Litla hafmeyja danska höfundarins H.C. Andersen ætti að vera flestum kunnug. Enda þótt hún hafi orðið til á blaðsíðum höfundarins árið 1837 þá hefur hún reglulega gengið í endurnýjun lífdaga í barnabókum og teiknimyndum í gegnum árin. Það hlaut hún einnig fyrir tilstilli listamannsins Edvard Eriksen, sem afhjúpaði af henni styttu árið 1913; styttu sem flestir sem leggja leið sína til Kaupmannahafnar bera augum við Langelinie í höfn höfuðborgar Danaveldis.
Stytta þessi er hins vegar ekki einungis vinsæl meðal ferðamanna heldur einnig skemmdarvarga, sem ýmist virðast skemma til til að skemma, nú eða til þess að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri, einkum pólitískum, þar sem fjölmargir leggja jú leið sína að styttunni á degi hverjum.
Sú varð raunin um miðjan þennan mánuð þegar pólitískur skemmdarvargur virðist hafa lagt leið sína að styttunni í skjóli nætur til þess að spreyja á styttuna, eða nánar til tekið á steininn sem hafmeyjan situr á, skilaboð. Um var að ræða eins konar tilgátu eða tilraun til vitundarvakningar um að bókstafurinn Z, sem notuð er orðin til þess að sýna stuðning við innrás Rússlands í Úkraínu eins og fjallað hefur verið um á Kjarnanum, sé hinn nýi hakakross.
Skilaboð þessi eru þó ekki aðalumfjöllunarefni þessarar fréttaskýringar, enda getur hver myndað sér sína skoðun á því hvort líkja megi umræddu Z-tákni við hakakross Nasista, heldur fjarvera ljósmynda af „fórnarlambi“ skemmdarverksins, Litlu hafmeyjunni.
Undirrituð furðaði sig nefnilega mikið á því að ljósmyndir af skemmdarverkinu væru af skornum skammti í umfjöllun danskra fjölmiðla um málið. Raunar var aðeins einn fjölmiðill, Nyheder.dk, sem birti mynd af skemmdarverkinu. Aðrir á borð við Berlingske, Politiken og Jyllands-Posten notuðust við ljósmyndir af hvers kyns lögreglubúnaði og enn aðrir höfðu umfjöllunina hreinlega án ljósmyndar. Á miðli sem gefur sig út fyrir að vera sérstakur ljósmyndafréttamiðill var einungis boðið upp á myndir af vettvangi sem sýndu viðstadda. Ekki sást í listaverkið né skemmdarverkið á neinni mynd. Við nánari eftirgrennslan um myndbirtingar fjölmiðla af Litlu hafmeyjunni fannst sökudólgurinn: höfundarréttur.
Þannig er málið nefnilega vaxið að erfingjar Edvard Eriksen vilja meina að verkið, líkt og önnur listaverk, sé höfundarvarið og því megi ekki birta myndir af Litlu hafmeyjunni í hagnaðarskyni. Málið hefur vakið talsverða athygli og furðu, enda má nálgast þúsundir mynda af verkinu, sem er einn helsti viðkomustaður ferðamanna í Kaupmannahöfn, á netinu. Þegar það ratar hins vegar í fjölmiðla, sem er nokkuð reglulega, mega fjölmiðlar hins vegar ekki birta myndir af því án leyfis.
Eða það er að minnsta kosti það sem erfingjar listamannsins halda fram, og Hæstiréttur Danmerkur staðfesti nú fyrr á árinu. Erfingjar Eriksen hafa nefnilega ítrekað farið í mál við danska fjölmiðla sem birt hafa myndir af Litlu hafmeyjunni undanfarna áratugi, og hafa margir fengið háan reikning frá fjölskyldunni vegna notkunar mynda af verkinu.
Samkvæmt dönskum höfundarréttarlögum fellur birting í fjölmiðlum undir birtingu í hagnaðarskyni. Undanþága getur átt við ef um er að ræða „augljóst fréttasamhengi“. Þrátt fyrir það veigra flestir fjölmiðlar sér við því að nota mynd af styttunni, jafnvel í atvikum eins og lýst var hér að ofan.
6 milljóna króna sekt
Mörgum finnst of langt gengið hjá Eriksen-fjölskyldunni að rukka fyrir notkun á myndum af þekktasta listaverki þjóðarinnar, en fyrir skemmstu var að endingu úrskurðað um málið fyrir æðsta dómstól Danmerkur. Þá hafði fjölmiðillinn Berlingske birt teikningar af Litlu hafmeyjunni og bar fyrir sig að um hafi verið að ræða „sanngjörn not“ (e. fair dealing) og að um væri að ræða skopstælingar á verkinu. Berlingske áfrýjaði málinu tvisvar og endaði það fyrir Hæstarétti þar sem fjölmiðillinn var dæmdur til þess að greiða erfingjum Eriksen 300 þúsund danskar krónur, sem jafngildir tæplega 6 milljónum íslenskra króna, fyrir brot á höfundarrétti.
Málið er talið bera vitni um ákveðinn galla í dönskum lögum um höfundarrétt, enda sé afleitt að fjölmiðlar geti ekki birt ljósmyndir af þessu þekktasta kennileiti Danmerkur án þess að eiga von á óvæntri sekt. Erfingar Eriksen bera hins vegar ávallt fyrir sig lögin og segja þetta jafneðlilegt og höfundarréttargreiðslur fyrir notkun á annarri list, svo sem tónlist. Höfundarréttur sem þessi fellur þó úr gildi 70 árum eftir fráfall listamanns og hafa erfingar Eriksen því fram til 2029 til þess að halda áfram að græða á meistaraverki ættföðursins, þegar Litla hafmeyjan á Langelinie verður frjáls.