„Ef við tökum bíl á bílaleigu þá borgum við fyrir hann leigu. Það er ekki þannig að við getum sagt: Ég fæ bílinn og skila honum til baka eins og ég fékk hann. Við borgum fyrir afnotin. Sama gildir með fjármuni. Ef einstaklingur fær lán þá borgar hann leigu fyrir að nota þessa peninga. En við köllum það ekki leigu heldur vexti.“ Þetta sagði Tinna Laufey Ásgeirsdóttir þegar hún útskýrði vexti og tímavirði peninga í þáttunum Ferð til fjár á RÚV.
Tinna Laufey sagði vexti þannig í einhverjum skilningi vera leigu á peningum. „Við þurfum að skila fjármununum til baka, en líka greiða leiguna, eða vextina, fyrir lánið,“ sagði hún. Þegar við tökum lán þá greiðum við gjald fyrir að fá peningana lánaða.
Þeir Breki Karlsson og Helgi Seljan, umsjónarmenn þáttanna, tóku dæmi af manni sem skuldaði félaga sínum tíu þúsund krónur. „Ímyndaðu þér að þú ert staddur í miðbænum og hittir gamlan vin. Hann segir: Hvar er tíu þúsund kallinn?“
„Ég skal láta þig fá 14 þúsund seinna ef ég má halda tíu þúsund kallinum.“
Félaginn segir á móti: „Ég get látið þig fá tíu þúsund krónur núna eða fengið að halda peningnum lengur og látið þig fá 14 þúsund krónur næst þegar við hittumst.“
Ef lánveitandinn samþykkir þennan samning þá er hægt að segja að tímavirði þessara peninga fyrir honum sé fjögur þúsund krónur, á þeim tíma sem líður milli dagsins í dag og þar til þeir hittast næst. Þessi tími er jafnan talinn í árum hjá bönkunum og öðrum lánastofnunum, þ.e.a.s. þegar talað er um vexti þá er átt við vexti á einu ári. Í dæminu okkar eru vextirnir 40%,. Það myndi þykja hátt leiguverð á peningum!
Traust skiptir máli
Dæmið lítur öðruvísi út ef við teljum það ólíklegt að við fáum lánið nokkurn tímann til baka.
Breki breytti dæminu og spurði Helga hvort hann myndi áfram lána tíu þúsund krónurnar, gegn því að fá 14 þúsund til baka, ef lántakinn væri ógæfukona. Það flækir stöðuna, því alls óvíst er hvort lánveitandinn fá þá nokkuð af upphæðinni greidda til baka. Traust skiptir því máli þegar vaxtakjör og tímavirði peninga er reiknað.
„Og ef að þetta væri til dæmis mamma þín þá myndirðu líta öðruvísi á hlutina,“ spurði Breki og átti þá við að eflaust myndi Helgi þá veita góð kjör og einungis biðja um lágmarksvexti eða enga. „Jú, en þá myndi dæmi held ég snúast við,“ sagði Helgi.
Tengt efni:
Samanburður á vaxtakjörum á innlánsreikningum bankanna.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 12. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.