Milljarðamæringurinn Elon Musk hefur boðið 43 milljarða bandaríkjadala í samfélagsmiðlarisann Twitter. Upphæðin nemur rúmlega 5,5 billjónum íslenskra króna, en Musk hefur sagt að kaupin séu ekki fjárhagslegs eðlis, þar eð að ætlunin sé ekki að græða á eignarhaldinu, heldur eingöngu hugmyndafræðileg. Meðal annars vill Musk að Twitter verði raunverulega það tól málfrelsisins sem hann segir því ætlað að vera.
Flestir hafa heyrt milljarðamæringsins getið, en hann hefur farið mikinn í tækniheiminum undanfarin ár. Fyrst um sinn var hann þekktastur fyrir aðild sína að stofnun rafbílaframleiðandans Tesla, en tveimur sögum fer reyndar af því hvort hann hafi raunverulega komið að stofnun þess, eða hvort hann hafi einfaldlega keypt sig inn í fyrirtækið. Engum blöðum er þó að fletta um það að Musk er forstjóri og stærsti eigandi Tesla, fyrirtækis sem hefur að miklu leyti leitt þróun rafbíla og sjálfstýringar þeirra á heimsvísu. Þá er SpaceX, annað fyrirtæki undir stjórn Musk, leiðandi á sviði framþróunar geimferða fyrir almenning. Bæði þessi fyrirtæki velta billjónum og er Musk sjálfur metinn á rúmlega 260 milljarða bandaríkjadala, sem er næstum tíföldun á um tveimur árum.
Enda ætlaði hann sér eitthvað stærra. Meðal þeirra breytinga sem Musk vill gera á Twitter er að gera það að einkafyrirtæki og auka þar málfrelsi, en margir, og þá sérstaklega einstaklingar á hægrivæng stjórnmálanna, hafa gagnrýnt Twitter, sem og aðra samfélagsmiðlarisa, fyrir að ritskoða efni með því að fjarlægja ósannar og villandi upplýsingar og banna notendur sem deila þeim. Meðal þeirra sem hefur orðið fyrir barðinu á þessari ritskoðun er Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, en aðgangi hans á Twitter var endanlega lokað tveimur dögum eftir innrás stuðningsmanna hans í þinghús Bandaríkjanna í janúar á síðasta ári. Fjölmargir hafa fangað áformum Musk, en Trump hefur þó gefið það út að hann hyggist ekki snúa aftur á Twitter, þar sem hann fór mikinn á forsetatíð sinni, þó Musk kaupi samfélagsmiðilinn.
Óttast afleiðingar taki Musk yfir
Stjórn Twitter íhugar nú tilboð Musk og er meðal þess sem sagt er til skoðunar að nota svokallaða eiturpillu (e. poison pill) til þess að hindra kaupin, en þá eru mörk sett á það hversu stór hluti má vera í eigu hvers hluthafa, en um er að ræða þekkta aðferð við að bægja óæskilegum kaupendum frá því að kaupa stóra hluti í fyrirtækjum. Musk hefur komið því á framfæri að honum þætti eðlilegt að efnt yrði til atkvæðagreiðslu um tilboðið meðal hluthafa. Það séu þeir sem eigi fyrirtækið, ekki stjórnin. Það er þó eigi víst að það myndi skila jákvæðri niðurstöðu fyrir Musk, þar sem hluthöfum virðist ekki mikið til tilboðs milljarðamæringsins komið.
Stjórnendur og hluthafar eru ekki einir um efasemdir vegna tilboðs Musk, en starfsfólk Twitter hefur jafnframt áhyggjur af hugsanlegri yfirtöku Musk, sem er þekktur fyrir að vera óútreiknanlegur. Samkvæmt heimildum New York Times hefur starfsfólkið jafnvel haft á orði að líkt sé og að Musk hafi króað fyrirtækið af úti í horni í eins konar gíslatöku. Þá þykir starfsumhverfið á samfélagsmiðlinum afar gott og öllum opið, á meðan sögur af meintum rasisma innan starfsstöðva Tesla hafa verið á kreiki um nokkurt skeið og hefur fyrirtækið meira að segja verið dæmt til að greiða fyrrum starfsmanni sínum bætur vegna slíks.
Framtíðin óljós
Stjórnin mun líklega verja nokkrum dögum í að yfirfara kostina í stöðunni áður en hún tilkynnir um niðurstöðu sína. Verði eiturpilluleiðin valin kemur það í veg fyrir að Musk eða nokkur annar geti orðið meirihlutaeigandi í fyrirtækinu. Fari stjórnin aðrar leiðir til að koma í veg fyrir kaupin, svo sem með því að neita tilboðinu með tilheyrandi greinargerð um ástæðurnar, svo sem efasemdir um fjármögnun og sanngirni tilboðsverðsins, gæti Musk hækkað tilboðið sitt eða leitað til annarra hluthafa og keypt hlutabréfin beint af þeim.
Twitter hefur tæknilega séð verið til sölu allt frá stofnun og nú þegar það er komið rækilega fram í sviðsljósið gæti eftirspurn aukist og þó að einkafjárfestar sjái kannski takmörkuð gróðatækifæri í samfélagsmiðlinum gætu tæknirisar á borð við Microsoft og Oracle, sem hafa bæði gert tilboð í rísandi samfélagsmiðlarisann Tiktok, haft áhuga. Í öllu falli virðast stórar breytingar geta verið í farvatninu hjá Twitter.