Þegar vinstriflokkurinn Syriza í Grikklandi vann mikinn kosningasigur, 25. janúar á þessu ári, hét hann því að binda enda á „niðurlægingartímabil Grikklands“. Hann vildi komast út úr efnahagsáætluninni sem samþykkt var 2012, eftir viðræður við kröfuhafa landsins, þar á meðal Evrópusambandið, Seðlabanka Evrópu, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og alþjóðlega banka.
Kosningasigurinn var sögulegur og með ólíkindum. Flokkurinn fékk 149 þingsæti af 300, næstum hreinan meirihluta, og var með alla þræði í hendi sér. Alexis Tsipras, sem fór fyrir flokknum sem formaður, varð forsætisráðherra, og hans nánasti samstarfsmaður, Yanis Varoufakis, varð fjármálaráðherra. Ljóst var að þessir tveir menn voru með mikið sjálfstraust eftir kosningarnar og skýrt umboð frá kjósendum um að hverfa frá áætlun um mikinn niðurskurð hjá hinu opinbera. Sama dag og Varoufakis tók við embætti var hægt að fara á vef Amazon og ná í bók eftir hann þar sem hann fyrir lið fyri lið í gegnum það, hvernig hann teldi að væri best að endurskipuleggja efnahag Grikklands og endursemja við kröfuhafa. Bókin nefnist Europe after the Minotaur: Greece and the Future of the Global Economy.
Óhætt er að segja að þjóðleiðtogar heimsins væru hræddir við framhaldið, og lét David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, meðal annars hafa eftir sér á Twitter, að þessi kosningaúrslit myndu auka á óöryggi í heiminum.
The Greek election will increase economic uncertainty across Europe. That's why the UK must stick to our plan, delivering security at home.
— David Cameron (@David_Cameron) January 25, 2015
Þrautaganga hófst - Beint lýðræði ræður ferðinni
Nú, tæpum átta mánuðum eftir hinn sögulega sigur Tsipras, Varoufakis og félaga í Syriza, eru þeir báðir horfnir á braut og verulega umdeilanlegt þykir, hvort þeir hafi náð miklum árangri við að endursemja um skuldum vafinn þjóðarhag Grikklands. Tsipras sagði af sér í gær sem forsætisráðherra og boðaði um leið til kosninga í landinu 20. september. Vaxandi þrýstingur var á hann innan úr Syriza flokknum, þar sem mikil óánægja var með það samkomulag sem að lokum var gert við kröfuhafa. Varoufakis var þá þegar búinn að segja af sér sem fjármálaráðherra, enda var hann ævur yfir samkomulaginu og afar ósáttur við að Grikkir hafi verið „þvingaðir til þess að taka á sig skuldir sem þeir ráða ekki við“ eins og hann komst sjálfur að orði. Samkomulagið við kröfuhafa, sem samþykkt hefur verið í gríska þinginu og þegar er byrjað að vinna eftir, gerir ráð fyrir 86 milljarða evra lánveitingum, sem er risavaxin fjárhæð fyrir ríflega ellefu milljóna þjóð. Skuldir hins opinbera eru svimandi háar sömuleiðis og nema um 175 prósentum af árlegri landsframleiðslu. Um tuttugu milljarðar evra a þessari heildaráætlun fara í endurskipulagningu á fjármálakerfi landsins, sem er að hruni komið, en stór hluti afgangsins fer í að endurfjármagna skuldir og styrkja rekstur hins opinbera. Eftir að mikill meirihluti grísku þjóðarinnar hafnaði samkomulagi við kröfuhafa í þjóðaratkvæðagreiðslu, 6. júlí, hefur mikið vatn runnið til sjávar. Á aðeins rúmlega sex vikum hefur Syriza flokkurinn misst vopnin og glímir við miklar innanflokksdeilur, sem ekki sér fyrir endann á. Kosningarnar 20. september marka því enn á ný tímamót í grískt þjóðlíf, og nýtt upphaf í stjórnmálalífinu á sama tíma.
Alexis Tsipras, nýr forsætisráðherra Grikklands. Hann fagnaði dátt eftir sigurinn í kosningunum í janúar, en kvaddi með dramatískum hætti í gær. Mynd: EPA.
Efnahagsmálin á réttri leið - Verður meira afskrifað?
Þrátt fyrir bölmóð og glundroða í grískum stjórnmálum, og söguleg inngrip grísku þjóðarinnar í lykilákvarðanir landsins í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur, þá hefur gríska hagkerfið komið mörgum á óvart að undanförnu. Hagtölurnar hafa ekki verið eins slæmar og margir óttuðust og svo virðist sem landið sé að rétta úr kútnum, þó merkin séu veik enn sem komið er. Hagvöxtur í Grikklandi var 0,8 prósent á öðrum ársfjórðungi en að meðaltali á Evrusvæðinu var hann 0,2 prósent. Atvinnuleysi er enn helsta áhyggjuefni Grikkja, en það er yfir 25 prósent. Þrýstingurinn um að meira verði afskrifað af skuldum Grikklands heldur en þegar hefur verið gert, hefur ekki aðeins komið frá Syriza flokknum og stjórnvöldum í Grikklandi, heldur ekki síður frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þar sem hin franska Christine Lagarde er hæstráðandi. Hún hefur ítrekað sagt að nauðsynlegt sé að afskrifa meira af skuldum Grikklands, þar sem skuldastaðan sé ekki sjálfbær. Ekki sé hægt að ná því fram með hagræðingu sem stefnt sé að, og ekki sé víst að hækkanir á virðisaukaskatti og skatti á ríkt fólk muna skila því sem að er stefnt. Rökræður um þetta eru enn í gangi, og ekki ólíklegt að samkomulagið verði endurskoðað með þessi áhersluatriði sem helsta leiðarljós.
Árangur þrátt fyrir hörku og innanflokksátök
Þegar öllu er á botninn hvolft þá hefur Grikkland þrátt fyrir allt náð árangri þegar kemur að því að láta hjól efnahagslífsins snúast hraðar. Skuldastaða landsins var yfirþyrmandi eftir hrunið á fjármálamörkuðum á árunum 2007 til 2009, og fátt annað en greiðsluþrot virtist blasa við ríkissjóði og helstu fyrirtækjum landsins einnig. En þó staðan sé afar erfið, og ennþá um margt tvísýn, þá er ekki hægt að segja annað en að árangur hafi náðst þrátt fyrir harðar alþjóðlegar deilur og innanflokksátök. Því ástandi hefur oft verið líkt við það sem gengið hefur á hér á landi, með réttu eða röngu. Tsipras var dramatískur þegar hann tilkynnti um afsögn sína og kosningarnar 20. september, í ávarpi í gær, eftir spennuþrungna og sögulega átta mánuði sem þjóðarleiðtogi Grikklands. „Á þessum erfiðu tímum þurfum við að halda í það sem mestu skiptir: þjóðina og lýðræðið. Þakka ykkur fyrir.“
In these difficult times, we must hold on to - and champion- what matters most: our country and #democracy. Thank you. #Greece
— Alexis Tsipras (@tsipras_eu) August 20, 2015