„Framboð og eftirspurn eru hugtök sem lýsa afstöðu neytenda og seljenda til þess sem þeir vilja gera á ákveðnum markaði. Eftirspurnin lýsir afstöðu neytenda og framboðið afstöðu framleiðenda,“ sagði Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, dósent í hagfræði, þegar hún útskýrði framboð og eftirspurn fyrir Helga Seljan í síðasta þætti af Ferð til fjár. Þátturinn var á dagskrá síðastliðið fimmtudagskvöld á RÚV.
Tinna Laufey Ásgeirsdóttir útskýrir eftirspurn. Kúrvan hallar niður, því eftir því sem verð lækkar þá eru neytendur tilbúnir að kaupa meira magn af vörunni.
„Eftirspurnin lýsir afstöðu neytenda til þess sem þeir vilja kaupa. Sú afstaða [greiðsluvilji] fer eftir margvíslegum þáttum, eftir verði vörunnar og verði á tengdum vörum sem neytendur gætu hugsanlega notað í stað þessarar tilteknu vöru, og einnig eftir tekjum einstaklinganna og svo framvegis,“ útskýrði Tinna Laufey.
Tinna Laufey útskýrir framboð. Kúrvan hallar upp því eftir því sem verð hækkar, því meira magn eru framleiðendur tilbúnir að framleiða af vörunni.
„Framboðið lýsir hins vegar afstöðu framleiðendanna, það er þeirra sem eru að bjóða vöruna á markaði. Það segir til um hversu mikið framleiðendur eru til í að framleiða miðað við verðið sem þeir fá fyrir vöruna og margvíslega aðra þætti. Til dæmis skiptir máli verð á þeim aðföngum sem þeir nota og hvort þeir gætu hugsanlega notað aðföngin til þess að framleiða eitthvað annað sem gæfi betur af sér.“
Framboðs- og eftirspurnarkúrvurnar. Markaðsverð myndast þar sem þær mætast. Ef verð er of hátt þá kaupa neytendur ekki allt sem er framleitt og ef verð er of lágt þá eru framleiðendur ekki reiðubúnir að framleiða nóg af vörunni.
Tinna Laufey útskýrði síðan samspil eftirspurnarinnar og framboðsins. „Það sem er mikilvægt að skilja er að þetta samspil, þar sem framboð og eftirspurn mætast, myndar markaðsverð vörunnar, það er það verð sem við öll lútum.“
Breki Karlsson og Helgi Seljan fara betur yfir útskýringar Tinnu Laufeyjar.
Í sófanum hjá Helga og Breka Karlssyni, umsjónarmönnum Ferðar til fjár, voru framboðs- og eftirspurnarkúrvurnar ræddar enn frekar. „Ég er svo mikið að ná þessu, að ég þykist vita að þetta er ekki svona einfalt,“ sagði Helgi. Ályktun hans var að sjálfsögðu kórrétt.
„Þetta er framboð og eftirspurn í sinni einföldustu mynd. En yfirleitt eru einhver önnur áhrif sem koma til,“ sagði Breki og tók dæmi af landnáms-hjónunum Helga magra Eyvindarsyni og Þórunni hyrnu.
„Já, ég hefði nú betur sleppt því að fara í þessa verslunarferð til Vínlands,“ sagði Þórunn hyrna við eiginmann sinn, og samþykkti að best væri að halda fjárhagnum aðskildum.
Helgi magri á hænu og reglulega selur hann Þórunni tíu egg. „Þannig er betra að hafa þennan fjárhag okkar, aðskilin enn sem komið er, þangað til þú ert orðin fjármálalæs,“ sagði Helgi heldur hrokafullur við eiginkonu sína, og skýrði hvers vegna hún þurfti að kaupa af honum eggin!
Tvær álnir vaðmáls var verðið sem Þórunn greiddi fyrir eggin. En dag einn barst hjónunum konungsbréf þar sem lagður var 50% skattur á öll egg umfram þrjú. Þessi skattur, sem gerði það að verkum að Helgi þyrfti að láta af hendi stóran hluta vaðmálsins, leiddi til þess að það borgaði sig ekki fyrir hann að selja konu sinni eggin.
Skattlagning konungs, hvort sem hann var danskur eða norskur, er dæmi um hvernig margt annað en verð getur haft áhrif á samspil eftirspurnar og framboðs. Það má ímynda sér að Þórunn hafi þurft eð leita annað að eggjum og að verð hafi hækkað vegna skattlagningar konungs.
Kakan á 1.500 krónur
Eins og Tinna Laufey sagði Helga, þá kemur margt annað til við verðlagningu en kostnaður við að framleiða hlutina. Helgi spurði sérstaklega út í verð á tertusneið, en í upphafi þáttarins bauð Breki honum að kaupa tertusneið á heilar 1.480 krónur. Verðmiðinn er síður en svo fjarstæðukenndur, en það vakti athygli síðastliðið sumar að sneið af köku var seld á tæpar 1.300 krónur á vinsælum ferðamannastaði. Þótt kostnaður við kökugerðina hafi vafalaust verið mun lægri en söluverð kökunnar, þá mátu framleiðendur það svo að eftirspurnin væri næg auk þess sem greiðsluvilji neytendanna, það voru mestmegnis ferðamenn, stæði undir svo hárri verðlagningu. Markaðsvirðið kökusneiðarinnar var þannig hærra en margir kærðu sig um, en rétt eins og Tinna Laufey benti á, þá er það verðið sem allir verða að lúta!
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 29. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.