Ellefu mánuðir eru frá því að kosið var til Alþingis. Í þeim kosningum fengu þeir þrír flokkar sem nú mynda ríkisstjórn samtals 54,3 prósent fylgi. Síðan þá hafa þeir, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup, tapað 8,5 prósentustigum af fylgi og mælast nú með 45,8 prósent fylgi. Það myndi að óbreyttu ekki duga til að ná þingmeirihluta þar sem flokkarnir þrír fengu 31 þingmann kjörinn nú í stað þeirra 38 sem þeir hafa í dag, eftir að Birgir Þórarinsson bættist við hópinn nokkrum vikum eftir kosningarnar í september í fyrra.
Allir flokkarnir þrír hafa tapað fylgi frá síðustu kosningum og opinberar erjur þeirra á milli, sérstaklega vegna málefnaágreinings þegar kemur að tekjuöflun fyrir ríkissjóð, hafa orðið æ algengari á þessu kjörtímabili. Ljóst má vera að persónuleg sambönd milli sumra ráðherra eru viðkvæm í besta falli, og afleit í einhverjum tilfellum. Má þar sérstaklega benda á samband Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Lilju D. Alfreðsdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins. Þar hefur ítrekað andað verulega köldu.
Mestu fylgi hafa Vinstri græn þó tapað. Í sumar mældist fylgi flokksins það lægsta sem það hefur nokkru sinni mælst og þótt það hafi aðeins þokast upp á við er fylgið einungis 8,4 prósent, sem þýðir að Vinstri græn hafa tapað þriðjungi af fylgi sínu á þessum ellefu mánuðum sem liðnir eru frá kosningum. Flokkurinn er nú hálfdrættingur í fylgi við það sem hann var eftir kosningarnar 2017. Þá fékk hann ellefu þingmenn en er nú að mælast með fimm og er, ásamt Viðreisn, fimmti til sjötti stærsti flokkurinn á þingi samkvæmt Gallup.
Mikið breytst á skömmum tíma í „Landi tækifæranna“
Þrátt fyrir að stjórnin sé fallin samkvæmt Gallup, að allir stjórnarflokkarnir hafi tapað fylgi og að sýnilegir málefnalegir árekstrar milli flokkanna séu mun sýnilegri en á síðasta kjörtímabili þá er heildarfylgi þeirra þó meira nú en það var á sama tíma eftir kosningarnar 2017. Og væntur þingmannafjöldi meiri.
Í þeim kosningum fengu flokkarnir þrír 52,8 prósent atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn mest, 24,4 prósent, Vinstri græn svo 16,9 prósent en Framsóknarflokkurinn einungis 10,7 prósent. Af þeim tölum má sjá að Vinstri græn eru sá stjórnarflokkur sem hefur orðið fyrir mestum fylgisskaða á þessum tæpu fimm árum, Framsóknarflokkurinn sá eini sem hefur grætt á stjórnarsamstarfinu og Sjálfstæðisflokkurinn er nokkurn veginn á pari þegar kemur að afli, þótt fylgið hafi lækkað.
Ellefu mánuðum eftir kosningarnar 2017 mældist sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna einungis 41,5 prósent. Það sem eftir lifði kjörtímabili tókst stjórnarflokkunum hins vegar að bæta við 12,8 prósentustigum, sem dugði vel til að endurnýja stjórnarsamstarfið. Vert er þó að taka fram að sýnileg aukning varð við sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna þegar kórónuveirufaraldurinn skall á. Það er þekkt að kjósendur fylki sér um ríkjandi stjórnvöld þegar miklar samfélagslegar áskoranir eins og heimsfaraldur eða stríð verða að veruleika. Auk þess voru aðstæður í efnahagslífinu enn afar skaplegar í aðdraganda síðustu kosninga, vegna aðgerða sem Seðlabankinn og stjórnvöld höfðu gripið til í heimsfaraldrinum og juku ráðstöfunartekjur landsmanna mikið.
Það sést til að mynda á kosningaauglýsingum Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda síðustu kosningar, þar sem hann keyrði á slagorðið „Land tækifæranna“. Í einni slíkri var bent á vextir væru þeir „lægstu í sögunni“. Að óverðtryggðir bankavextir hefðu farið úr 5,7 prósent í nóvember 2017 í 3,6 prósent í ágúst 2021. Þetta hefði lækkað mánaðarlega afborgun af 20 milljón króna láni um 28 þúsund krónur. Lauslega má áætla að afborgun af 50 milljón króna láni á sömu forsendum hafi lækkað um 70 þúsund krónur á sama tímabili.
Í dag er staðan orðin nokkuð breytt. Nú eru óverðtryggðir bankavextir allt að sjö prósent, verðbólga 9,7 prósent og mánaðarlegar afborganir af 50 milljón króna láni hækkað um allt að 100 þúsund krónur á mánuði. Því er öll þessi lækkun á afborgunum gengin til baka og nokkrir tugir þúsunda hafa bæst við í ofanálag.
Voru með jafn mikið fylgi og stjórnarflokkarnir 2018
Staða stjórnarandstöðuflokka hefur líka breyst á þessu tímabili. Ellefu mánuðum eftir kosningarnar 2017 var Samfylkingin að mælast næst stærsti flokkur landsins með 19,3 prósent fylgi og hafði ekki verið á svo miklu flugi í mörg ár. Viðreisn mældist norðan megin við tíu prósentin og Píratar voru þriðji stærsti flokkur landsins með 11,5 prósent fylgi. Samanlagt fylgi þessara þriggja stjórnarandstöðuflokka, sem eiga marga sameiginlega málefnafleti, var 41,5 prósent. Þeir þrír mældust jafn stórir og stjórnarflokkarnir.
Fylgið fjaraði þó undan þeim öllum þegar leið á kjörtímabilið og þegar kosið var í september í fyrra fengu Samfylking, Píratar og Viðreisn einungis samtals 26,8 atkvæða. Enginn flokkanna þriggja náði í yfir tíu prósent atkvæða.
Þeir hafa allir bætt við sig fylgi á þessu kjörtímabili. Samfylkingin mælist nú með 15,5 prósent sem er það mesta sem flokkurinn hefur mælst með síðan í byrjun árs 2021 og 5,6 prósentustigum meira en hann fékk í kosningunum í fyrrahaust. Þar skiptir ugglaust mestu máli sú breyting sem liggur í loftinu, að Kristrún Frostadóttir er að fara að verða næsti formaður flokksins eftir landsfund hans í október, en hún tilkynnti um framboð í ágúst. Það er samt verri staðan en Samfylkingin var að mælast í ellefu mánuðum eftir kosningarnar 2017.
Píratar hafa verið verið að mælast nokkuð stöðugt um eða yfir 15 prósentum frá því í byrjun sumars. Það er mun meira en flokkurinn fékk í kosningunum í september 2021, þegar 8,6 prósent landsmanna kusu hann. Fylgið mælist auk þess umtalsvert meira nú, þegar ellefu mánuðir eru liðnir af kjörtímabilinu en það gerði þegar ellefu mánuðir voru liðnir af því síðasta.
Viðreisn er í dag nokkurn veginn á pari við það sem flokkurinn fékk í kosningunum í fyrra, og mælist með 8,4 prósent fylgi. Það er minna en flokkurinn var að mælast með ellefu mánuðum eftir kosningarnar 2017, þegar 10,7 prósent aðspurðra studdi flokkinn.
Samandregið þá er fylgi við þessa þrjá flokka umtalsvert meira í dag en þeir fengu í síðustu kosningum, eða 38,7 prósent. Þeir mælast saman með 25 þingmenn, og vantar því að minnsta kosti sjö til að vera með meirihluta.
Þetta er þó ívið minna fylgi en mældist í septemberlok 2018 þegar flokkarnir þrír voru með jafn mikið fylgi, 41,5 prósent, og stjórnarflokkarnir þrír, þótt sameiginleg þingmannatala þá hefði sennilega verið svipuð.
Afar breytt staða hjá Sósíalistaflokki og Miðflokki
Sem stendur eru þrír flokkar að mælast með um og yfir fimm prósent fylgi í könnunum Gallup. Sá sem mælist stærstur þeirra nú er Flokkur fólksins, með 5,6 prósent. Það er rúmlega þriðjungi minna fylgi en flokkur Ingu Sæland fékk í kosningunum í september í fyrra og að óbreyttu myndi þingflokkurinn helmingast úr sex í þrjá. Flokkur fólksins er þó ekkert óvanur því að mælast með lítið fylgi þorra kjörtímabils en að taka stökk upp á við þegar það skiptir mestu máli, í aðdraganda kosninga. Þannig mældist stuðningur við hann ellefu mánuðum eftir kosningarnar 2017 6,2 prósent, eða mjög svipaður því og hann er nú.
Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vann mikinn kosningasigur 2017 og fékk 10,9 prósent atkvæða, sem gerði flokkinn að þeim fjórða stærsta á þingi. Ellefu mánuðum síðar var fylgið á nánast sama stað, eða 10,3 prósent. Síðan þá hefur margt breyst hjá Miðflokknum. Hann beið afhroð í síðustu kosningum og rétt hékk inni eftir að hafa 5,4 prósent atkvæða. Svo yfirgaf einn þriggja þingmanna hans flokkinn strax í kjölfar kosninganna, og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Eftir stóðu tveir. miðað við stöðu mála í dag myndi Miðflokkurinn ná inn einum manni.
Það sem af er kjörtímabili hefur staðan ekkert batnað. Miðflokkurinn hefur aldrei mælst með meira en fimm prósent fylgi og á stundum hefur fylgið farið undir fjögur prósentustig.
Sósíalistaflokkur Íslands var tiltölulega nýkominn fram á sjónarsviðið ellefu mánuðum eftir kosningarnar 2017. Hann var stofnaður 1. maí 2017 en bauð ekki fram í þingkosningunum þá um haustið. Það gerði hann hins vegar í borgarstjórnarkosningum vorið 2018, vann glæstan sigur og kom borgarfulltrúa inn í borgarstjórn. Fyrir lá að flokkurinn myndi bjóða fram næst þegar yrði kosið til þings og því var fylgi hans á landsvísu mælt. Í september 2018 mældist það 1,1 prósent.
Litlu munaði að Sósíalistaflokkurinn næði inn í fyrrahaust þegar hann fékk 4,1 prósent atkvæða. Hann hefur nú mælst með yfir fimm prosent fylgi í tveimur könnunum Gallup í röð og er því fimm sinnum stærri en hann var ellefu mánuðum eftir kosningarnar 2017. Það myndi skila Sósíalistum þremur þingmönnum.