Vegagerðin eigi að útfæra valkost sem „fellur betur að framtíðarsýn borgarinnar“
Skipulagsstofnun segir að í umhverfismatsskýrslu frá Vegagerðinni vegna Sæbrautarstokks ætti að teikna upp valkost sem falli betur að framtíðarsýn Reykjavíkurborgar um þróun borgarinnar og ekki útiloka valkosti þó þeir hafi neikvæð áhrif á umferðarrýmd eða umferðarflæði. Vegagerðin segir að sú tegund gatnamóta Sæbrautar og Skeiðarvogs/Kleppsmýrarvegs sem teiknuð hafi verið upp, punktgatnamót, sé sú umfangsminnsta sem komi til álita ef tengja eigi vegina við stokkinn og hafa Sæbraut í frjálsu flæði.
Skipulagsstofnun telur að Vegagerðin eigi, í samstarfi við Reykjavíkurborg, að útfæra annan valkost eða valkosti um umferðarmannvirki í tengslum við gerð Sæbrautarstokks sem „fellur betur að framtíðarsýn borgarinnar um þróun byggðar“ og segir mikilvægt að „við útfærslu slíkra valkosta verði horft til þess að takmarka umfang mannvirkja og áhrif á aðliggjandi byggð, m.a. með því að gera ráð fyrir lægri hönnunarhraða og umferðarmagni“.
„Gæta skal þess að útiloka ekki valkosti á grundvelli þess að þeir leiða til minni umferðarrýmdar eða umferðarflæðis,“ segir í áliti Skipulagsstofnunar um matsáætlun Vegagerðinnar vegna Sæbrautarstokks, sem birt var á vef stofnunarinnar á miðvikudag.
Eins og Kjarninn sagði frá nýlega sendi embætti skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar inn umsögn við matsáætlun Vegagerðarinnar, þar sem borgin kallaði sérstaklega eftir því að tillaga að umfangsminni gatnamótum Sæbrautar og Skeiðarvogs/Kleppsmýrarvegs yrði skoðuð í umhverfismatsskýrslu til samanburðar við einu tillöguna sem lögð var fram í matsáætlun Vegagerðarinnar, sem er undanfari umhverfismats þessarar stórframkvæmdar.
Í umsögn skipulagsfulltrúa borgarinnar var hnykkt á því að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sé markmiðið með því að færa akvegi ofan í jörðina það að bæta umhverfisgæði aðliggjandi byggðar og tengja betur saman hverfi sem eru aðskilin með umferðarþungum stofnbrautum – en ekki að auka þjónustustig fyrir bílaumferð.
„Sá valkostur um útfærslu, sérstaklega gatnamót Skeiðarvogs og Sæbrautar, sem skilgreindur er í matsáætlun virðist ekki falla vel að þessum markmiðum og mikilvægt er að mótuð verði önnur útfærsla sem verður til samanburðar í umhverfismatinu, þar sem gert er ráð fyrir umfangsminni gatnamótum,“ sagði í umsögn skipulagsfulltrúa borgarinnar.
Punktgatnamót séu umfangsminnsta leiðin
Í svari Vegagerðarinnar við þessari athugasemd frá Reykjavíkurborg segir að ef tryggja eigi tengingar frá Sæbraut í stokk upp á Kleppsmýrarveg/Skeiðarvog og frjáls flæði umferðar á Sæbraut, sem sé ein af meginforsendum verkefnisins, þá sé „umfangsminnsta tegund gatnamóta, punktagatnamót sem sett hafa verið fram í frumdrögum.“
Vegagerðin segir að á forhönnunarstigi verði lögð áhersla á að minnka umfang umræddra gatnamóta og segir að skoðað verði að lækka hönnunarhraða auk þess sem mögulega verði hólf milli stokka fjarlægð, til að minnka umfang.
„Vegagerðin bendir á að ekki megi ganga of langt í að minnka umfang gatnamóta þar sem slíkt mun leiða til þess að umferð leiti inn í nærliggjandi hverfi. Í mati á umhverfisáhrifum verður gerð betri grein fyrir þeim valkostum og grundvelli fyrir því vali sem þegar hefur farið fram,“ segir í svari Vegagerðarinnar.
Vegagerðin vekur einnig athygli á því að í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins frá 2019 hafi Sæbrautarstokknum verið lýst með ákveðnum hætti, sem einnig ætti að tengjast lýsingu á markmiðum framkvæmdarinnar.
Í samgöngusáttmálanum segir meðal annars að Sæbrautarstokkur bæti samgöngur í og við lykilpunkt í samgöngukerfinu, bæti flæði vöruflutninga við Sundahöfn og að stokkurinn sé ein forsenda hugmynda um Sundabraut.
Vegagerðin horfir þannig til þess að Sæbrautarstokknum sé ætlað rýmra hlutverk en einungis þau sem skilgreind eru í aðalskipulagi borgarinnar, að bæta gæði nærliggjandi byggðar og tengja saman byggðakjarna.
Ekkert samkomulag liggur fyrir varðandi byggð ofan á stokknum
Í svari við frekari athugasemdum borgarinnar sem lúta að umfangi stokksins og tengdra umferðarmannvirkja vekur Vegagerðin svo athygli á því að það liggi ekki enn fyrir samkomulag varðandi byggð ofan á og í kringum stokkinn, sem eðlilega komi til með að hafa áhrif á útfærslu hans.
Vegagerðin segir að hæðarlega stokksins muni verða útfærð í samvinnu við borgina, auk þess sem fyrirkomulag gatna og byggðar við og ofan á stokknum verði skipulagt í forhönnun og að nánar verði gerð grein fyrir því í mati í umhverfismatsskýrslu verkefnisins.
Umferðarspár og -áætlanir mjög á reiki
Skipulagsstofnun segir einnig í áliti sínu að í væntanlegri umhverfismatsskýrslu þurfi að koma fram „skýrar forsendur“ fyrir umferðarspá sem geri ráð fyrir því að 50.000 bílar á sólarhring fari um svæðið árið 2030, en á því byggir hönnun stokksins eins og hún hefur verið sett fram til þessa.
Í umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar var gagnrýnt að þessar umferðartölur gæfu sér að umferð myndi aukast bæði umfram vænta íbúafjölgun og fjölgun starfa, eða um 2 prósent á ári næstu 20 árin. „Það er mjög umdeilanlegt að gera ráð fyrir slíku, ekki síst í ljósi þess að öll opinber og samþykkt markmið snúa að því að draga úr bílumferð, í það minnsta pr. íbúa og að breyta ferðavenjum til framtíðar litið,“ sagði í umsögninni frá embætti skipulagsfulltrúa borgarinnar, þar sem því var velt upp hvort skilgreina mætti valkost sem gerði ráð fyrir 40 þúsund bíla umferð á dag, en ekki 50 þúsund.
Í svari Vegagerðarinnar við þessari athugasemd borgarinnar segir að í forhönnun verksins, samhliða mati á umhverfisáhrifum, verði haldið áfram að vinna umferðargreiningar fyrir Sæbrautarstokk sem byggi á forsendum aðalskipulags Reykjavíkur til 2040, og að gerð verði grein fyrir þeim í umhverfismatsskýrslu.
Vegagerðin lætur ýmis gögn fylgja með svörum sínum við athugasemdum um matsáætlunina, meðal annars skýrslu Verkís sem snertir auk annars á væntri þróun umferðar á Sæbrautinni. Þar kemur fram kemur að afar misvísandi niðurstöður hafi fengist á undanförnum árum út úr mismunandi umferðarlíkönum sem sett hafi verið upp.
Í einni spá frá Eflu hafi verið búist við 42.000 bílum á sólarhring á Sæbraut við Vogabyggð árið 2030, en í annarri spá Mannvits hafi því svo verið spáð að 60.800 bílar færu um sama svæðið á degi hverjum árið 2034. Látið er fylgja með það þyki óvenju mikil umferðaraukning og verið sé að stilla líkanið betur af.
Í skýrslunni frá Verkís segir að ákveðið hafi verið í samráði við Vegagerðina að miða við 50 þúsund ökutæki sem framtíðarumferð á þessu svæði, og segir að það passi „ágætlega við 2% aukningu á ári næstu 20 árin sem er í samræmi við markmið aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030.“
Í þessum orðum virðist þó mögulega gæta einhvers misskilnings, því að markmið borgarinnar samkvæmt aðalskipulaginu til 2030 voru að með breyttum ferðavenjum myndi bílaumferðin á götunum einungis vaxa um alls 2 prósent til ársins 2030 (sem er ansi langt frá því að vera 2 prósent vöxtur á ári hverju).
Útskýra þurfi áhrif framkvæmda á nærliggjandi byggð
Skipulagsstofnun segir að öðru leyti í áliti sínu að gera þurfi grein fyrir ýmsu sem tengist áhrifum væntanlegs Sæbrautarstokks og framkvæmdum við hann í umhverfismatsskýrslu. Til dæmis þurfi að gera grein fyrir mengun við munna stokksins og hvernig staðið verði að loftræstingu hans. Einnig þurfi að gera grein fyrir fleygun og sprengingum sem ráðast eigi í við framkvæmdirnar og möguleg áhrif þeirra í nærliggjandi byggð í Vogahverfi.
„Þá þarf í umhverfismatsskýrslu að fjalla ítarlega um hávaða, bæði á framkvæmdatíma og vegna umferðar að loknum framkvæmdum og birta dynlínukort sem sýnir hljóðstig í aðliggjandi hverfum fyrir og eftir framkvæmdir. Gera þarf grein fyrir hugsanlegum mótvægisaðgerðum ef hávaði frá umferð fer yfir viðmiðunarmörk reglugerðar um hávaða varðandi umferð ökutækja,“ segir einnig í áliti stofnunarinnar.
Mótvægisaðgerðir mögulega nauðsynlegar vegna veggverks í Dugguvogi
Þá er vikið að því að í umhverfismatsskýrslu þurfi að fjalla um og tilgreina götuheiti og húsnúmer þeirra húsa sem eiga að víkja fyrir framkvæmdinni, en í matsáætlun kom fram að einhver hús sem í dag standa þétt upp við Sæbrautina þyrftu að víkja þegar framkvæmdir við stokkinn fara af stað.
Skipulagsstofnun segir að það þurfi að huga að menningarminjum og gera grein fyrir hugsanlegum mótvægisaðgerðum vegna þeirra. Stofnunin minnist sérstaklega á lágmynd eftir Gerði Helgadóttur sem prýðir hús sem stendur við Dugguvog 42.
Minjastofnun vakti athygli á því í umsögn sinni að húsið hefði mikið varðveislugildi vegna veggmyndarinnar og að ráðast þyrfti í mögulegar mótvægisaðgerðir þegar framkvæmdir hefjast, í samstarfi við Gerðarsafn.
Lestu meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
1. desember 2022Hugmyndir um kláf upp á Esjuna verða teknar til skoðunar á ný
-
23. nóvember 2022Hátt í 80 íbúðir í nýju fjölbýli á Ármannsreit
-
19. nóvember 2022Þétting byggðar getur aukið losun gróðurhúsalofttegunda
-
9. nóvember 2022Vegagerðin líti ásakanir um óheiðarleg vinnubrögð starfsmanna alvarlegum augum
-
8. nóvember 2022Hafa beðið í rúman áratug eftir að eignast eigið heimili
-
4. nóvember 2022Sameiginleg bílastæðahús fremur en bílakjallarar í Keldnalandinu