum hafa þeir Guðmundur og Stefán Már bent á að ekkert í lögum Evrópusambandsins banni slíkt samstarf og að hægt væri að byggja á fyrirmynd ERM-II og sérstaklega í gjaldeyrisfyrirkomulag Dana, en gengi dönsku krónunnar er haldið innan þröngs bils í gegni gagnvart evru.
Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar
Það liggur fyrir að Evrópusambandið hefur aldrei samþykkt að fara þá leið sem Viðreisnar boðar viðræður um: að semja um gagnkvæmar gengisvarnir eða myntsamstarf við land sem er ekki aðili að sambandinu. Þau lönd sem hafa verið hluti af fyrst Evrópska gengissamstarfinu (ERM) og síðar ERM-II hafa öll verið aðilar að Evrópusambandinu. Danir, sem bundu gjaldmiðil sinn við fyrst þýska markið árið 1982 og síðar við evruna, gengu til að mynda í sambandið 1973.
Því er engin fyrirmynd að samningi Seðlabanka Evrópu við ríki utan Evrópusambandsins um gagnkvæmar gengisvarnir og tengingu við evru og ekkert liggur fyrir um hvort hann sé tilbúinn í slíka samningagerð. Skiptir þar engu hvort um sé að ræða ríki innan EES eða utan þess samstarfs.
Það er á hin boginn alls ekki útilokað að Evrópski seðlabankinn myndi verða tilbúinn í slíka samningsgerð né að stór gjaldeyrisvaraforði Íslands, sem stóð í 931 milljarði króna í lok ágúst, gæti liðkað fyrir henni. Úr því fæst ekki skorið nema með samningaviðræðum þar um.
Því er það niðurstaða Staðreyndarvaktarinnar að það sé hálfsannleikur að þessi leið sé möguleg. Eins og stendur liggur einfaldlega ekkert fyrir um það á hvorn veginn sem er.