Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þau Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Diljá Mist Einarsson og Guðrún Hafsteinsdóttir, hafa lagt fram frumvarp sem felur í sér undanþágu fjölmiðla á greiðslu tryggingagjalds. Um er að ræða sama frumvarp og nokkrir þingmenn flokksins, meðal annars Óli Björn og Vilhjálmur, lögðu fram í desember 2019, en hlaut þá ekki brautargengi.
Ef frumvarpið verður að lögum mun tryggingagjald sem á laun þeirra sem starfa á fjölmiðlum sem eru undir 979.847 krónum, eða í tveimur lægri skattþrepunum, falla niður.
Tryggingagjaldið er í dag alls 6,35 prósent og leggst á heildarlaun. Fyrir hvern starfsmann, upp að ofangreindu hámarki launa, er því hægt að fá allt að 62.220 krónur í skattafslátt. Undanþágan frá greiðslu tryggingagjalds tekur einungis til fjölmiðlahluta fjölmiðlafyrirtækis, þeirra sem „starfa við framleiðslu fréttaefnis, svo sem blaðamanna, útvarpsmanna, og annarra starfsmanna sem styðja við þá framleiðslu, svo sem tæknimanna, starfsmanna auglýsingadeildar og starfsmanna launabókhalds.“
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að ekki sé búið að kostnaðarmeta það en að gera megi ráð fyrir að það„ hafi áhrif á tryggingagjald vegna launagreiðslna 600-700 starfsmanna einkarekinna fjölmiðla.“
Stærstu fjölmiðlafyrirtækin myndu fá langmest
Leiðin sem þingmennirnir fjórir vilja fara gagnast að mestu þremur stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækjum landsins sem sinna fréttaþjónustu. Þar er um að ræða Árvakur, Torg og Sýn.
Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið og tengda miðla, greiddi til að mynda 103 milljónir króna í tryggingagjald og önnur launatengd gjöld utan lífeyrissjóðsgjalda á árinu 2020. Fyrirtækið gæti sloppið við þorra þeirrar greiðslu ef frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokks yrði að lögum. Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins og tengdra miðla, greiddi 182,6 milljónir króna í launatengd gjöld árið 2020, en í ársreikningi félagsins er ekki gerður aðskilnaður á greiðslum í lífeyrissjóð og öðrum launatengdum gjöldum. Ætla má að hlutur annarra launatengdra gjalda hjá Torgi, sem eru að nánast öllu leyti tryggingagjald, sé um 70 milljónir króna.
Sýn er skráð félag á markað og að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Félagið rekur umfangsmikla fjarskipta- og afþreyingarstarfsemi samhliða rekstri fréttatengdra miðla. Engin aðskilnaður er gerður í ársreikningi Sýnar sem sýnir starfsfólk hverrar einingar fyrir sig og því er ekki hægt að áætla hversu háa upphæð félagið myndi fá til sín. Miðað við umfang starfseminnar má ætla að það yrði meira en það sem Torg fær getur átt von á að fá í skattafslátt. Sýn kallaði sérstaklega eftir að þessi leið yrði farinn til að styðja við einkarekna fjölmiðla í umsögn sem félagið skilaði inn til Alþingis fyrir tæpu ári síðan.
Lögðu fram frumvarp á sama tíma og ráðherra
Frumvarpið um undanþágu fjölmiðla á greiðslu tryggingagjalds var síðast lagt fram í desember 2019, á nánast sama tíma og Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra fjölmiðlamála, lagði fram frumvarp um endurgreiðslur á rekstrarkostnaði til fjölmiðla. Lilja hafði unnið að sínu frumvarpi í umtalsverðan tíma og mætt mikilli andstöðu innan Sjálfstæðisflokksins vegna þess. Það náði ekki fram að ganga vegna þeirrar andstöðu.
Eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á var breyttri útgáfu þess, sem tryggði hærri endurgreiðslur til stærstu fjölmiðlafyrirtækjanna, breytt í nokkur konar kórónuveirufaraldursstyrk til einkarekinna fjölmiðla upp á 350 milljónir króna. Næstum tvær af hverjum þremur krónum sem úthlutað var fóru til Árvakurs, Sýnar og Torgs.
Alþingi afgreiddi loks beitt frumvarp Lilju um styrkjakerfi fyrir einkarekna fjölmiðla í lok maí í fyrra. Helsta breytingin fólst í því að styrkjakerfið var lögfest til tveggja ára, og gildir því fyrir árin 2021 og 2022.
Í því fólst að 388,8 milljónum króna var skipt á milli þeirra einkareknu fjölmiðla sem uppfylltu skilyrði fyrir styrkjagreiðslunni á síðasta ári. Sú upphæð lækkar svo um átta milljónir króna í ár vegna tveggja prósenta aðhaldskröfu.
Bentu á fækkun starfsfólks
Blaðamannafélag Íslands gerði athugasemd við þessa aðhaldskröfu, sérstaklega með tilliti til þess að framlög til RÚV í ár hækka um 430 milljónir króna, í umsögn sinni um fjárlagafrumvarp ársins 2022. Ekki var tekið tillit til athugasemda þess.
Ráðherra hefur boðað „mjög ákveðna atlögu“
Lilja fer enn með málefni fjölmiðla í ríkisstjórn þótt hún hafi fært sig um ráðuneyti eftir að stjórnarflokkarnir Vinstri græn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur endurnýjuðu samstarf sitt eftir kosningarnar á síðasta ári.
Í viðtali við Morgunblaðið í lok síðasta árs sagði hún ljóst að enn væri þörf á stuðningi við fjölmiðla, svo mikilvægir væru þeir fyrir upplýsinga- og fréttamiðlun, lýðræðislega umræðu og íslenska tungu. „Framtíð fjölmiðla á Íslandi er í húfi og ég mun því á næstu mánuðum gera mjög ákveðna atlögu sem miðar að því að bæta rekstrarumhverfi þeirra. Eitt er að breyta leikreglum þannig að Ríkisútvarpið gefi öðrum miðlum meira rými á auglýsingamarkaði [...] Í annan stað þarf að skapa jafnvægi í rekstrarumhverfi milli innlendra fjölmiðla og félagsmiðla og erlendra streymisveitna, sem eru umsvifamiklar á markaði hér. Skattlagningu þarna þarf að breyta og þar er valdið hjá fjármálaráðherra, sem ég legg mikla áherslu á að bæti úr. Fjölmiðlar eru aðgöngumiði okkar út í samfélagið og lykill að tungumálinu.“
Heimildir Kjarnans herma að þessi vinna sé komin vel af stað og að verið sé að skoða þann möguleika að skrifa svokallaða grænbók um stöðu fjölmiðla hérlendis. Þess utan standi til að skipa starfshóp sem hafi það hlutverk að vinna skýrar tillögur sem geti komið til framkvæmda strax á þessu ári og hjálpað til við að létta undir með rekstri einkarekinna fjölmiðla.
Það er við þessar aðstæður sem fjórir þingmenn eins stjórnarflokksins, þess sem hefur lagst harðast gegn vinnu ráðherrans þegar kemur að fjölmiðlamálum, leggja fram frumvarp um að afnema tryggingagjald á fjölmiðla.
Athugasemd ritstjórnar: Kjarninn er eitt þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem nýtur opinbers rekstrarstuðnings.