Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, segir að tjón hans, vegna inngripa Seðlabanka Íslands í viðskipti fjárfestahóps sem hann leiddi, og ætlaði sér að kaupa stóran hlut í tryggingarfélaginu Sjóvá, nálgast þrjá milljarða.
Hann hefur höfðað skaðabótamál gegn Seðlabankanum og krafist bóta upp á tæpa tvo milljarða, en eins og áður sagði metur hann tjónið mun meira.
Stefnan er byggð á því að bindandi samkomulag hafi verið gert milli félags Heiðars og Seðlabankans og Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. (ESÍ) hinn 10. júlí 2010 um kaup á hlutabréfum í Sjóvá auk réttar til kaupa á frekari hlutum á fyrirfram ákveðnu gengi. Seðlabankinn og ESÍ hafi hins vegar sammælst um að hætta við viðskiptin, þar sem gjaldeyrisviðskipti Heiðars voru til rannsóknar hjá gjaldeyriseftirliti bankans á sama tíma.
Sjóvá var í opnu söluferli á þessum tíma en Seðlabankinn og ESÍ sátu uppi með stóran hlut í fyrirtækinu, eftir hrunið, en ríkið lagði því til fé þegar það var í fjárhagserfiðleikum til að bjarga því.
Málið var rannsakað, eins og áður segir, og vísað áfram til efnahagsbrotadeildar RLS, sem nú er hluti af embætti sérstaks saksóknara, en fellt niður af ríkissaksóknara hinn 27. febrúar 2012. Ekki var talið að lög hafi verið brotin, og engin ástæða til ákæru.
„Þetta er tjón sem nálgast þrjá milljarða. Það er hækkun verðmæta hlutabréfanna frá þeim tíma sem mér var hent útúr viðskiptunum. Ríkið hefði fengið 1,5 milljarðs hærra verð ef gengið hefði verið að viðskiptum við minn hóp á sínum tíma, um 10,9 milljarða, í stað 9,4 sem fyrirtækið var svo selt á. Ríkið tapaði því 1,5 milljarði og ég tapaði um tvöfaldri þeirri fjárhæð. Ríkið var tilneytt til að selja á þessum tíma, enda ESA og fleiri að gagnrýna yfirtöku ríkisins á fyrirtæki í samkeppnismarkaði,“ segir Heiðar.
Hann segist aðspurður, ekki búast við því að Seðlabankinn muni aðhafast neitt, eða axla ábyrgð á þeim aðgerðum sem gripið var til gagnvart honum án þess að lögmætar ástæður væru þar að baki. „Ég tel ekki að Seðlabankinn geri neitt, hann hefur enga tilburði sýnt í þá veru. Ég tel hins vegar að þeir sem bera ábyrgð á Seðlabankanum, ráðuneyti og Alþingi muni sjá til þess að Seðlabankinn axli ábyrgð á mistökum sínum,“ segir Heiðar.
Umboðsmaður gagnrýnir
Heiðar kvartaði til Umboðsmanns Alþingis 22. nóvember 2010, vegna málsmferðarinnar í seðlabankanum, og skilaði hann áliti sínu 6. október 2015, eða fyrir rúmlega tveimur vikum. Í því kemur meðal annars fram að hann hafi sjálfur, strax við upphaf athugunar hans í lok árs 2010, staðnæmst sérstaklega við þá leið sem farin var í lögum þegar gjaldeyrishöftin voru tekin upp haustið 2008. Þar var Seðlabanka Íslands fengin heimild til að gefa út, að fengnu samþykki ráðherra, reglur um gjaldeyrismál. Hinar eiginlegu efnisreglur um gjaldeyrishöftin voru í reglunum og brot gegn þeim gátu varðað refsingum. Umboðsmaður taldi vafa leika á því að þetta fyrirkomulag uppfyllti þær kröfur sem leiða af reglum um lögbundnar refsiheimildir og skýrleika refsiheimilda. Til viðbótar komu síðan atriði sem lutu að samþykki ráðherra á reglunum og birtingu þess, en eins og fram hefur komið, þá felldi Seðlabankinn niður 23 mál á dögunum, þar sem sérstakur saksóknari telur reglurnar gallaðar. Enginn einstaklingur hefur fengið dóm fyrir brot á gjaldeyrislögum, frá því fjármagnshöft voru lögfest í nóvember 2008, eða fyrir tæpum sjö árum.
Tryggvi Gunnarsson, Umboðsmaður Alþingis.
Þá gagnrýnir Umboðsmaður einnig stofnun ESÍ, sem heldur utan um miklar eignir Seðlabankans, og telur lagalegan grundvöll stofnunar þess félags vera á veikum grunni.
Þorsteinn Már gagnrýnir Seðlabankann
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.