„Snarhækkandi raforkuverð eru nú að afhjúpa, af ýmsum ástæðum, takmarkanir á raforkumarkaði okkar,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á ráðstefnu í Slóveníu í gær. Hún segir markaðinn hafa þróast við „allt aðrar aðstæður“ en nú eru uppi og „í allt öðrum tilgangi“. Núverandi kerfi hæfi ekki lengur þörfum íbúa og fyrirtækja innan sambandsins.
„Þess vegna erum við í framkvæmdastjórninni að vinna að neyðarinngripi og kerfislægum umbótum á raforkumarkaðnum. Við þurfum annað markaðsmódel fyrir rafmagn sem sannarlega virkar og færir okkur nær jafnvægi.“
Heildsölumarkaður ESB með rafmagn virkar í dag þannig að allir raforkuframleiðendur, allt frá þeim sem virkja vind og sólarorku og til þeirra sem vinna jarðefnaeldsneyti, keppast um að bjóða orku til sölu á markaði í samræmi við framleiðslukostnað sinn. Endurnýjanleg orka er ódýrust og er boðin fyrst en sú dýrasta, yfirleitt gas, er boðin síðust.
En þar sem flest ESB-ríki reiða sig enn á jarðefnaeldsneyti til að svara allri eftirspurn eftir orku, stjórnast verð á rafmagni af gasverðinu. Ef gas verður dýrara þá verður, við núverandi markaðsmódel, rafmagnið dýrara. Gasið er notað til að bregðast við sveiflum í eftirspurn enda hægt að fíra upp í gasorkuverum, þar sem rafmagn er framleitt, með stuttum fyrirvara. Nýting bæði vind- og sólarorku, sem sífellt meiri áhersla er lögð á, er hins vegar augljóslega háð náttúrunni og þannig er hlutverk gass í jafnvægi raforkukerfisins síst minna mikilvægt nú en áður.
Kerfi þetta var m.a. hannað í þeim tilgangi að gera öll orkukaup innan sambandsins gegnsærri, svo ljóst mætti vera hvers konar orkugjafar væru nýttir. Átti þetta að einfalda umskipti yfir í græna orku sem stefnt er að í auknum mæli.
Innráss Rússa í Úkraínu hefur afhjúpað takmarkanir kerfisins sem orkuheilssölumarkaður ESB byggir á og sífellt fleiri eru á því að gera þurfi gagngerar breytingar. Stjórnvöld á Spáni, Portúgal, Grikklandi, Frakklandi og Ítalíu eru meðal þeirra sem vilja „aftengja“ verð á gasi í raforkuverðinu. Forsætisráðherra Belgíu, Alexander De Croo, er orðinn langeygur eftir aðgerðum yfirstjórnar ESB og hefur hótað því að taka til eigin ráða ef ekki verður breyting á og það sem fyrst. Kanslari Austurríkis segir „brjálæði“ eiga sér stað á raforkumarkaði í augnablikinu.
Skrúfa Rússar fyrir gasið?
Verð á gasi er nú í hæstu hæðum og á rússneska ríkisfyrirtækið Gazprom þar stóran hlut að máli. Fyrirtækið hefur stöðvað eða dregið verulega úr gasflutningum til nokkurra ESB-ríkja og talið er að flæði um gasleiðsluna Nord Stream 1 sé aðeins um 20 prósent af því sem var fyrir nokkrum mánuðum. Rússar tilkynntu t.d. að þeir ætluðu að loka fyrir flæðið til Þýskalands í þrjá daga – „vegna viðhalds“. Ekki í fyrsta skipti undanfarið sem sú afsökun er notuð. Í lok síðustu viku var verð á einni megavattstund af gasi 339 evrur, um 48 þúsund krónur, á heilsölumarkaði í ESB, samanborið við 27 evrur, um 3.800 krónur, á sama tíma í fyrra. Það hefur sum sé aldrei verið dýrara að nota rafmagn.
Þetta er auðsjáanlega gríðarlegt högg fyrir fyrirtæki og heimili, ekki síst vegna þess að engar vísbendingar eru um að gasverð farið að lækka. Það mun aðeins hækka. Fátækt blasir því við fólki og gjaldþrot við fyrirtækjum ef ekkert verður að gert.
Ýmislegt hefur verið reynt til að draga úr eftirspurn eftir orku, m.a. af hálfu hins opinbera í mörgum ríkjum. Þá hafa lönd samið um kaup á gasi og öðru jarðefnaeldsneyti frá öðrum löndum, s.s. Ástralíu, Suður-Afríku og löndum Suður-Ameríku til að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni.
En nú gengur vetur senn í garð, sá tími árs þar sem orkunotkun fer alla jafna í hæstu hæðir.
Allt frá uphafi innrásar Rússa í Úkraínu var ljóst að rússnesk stjórnvöld myndu nota gas til að draga úr mætti viðskiptaþvingana sem vesturveldin beita til að knýja á um stríðslok sem fyrst. Orkuverð innan ESB hækkaði enda mjög skarpt þegar í kjölfar innrásarinnar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði til þegar í mars að verðþak yrði sett á rafmagn innan þess og að gripið yrði til frekari tímabundinna aðgerða til að draga úr verðhækkunum.
Tíföld hækkun í Þýskalandi
Síðan er liðið hálft ár, ekkert verðþak hefur verið sett, og verð á raforku í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið, hefur tífaldast á innan við ári. Þótt Þjóðverjum hafi tekist að auka hraðar við gasbirgðir sínar fyrir veturinn en óttast var vofir annar ótti yfir: Að Rússar skrúfi alfarið fyrir gasið til þeirra.
Vitað var að gasið yrði skiptimyntin sem Pútín myndi reyna að nota til að draga úr áhrifum viðskiptaþvingana vegna innrásarinnar í Úkraínu. Og stjórnvöld í Evrópuríkjum gerðu sér væntanlega grein fyrir því að þetta gæti haft umtalsverð áhrif á raforkuverð innan álfunnar. En flestir vonuðu að orkukrísan yrði skammvinn, að hægt yrði að finna nýjar leiðir en nú óttast sérfræðingar, að því er þýskir fjölmiðlar segja, að orkuverð haldist hátt í nokkur ár. Ben van Beaurden, forstjóri Shell, sagði á ráðstefnu í Noregi í gær að búast mætti við háu orkuverði „í marga vetur“. Hann sagði að huga ætti að skömmtun á rafmagni.
Orkumálaráðherra Belgíu, Tinne Van der Straeten segir að næstu fimm til tíu vetur gætu orðið „hræðilegir“ ef stjórnvöld grípi ekki inn í þróunina sem fyrst. Nathan Piper, orkumálasérfræðingur hjá Investec, sagði í síðustu viku að „tímabil ódýrrar orku væri liðið“.