Eins og ýmsir höfðu óttast eða spáð breiðist kórónuveirupestin COVID-19 nú um Evrópu á miklum hraða samfara kólnandi veðri og auknum mannamótum innandyra. Framundan gætu verið erfiðir mánuðir, sér í lagi í þeim ríkjum þar sem bólusetningarhlutfall er ekki hátt.
Hér á landi var boðað fyrir innan við mánuði síðan að stefnt væri að afléttingu allra takmarkana í samfélaginu þann 18. nóvember, eða á fimmtudag, ef allt gengi vel. Skemmst er frá því að segja að allt gekk ekki vel og veiran fór á flug.
Þess í stað er búið að herða aðgerðir tvisvar og eru nú 50 manna fjöldatakmörk í gildi og skerðingar á opnunartíma veitingastaða og kráa, auk annars. Sóttvarnalæknir hefur sagt að stjórnvöld þurfi að vera tilbúin að grípa til enn harðari aðgerða.
Staðan er ekki ýkja ólík í mörgum löndum Evrópu. Þar sem búið var að kveðja takmarkanir og bjóða veirulausa tíma velkomna er nú verið að grípa til hertra aðgerða þar sem ljóst þykir að brestir komi í heilbrigðiskerfi ef álagið verður viðvarandi um lengri tíma.
Kjarninn tók saman hvernig stjórnvöld víða um álfuna hafa verið að bregðast við þeirri nýju stöðu sem upp er komin í faraldrinum – að veiran geisi og valdi ama þrátt fyrir að nóg sé til af bóluefni handa öllum sem vilja í þessari auðugu heimsálfu.
Holland tekur skref til baka
Í Hollandi tóku nýjar takmarkanir á landsvísu gildi síðasta laugardag. Þær fela auk annars í sér að allar verslanir sem selja annað en nauðsynjavörur þurfa að loka dyrum sínum kl. 18 og matvöruverslanir og veitingastaðir þurfa að vera búnir að loka kl. 20. Áhorfendur eru ekki leyfðir á íþróttaviðburðum – karlalandslið Hollands í fótbolta spilar fyrir luktum dyrum gegn Noregi í kvöld.
Ríkisstjórnin hefur sett fram áætlanir um breyttan kórónuveirupassa, sem fæli þá í sér að einungis þeim sem eru bólusettir eða hafa nýlega fengið COVID-19 yrði hleypt inn á ákveðna staði. Þessi nýi passi myndi leysa þann eldri, sem gerði kröfu um nýtt neikvætt próf fyrir óbólusetta, af hólmi.
Þetta er þó umdeilt og var til umræðu í hollenska þinginu í dag. Ekki er sögð samstaða innan ríkisstjórnarinnar um að útiloka óbólusetta frá því að sækja almenningsstaði á borð við kaffihús – og hollenska stúdentahreyfingin hefur lagst harðlega gegn því að háskólastúdentar verði útilokaðir frá staðnámi vegna þess að þeir hafi ekki látið bólusetja sig.
Austurríki vonast til þess að geta þvingað fleiri í bólusetningu
Nýjar takmarkanir í Austurríki sem tóku gildi í gær hafa stolið fyrirsögnunum í heimspressunni undanfarna daga, en þær í reynd útiloka óbólusett fólk, alveg niður í 12 ára aldur, frá þátttöku í samfélaginu. Óbólusett fólk má þannig einungis fara út úr húsi til þess að sækja sér nauðsynlegustu þjónustu.
Lögreglan í Austurríki hefur fengið það verkefni í fangið að fylgjast með fólki á almannafæri og athuga hvort það geti framvísað bólusetningavottorði eða vottorði um nýleg veikindi vegna kórónuveirunnar. Þetta hefur mælst ansi misjafnlega fyrir og mótmæli hafa átt sér stað allvíða um landið.
Einungis um 65 prósent Austurríkismanna eru fullbólusett, sem er lágt á evrópskan mælikvarða, en merki eru þegar sögð um að fleiri séu að skila sér í bólusetningu eftir að hinar umdeildu aðgerðir tóku gildi.
Þessar þvingunaraðgerðir gagnvart bólusetningum í Austurríki bera með sér ákveðin líkindi við þær sem frönsk yfirvöld gripu til í júlímánuði, en þá var Frökkum tjáð að bólusetningarvottorðs yrði krafist ef fólk ætlaði sér að sækja ýmsa viðburði og þjónustu í landinu.
Í kjölfarið hefur hlutfall þeirra sem hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni risið úr 54 prósentum í rúm 76 prósent – og enn sem komið er hið minnsta er haustbylgja COVID-19 í Evrópu lítið að trufla Frakka.
Þjóðverjar hugsa sinn gang
Veiran er byrjuð að setja mark sitt á þýskt samfélag svo um munar. Smitfjöldi er þar í hæstu hæðum frá upphafi faraldursins, sérstaklega í austur- og suðausturhluta landsins, þar sem hlutfall bólusettra er víða allnokkuð undir landsmeðaltalinu – sem er þó ekki nema rúm 67 prósent.
Í Þýskalandi hafa sambandsríkin sextán þó hingað til fengið nokkuð frelsi til þess að ákvarða hvert um sig hvernig skuli bregðast við veirunni, en það kann að fara að breytast.
Ný ríkisstjórn Sósíaldemókrata, Græningja og Frjálsra demókrata, sem kynnir stjórnarsáttmála sinn á næstunni, hefur samkvæmt Deutsche Welle sammælst um að nýjar takmarkanir verði lagðar fyrir þingið í vikunni, sem fela meðal annars í sér skyldubólusetningu fólks sem starfar með viðkvæmum hópum, t.d. á hjúkrunarheimilum.
Flokkarnir þrír eru einnig sagði hafa sammælst um að einhverskonar kórónuveirupassi verði tekinn upp á landsvísu og að fólk verði að sýna fram á bólusetningu, afstaðin veikindi eða neikvæð próf, til þess að fá að stíga um borð í lestir og rútur. Þá er einnig til skoðunar að grípa til einhverra fjöldatakmarkana bæði í almannarýmum og í heimahúsum – en til stendur að ræða þetta nánar í ríkisþinginu á fimmtudag.
Læknar kenna stjórnmálamönnum sumir um vöxt faraldursins og þau viðhorf heyrast að það hefði átt að kippa í bremsuna fyrir allnokkru. Susanne Johna, sem leiðir stéttarfélag lækna, sagði nýlega við ríkissjónvarpsstöðina Tagesschau að varnaðarorðum hefði verið vísað á bug sem hræðsluáróðri.
„Áríðandi ráðgjöf var hundsuð á meðan kosningabaráttan stóð yfir þar sem hún var tvímælalaust ekki pólitískt heppileg,“ sagði Johna, en kosningarnar í Þýskalandi fóru fram þann 26. september.
Norsk sjúkrahús undir álagi – Bólusettir þurfa ekki í próf í Svíþjóð
Á Norðurlöndunum er staðan ansi misjöfn á milli ríkja. Í Noregi, Danmörku og Finnlandi er fjöldi greindra smita á degi hverjum nú svipaður eða jafnvel meiri en þegar hann var hvað mestur á fyrri stigum faraldursins, en í Svíþjóð greinist hins vegar lítið af smitum um þessar mundir.
Þar var sú stefna tekin upp af hálfu heilbrigðisyfirvalda í upphafi þessa mánaðar að hætta að hvetja bólusett fólk í skimun gegn veirunni þrátt fyrir að það fyndi fyrir einkennum veikinda sem gætu bent til þess að þau væru með COVID-19. Skiptar skoðanir eru á ágæti þessa í Svíþjóð.
Faraldsfræðingar hafa stigið fram og gagnrýnt þessa breyttu stefnu og sagt hana leiða til þess að erfiðara verði að komast að því hvort faraldurinn í Svíþjóð er í vexti eða ekki. Halda ætti áfram að beita smitrakningu til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar – ef fólk skili sér ekki í próf verði það erfitt.
Í tilkynningu frá norsku ríkisstjórninni í gær sagði að heilbrigðisþjónusta víða um landið væri undir pressu vegna aukningar í innlögnum. „Ef okkur tekst ekki að snúa þessu við mun heilsu- og umönnunarþjónusta brátt bogna. Sveitarfélög með útbreidd smit þurfa að grípa til aðgerða,“ segir í tilkynningu norskra yfirvalda.
Nýjar aðgerðir sem eiga við um allt land voru líka kynntar, en hver sá sem er óbólusettur, yfir 18 ára aldri og býr á sama heimili og einhver sem greinist með COVID-19 hefur frá og með morgundeginum skyldu til þess að undirgangast nokkur COVID-19 próf – eitt á dag í heila viku ef sjálfspróf eru notuð, en annan hvern dag á sama tímabili ef farið er í PCR-próf.
Að auki boða norsk stjórnvöld að þau ætli að skoða að útvíkka notkun á COVID-19-passanum, sem heldur utan um bólusetningar, nýleg veikindi eða nýleg neikvæð próf. Haft er eftir Jonas Gahr Støre forsætisráðherra í tilkynningu stjórnvalda að athugað verði hvort kröfur um notkun hans á stöðum eins og næturklúbbum, tónleikastöðum, íþróttaleikjum og leikhúsum séu fýsilegar.
„Nú þegar búið er að bjóða öllum sem vilja bólusetningu er einfaldara að hugsa sér að nota COVID-19-vottorðið til að koma í veg fyrir stór hópsmit,“ er haft eftir Støre.
Ekkert vín eftir miðnætti á mörgum finnskum krám
Finnar eru um þessar mundir að sjá fleiri smit en nokkru sinni fyrr í faraldrinum og það sem meira er, fjöldi sjúkrahúsinnlagna er einnig að nálgast þá toppa sem urðu þegar allt samfélagið var óbólusett. Sanna Marin forsætisráðherra hefur lýst stöðunni sem alvarlegri, samkvæmt fréttum ríkisfjölmiðilsins Yle.
Á fundi finnsku ríkisstjórnarinnar í gærkvöldi var ákveðið að byrja að láta takmarkanir um starfsemi veitingastaða- og kráa ná til fleiri héraða landsins og munu þær teygja sig um allan suðvesturhluta landsins frá og með morgundeginum.
Þessar takmarkanir fela það helst í sér að það verður að hætta að afgreiða áfengi á miðnætti og að gestafjöldi er skertur niður í allt að 50 prósent af því sem staðir hafa starfsleyfi fyrir.
Almennt mega 50 manns koma saman í rýmum og viðburðum, en viðburðahaldrar, veitingastaðir og krár geta fengið undanþágur frá þessum reglum með því að skylda viðskiptavini sína til að nýta COVID-19-vottorð til að sýna fram á að þeir séu bólusettir, hafi staðið af sér veikindi eða séu með nýtt próf.
Staðan er einna erfiðust í höfuðborginni Helsinki og þar er heilbrigðiskerfið byrjað að eiga í vandræðum. Þar stendur til að takmarka samkomur innandyra meira en nú er, í næstu viku, samkvæmt frétt Yle.
Sjúkrahússinnlögnum í Danmörku hefur farið fjölgandi undanfarnar vikur, þó staðan sé langt um betri nú en þegar bólusetning var ekki orðin útbreidd síðasta vetur. Enn er þó ekki búið að grípa til aðgerða annarra en þeirra að taka upp kórónuveirupassann á nýjan leik – og krefjast sönnunar á bólusetningu, afstöðnum veikindum eða nýlegu neikvæðu prófi fyrir þátttöku í viðburðum.
Kjörsókn í sveitarstjórnarkosningum sem þar fóru fram í dag er líka sögð með besta móti og ekki er að sjá að áhyggjur af veirunni hafi haldið kjósendum heima.