„Við verðum að losna úr þessu hugarfari að þetta sé barátta hvers fyrir sig“
Kristrún Frostadóttir ætlar sér að verða næsti formaður Samfylkingarinnar. Hún vill sitja í mið-vinstristjórn og segir að neitunarvaldið gagnvart þeim aðgerðum sem hún telur nauðsynlegt að ráðast í liggi hjá Sjálfstæðisflokki. Kristrún segir að það þurfi að endurskoða fjármagnstekjustofninn, leggja auknar álögur á fákeppnismarkaði, hækka veiðigjöld og skoða útgönguskatt á þá sem selja kvóta. Peningarnir sem þetta á að skila vill hún nota til að fullfjármagna velferðarkerfi sem hafa verið veikt til að koma skattalækkunum í framkvæmd.
Þau skilaboð sem ríkisstjórnin er að senda til fólks á Íslandi um að það verði ráðist í almennar skattalækkanir til að auka ráðstöfunartekjur þeirra, en á sama tíma muni grunnþjónustan versna, eru ekki góð skilaboð. Við verðum að losna úr þessu hugarfari að þetta sé barátta hvers fyrir sig. Það er verið að ala á Thatcher-isma, um að það sé ekkert til sem heitir samfélag, heldur bara einstaklingar og fjölskyldur. Um að ríkið gefi fólki meiri tekjur og það finni svo út úr sínum málum, en á sama tíma sé til dæmis heilbrigðiskerfið og önnur velferðarkerfi vanfjármögnuð. Við vitum alveg hvaða hópar líða fyrir þá vanfjármögnun.“
Þetta segir Kristrún Frostadóttir, sem sækist eftir því að verða næsti formaður Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins í næsta mánuði.
Sú efnahagsstefna sem sé rekin hérlendis, og hefur verið rekin á undanförnum árum, dragi úr tilfinningunni um að fólk tilheyri. „Það þarf að taka heiðarlegt samtal um það hvernig við vindum ofan af ákveðnum hlutum. Og fólk þarf að sjá að þeir peningar sem verði sóttir með því renni inn í rétta farvegi. Í daglegt líf fólks.“
Í fyrstu fylgiskönnuninni sem birt var eftir tilkynningu Kristrúnar mældist fylgi Samfylkingarinnar 15,5 prósent og hefur ekki mælst hærra síðan í janúar 2021. Það virðist vera hljómgrunnur fyrir því sem Kristrún er að segja.
Vill þrengri kjarnastefnu til að breikka flokkinn
Það er ljóst að verði Kristrún kjörin formaður Samfylkingarinnar þá muni hún koma með aðrar áherslur en verið hafa í forgrunni í stefnu flokksins. Kjarnastefnan verður þrengri með áherslu á húsnæðismál, heilbrigðismál, samgöngur, góða atvinnu og kjör fólks.
Í framboðsræðu sinni, sem flutt var 19. ágúst, sagði hún þetta vera lykilinn að því að búa til breiðari og stærri flokk með trúverðugleika. „Við eigum enga annarra kost á völ að mínu mati, því vandinn sem við stöndum frammi fyrir er þessi: Kannanir hafa sýnt að kjósendur eiga erfitt með að festa hönd á það fyrir hvað Samfylkingin stendur. Ég vil að það sé alveg á hreinu fyrir hvað flokkurinn stendur og af hverju hann á erindi við fólkið í landinu.“
Síðan þá hefur verið mikið rætt um þá málaflokka sem hún nefndi ekki í ræðunni, en hafa verið fyrirferðamiklir í stefnu Samfylkingarinnar á undanförnum árum. Og kallað eftir afstöðu hennar til þeirra. Ein slík stefna hefur verið að vilja ekki samstarf við ákveðna stjórnmálaflokka, nánar tiltekið Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn.
Vill sjá mið-vinstristjórn
Kristrún segir að hún sé þeirra skoðunar að það sé ekki skynsamlegt að móta fyrirfram einhverskonar stjórnarsamstarf áður en kosið sé. „En ég held að það liggi samt sem áður alveg fyrir í því hvernig ég tala hvernig stjórn ég vil sjá. Það sem gerist oft í þessari útilokunarpólitík er að það fer allt að snúast um hina flokkanna. Þá sem eru útilokaðir. Ég vil hins vegar að fólk kjósi Samfylkinguna af því að það hefur trú á henni og treystir því að hún fari ekki inn í stjórn til að gefa eftir sín kjarnamál og treysti okkur til að standa við þau loforð.
Það er auðvitað alveg augljóst að það eru sumir flokkar sem eru að fara að verða erfiðari en aðrir í slíku samstarfi. En ég sé ekki ástæðu fyrir því að fara í stórar yfirlýsingar hvað það varðar.“
Hún vonar að kjósendur treysti henni til þess að standa við þetta út frá því hvernig hún talar á þingi. „Það liggur fyrir að neitunarvaldið gagnvart þessum aðgerðum sem við viljum ráðast í hefur legið hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég væri að binda hendur mínar stórkostlega gagnvart öllum stærstu umbótum sem þarf að gera ef ég myndi fara í ríkisstjórnarsamstarf og fjármálaráðuneytinu yrði haldið óbreyttu. Mið-vinstristjórn er augljóslega það sem við viljum sjá. Það er það sem þarf að gerast. Það þarf að breyta um forystu og það þarf jafnaðarmenn í hana. Mér finnst það lykilatriðið. Að senda þau skilaboð að það séu flokkar sem eru ekki lengst til hægri sem geti stýrt efnahagsmálum þannig að fólk geti upplifað öryggi og að það sé ekki verið að fara að setja ríkissjóð á hausinn. Að það sé rekin ábyrg efnahagsstefna sem styðji við velferðarmál.“
Neitunarvaldið hefur legið í fjármálaráðuneytinu
Kristrúnu hefur verið tíðrætt um að leggja áherslu á kjarnann í velferðarmálum. Aðspurð hver þessi kjarni sé nákvæmlega segir hún að hann vera ákveðna tilfinningu sem einkennir sósíaldemókratíska flokka: velferðarmál, efnahagsmál, almannaþjónusta. „Það blasa til dæmis við okkur risastórar áskoranir í heilbrigðismálum sem meirihluti þjóðarinnar er á að þurfi að laga. Sama á við um húsnæðismálin. Ég get líka rætt í því samhengi fjármögnun á lífeyris- og tryggingarmálum.
Hingað til hefur verið neitunarvald í fjármálaráðuneytinu gagnvart því að ganga í þessi verkefni. Þetta eru mál sem bitna á nánast öllum heimilum í landinu. Ef það á að vera einhver trúverðugleiki til staðar um það hvernig tekist er á við þessi mál þá þarf að vera skýr ríkisfjármála- og skattastefna. Skýr stefna um hvernig við ætlum að breyta þessum málum. Þarna liggja pólitísku línurnar um hvernig á að reka grunnsamfélag.“
Hún segir núverandi ríkisstjórn hafa komist upp með það að láta eins og svo sé ekki. „Það er ein pólitík ráðandi í fjármálaráðuneytinu en svo er rekin velferðarpólitík í öðrum ráðuneytum án þess að þau verkefni séu fjármögnuð. Þetta þarf að afvopna.“
Verið að ala á vantrú á velferðarkerfunum
Frá því að Kristrún kom inn í stjórnmálin í fyrra hefur hún markað sér skýra stöðu sem talsmaður annars konar efnahagsmálastefnu en ríkt hefur hérlendis undanfarin ár. Hún er óhrædd við að segja það upphátt að það þurfi að styrkja tekjustofna til að borga fyrir betri almannaþjónustu og setja fram gagnrýni hvernig núverandi stjórnvöld hafi farið í þveröfuga átt. „Við sáum það á síðasta kjörtímabili að það var farið mjög markvisst í skattalækkanir með mjög breiðum pensli, en líka í ákveðnar sértækar glufur. Það er verið að ala á ákveðinni einstaklingshyggju og draga úr samtryggingunni. Besta dæmið um það er að það var sett á frádráttarbærni á skatti til að gefa til góðgerðarmála. Þetta er stefna sem byggir á bandaríska módelinu. Að fólk greiði ekki bara inn í samtrygginguna og treysti hinu opinbera til að fjármagna almennu neysluna heldur að fólk sem á pening geti valið hvað það styður.“
Sjálf hefði hún valið að sjá þá 40-50 milljarða króna sem veittir voru til skattalækkunar á síðasta kjörtímabili notaða til að verja velferðarkerfi. „Það sem mér finnst alvarlegt við núverandi pólitískt ástand að það er verið að senda þau skilaboð að það standi til að laga þessi velferðarmál. Síðan koma fjárlög og það er ekkert að frétta. Á borði er farin sú leið að lækka skatta og veikja tekjustofna. Það er ekki vilji til að setja á nauðsynlegar álögur eða höfða til nauðsynlegrar samfélagslegrar ábyrgðar hjá breiðu bökunum. Þess í stað er sagt við fólk að það séu ekki til peningar. Að það sé ekki hægt að fjármagna hlutina. Að það sé einhver innbyggður ómöguleiki til staðar.
Það er ekki meirihluti fyrir nýju stjórnarskránni á þingi
Í stefnu Samfylkingarinnar er tekið fram að flokkurinn vilji að Alþingi samþykki breytingar á stjórnarskrá sem byggjast á tillögum stjórnlagaráðs og þeim þjóðarvilja sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 20. október 2012.
Aðspurð um afstöðu sinnar til nýju stjórnarskrárinnar segist hún hafa verið alveg hreinskilin með það að hún vilji ekki fara í vegferð á næsta kjörtímabili sem hún sjái ekki fram á að geta skilað í höfn. „Það hefur ekki verið þingmeirihluti fyrir nýju stjórnarskránni. Það hafa líka verið skiptar skoðanir um hvaða hluta stjórnarskrárinnar það eigi að endurskoða. Ég vil að við leggjum áherslu á mál sem við vitum að við getum skilað af okkur.
Það þýðir ekki að það sé ekki ákveðin réttlætisákvæði þarna sem á að tala fyrir og að það eigi að koma málinu í einhverskonar farveg. En ég vil ekki senda þau skilaboð út til almennings að við getum ekki komist áfram í kjarna-velferðarmálum nema að við fáum nýja stjórnarskrá. Ég vil ekki stunda þannig pólitík að við séum að bíða eftir einni lausn sem muni laga allt annað. Það þýðir ekki að allt sé sett til hliðar, heldur hvar stóru áherslurnar eiga að liggja og hvert beina eigi orkunni. Þetta er þekkt fyrirbæri úr pólitík og lífinu að manni hættir til að færast of mikið í fang. Og þá komum við allt of litlu í verk.“
Með því er verið að ala á vantrú fólks á velferðarkerfunum. Fyrir vikið er fólk farið að spyrja sig hvort það sé yfirhöfuð gerlegt að reka þau. Og þá fer fólk að leita eigin leiða til að fá lausn á sínum málum.“
Þessu þarf að snúa við að mati Kristrúnar.
Vill skoða nýtingu persónuafsláttar vegna fjármagnstekna
Kristrún segir að það séu tekjustofnar til þar sem svigrúm er til að sækja meira. Hún bendir meðal annars á þá miklu aukningu sem varð á fjármagnstekjum í fyrra, en þær jukust um 65 milljarða króna á árinu 2021, sem er mesta aukning milli ára síðan 2007. Af þeim 181 milljarði króna sem féll til í slíkar tekjur fór 81 prósent til efstu tekjutíundarinnar. Fyrir vikið hækkuðu ráðstöfunartekjur þessa hóps, sem átti fyrir mest, vel umfram tekjur allra annarra tekjuhópa. Á sama tíma jókst skattbyrði 90 prósent landsmanna á meðan að skattbyrði ríkustu tíu prósentanna dróst saman.
Kristrún segir það blasa við að gríðarleg misskipting sé fólgin í þessari stöðu. Það sé ekki einungis hennar persónulega pólitíska mat heldur skoðun allra hagfræðinga sem viti hvernig vaxtaákvarðanir virka. „Þetta er afleiðing af ákvörðun sem er tekin af stjórnvöldum.“
Hún vill þó ekki gagnrýna Seðlabanka Íslands fyrir þá misskiptingu. Hans hlutverk sé að huga að verðstöðugleika. Hið pólitíska umboð til að vinna gegn ójöfnuði liggi hjá ríkisstjórninni. „Það þarf að endurskoða fjármagnstekjustofninn og skattprósentuna sem lögð er á slíkar tekjur. Sú endurskoðun þarf að leiða af sér jafnvægi. Til að ná því markmiði er hægt að fara allskonar leiðir og það er mikilvægt að festast ekki í nákvæmum útfærslum. En lokamarkmiðið þarf að vera skýrt.“
Að því sögðu þá hefur hún velt ýmsum leiðum fyrir sér til að komast að því markmiði. „Það eru til dæmis sumir eldri borgarar sem lifa að miklu leyti af fjármagnstekjum. Sparnaði sem þeir eiga. Það væri hægt að skoða að vera með persónuafslátt sem nær yfir bæði launatekjur og fjármagnstekjur í stað þess að vera með skattfrelsi í fjármagnstekjum. Þannig að ef þú ert bara Jói út í bæ en ekki Þorsteinn Már, þá geturðu nýtt persónuafsláttinn Við verðum að passa okkur sem samfélag að ráðast í skattaafslætti sem allir fá. Það er það versta við þessar skattabreytingar sem hafa verið innleiddar. Það er allt í lagi að taka tillit til fólks í ákveðnum stöðum. Eins og eldri borgarana sem ég nefndi áðan.“
Opin fyrir þrepaskiptum fyrirtækjaskatti
Það er, að mati Kristrúnar, hægt að sækja viðbótartekjur til annarra en þeirra einstaklinga sem mynda ríkasta hóp landsins. „Á bakvið mörg stór fyrirtæki á fákeppnismörkuðum er einhverskonar samfélagsgerð. Staða þeirra féll ekki af himnum ofan. Það er eitthvað sem gerði þessum aðilum kleift að skara fram úr og ná þeirri stöðu sem þeir eru í. Í stað þess að viðhafa orðræðu um að þarna þrífist ógeðsleg græðgi og enginn megi græða peninga þá verður að höfða til ábyrgðar fólks. Ef það hefur notið góðs af því að farvegurinn í samfélaginu hentaði því mjög vel, sama hvort það sé einstaklingur eða fyrirtæki, þá á viðkomandi að finna til ábyrgðar. Og það er ekkert óeðlilegt að hann borgi álag fyrir.“
Hún telur að það þurfi að skoða að leggja á fákeppnisrentu á almennum fyrirtækjamarkaði. Staða stórra fyrirtækja á fákeppnismörkuðum sé allt önnur en staða einyrkja, lítilla og meðalstórra fyrirtækja í landinu. „Þetta þarf fyrst að greina með stórri úttekt og kortleggja í kjölfarið svo við getum áttað okkur á hvort, og þá hvaða, fyrirtæki séu að fá umframrentu bara út frá því hvernig uppbyggingin á markaðnum er. Þetta gæti falið í sér þrepaskiptan fyrirtækjaskatt. Það gæti verið ein leið að markmiðinu. Það væri líka mögulegt að leggja sértækan skatt á fákeppnismarkaði. Ef þú ert að reka fyrirtæki sem skarar fram úr vegna þess að þú ert í rekstrarumhverfi sem er skapað af ríkinu og lokað af, og hvað þá innan markaðar þar sem erfitt er að vera með erlenda samkeppni, þá snýst þetta ekki um að refsa þér fyrir að hafa náð að fara af stað með fyrirtækið og komist inn á fákeppnismarkaðinn, heldur að það sé ákveðin viðurkenning á því að það er prósenta af rentunni sem er að detta niður hjá þér á hverju ári sem hefur ekkert með rekstrarhæfileika þína að gera.“
Of lítill hluti af auðlindarentunni rennur i ríkissjóð
Eitt stærsta svöðusárið sem er á íslensku þjóðarsálinni snýst um skiptingu á þeirri arðsemi sem fellur til vegna nýtingar á fiskveiðiauðlindinni. Heildarhagnaður sjávarútvegs, fyrir skatta og gjöld, frá 2009 og til loka árs 2020 var um 665 milljarðar króna. Af þeirri upphæð fór undir 30 prósent til íslenskra ríkisins, eiganda auðlindarinnar, í formi tekjuskatts, tryggingagjalds og veiðigjalda, en rúmlega 70 prósent sat eftir hjá eigendum fyrirtækjanna.
Í aðdraganda kosninganna í fyrrahaust voru gerðar ýmsar kannanir á skoðun almennings á þeim kerfum sem Ísland hefur komið sér upp í sjávarútvegi. Á meðal þeirra var könnun sem Gallup gerði fyrir þrýstihópinn Þjóðareign. Í henni var fólk spurt hvort það styddi að markaðsgjald væri greitt fyrir afnot af fiskimiðum þjóðarinnar. Niðurstaðan var sú að 77 prósent aðspurðra var fylgjandi því og einungis 7,1 prósent var andvígt slíkri kerfisbreytingu. Í annarri könnun, sem MMR gerði fyrir Öldu – félags um sjálfbærni og lýðræði, og var birt í ágúst 2021, sögðu 64 prósent landsmanna, næstum tveir af hverjum þremur, að núverandi útfærsla á kvótakerfinu ógni lýðræðinu.
Aðspurð um þessi mál segir Kristrún það liggja skýrt fyrir að of lítill hluti af auðlindarentunni sé að renna í ríkissjóð. „Það liggur alveg fyrir að staða sjávarútvegsfyrirtækja er misjöfn eftir stærð. Það liggur líka fyrir að við erum með stórútgerð sem hefur mikið borð fyrir fyrir báru. Staðan í dag er þannig að við erum í stríðsástandi í Úkraínu og verð á ferskum fiski og sjávarfangi hefur rokið upp á sama tíma og heimilin í landinu eru að brenna út af vaxtahækkunum. Það hljóta allir að sjá að það er eitthvað rangt þarna.Mér finnst liggja beinast við að það sé endurskoðuð álagning þegar kemur að veiðigjöldum og ég sé ekkert því til fyrirstöðu.“
Hægt að ná fram réttlæti með útgönguskatti
Eitt af því sem marga landsmenn svíður undan er þegar útgerðarmenn selja aflaheimildir, sem eru skilgreindar í lögum sem þjóðareign, fyrir háar fjárhæðir. Önnur birtingarmynd þess er þegar þjóðareignin er látin ganga milli kynslóða, líkt og er að eiga sér stað víða nú þegar þeir útgerðarmenn sem hafa byggt upp fyrirtæki á grundvelli kvótakerfisins eru margir hverjir að komast á aldur. Við það verður gríðarleg tilfærsla á auði milli kynslóða.
Kristrún segir það skýrt að það þurfi að auka réttlæti í þessari atvinnugrein. „Við getum ekki horft á tugi milljarða lenda hjá litlum hópi á meðan að við erum með vanfjármagnað velferðarkerfi.“
Það verði þó líka að vera hægt að tala um sjávarútveg sem mikilvæga og sterka atvinnugrein án þess að því sé alltaf blandað saman við þá stöðu að fáir útvaldir einstaklingar séu að hagnast ótrúlega mikið, til dæmis með því að að sýsla með veiðiheimildir. „Það sjá það allir að það er komið einhver allt önnur staða upp þegar fólk byrjar að selja sig út úr greininni. Þá hættir þetta að snúast um rekstraröryggi fyrirtækja eða atvinnuöryggi á svæðinu. Þá fer þetta bara að snúast um hvað einstaklingurinn tekur með sér af auðlindinni.“
„Ég er sjálf stuðningsmaður Evrópusambandsins“
Stefnumál sem hefur einkennt Samfylkinguna sterkt undanfarin ár, en Kristrún minntist ekki á í framboðsræðu sinni, er innganga Íslands í Evrópusambandið. Kannanir sem gerðar hafa verið í ár sýna að viðsnúningur hefur orðið hjá þjóðinni í afstöðu til þess, en í Þjóðarpúlsi Gallup sem birtist í mars voru 47 prósent hlynntir inngöngu á meðan að 33 prósent voru á móti. Það var í fyrsta sinn sem mælst hafði meirihluti fyrir aðild að Evrópusambandinu í könnunum fyrirtækisins frá árinu 2009. Könnun sem Prósent gerði í júní sýndi mjög svipaða niðurstöðu.
Kristrún segir að stefna Samfylkingarinnar í þessum málaflokki sé mjög skýr og verði það áfram. „Við höfum verið fylgjandi Evrópusambandsaðild. Ég er sjálf stuðningsmaður Evrópusambandsins. Ég er hins vegar líka meðvituð um það að eins og er þá er ekki þingmeirihluti fyrir málinu þótt kannanir séu að fara upp á við varðandi viðhorf þjóðarinnar gagnvart aðild. Fyrsta skrefið fyrir mér er að spyrja þjóðina hvort við eigum að fara í þetta verkefni. Leggja aðildarviðræður í þjóðaratkvæðagreiðslu og taka svo stöðuna í kjölfarið.
Þetta umboð sem ég er að reyna að sækja mér sem formaður felur í sér að við verðum að passa að færast ekki of mikið í fang. Ég vil ekki að fólkið í landinu haldi að við getum ekki fjármagnað heilbrigðiskerfið, komið skikk á húsnæðismál og önnur mikilvæg velferðarmál án þess að ganga í Evrópusambandið eða að innganga sé eina lausnin á þeim málum. Ég vil að fólk með jafnaðarmannataug geti kosið Samfylkinguna þótt það sé tortryggið gagnvart aðild að Evrópusambandinu. Það á ekki að koma í veg fyrir að við getum fjármagnað velferðarkerfin og brotið upp þessa pattstöðu sem er til staðar.“
Hún telur að það sé hægt að innleiða leiðir sem tryggi aukna sanngirni í þessum málum. „Það er hægt að skoða þætti eins og útgönguskatt úr greininni. Í sumum tilfellum þá getur sala á auðlindaréttindum haft slæm áhrif á samfélagið vegna þess að kvóti er fluttur í burtu.
Þetta er eitthvað sem ég held að sé mikilvægt að rýna og er mál sem ég er sjálf að skoða að stilla upp, hvort sem það yrði í formi viðbótar fjármagnstekjuskatts eða í annarri útfærslu.“
Finnst allt í lagi að það sé verkaskipting milli flokka
Annar málaflokkur sem Kristrún hefur ekki tala mikið um frá því að hún tilkynnti framboð eru loftslagsmál. Ákveðinnar óánægju hefur gætt með það á meðal hóps innan Samfylkingarinnar sem sér mikil tækifæri í aukinni áherslu á þann málaflokk, og á umhverfismál, í ljósi þess að Vinstri græn sæta gagnrýni fyrir sína meðhöndlun á honum.
Kristrún segir ekkert breytast í loftslagsmálum verði hún formaður. „Þessi mál fara ekki úr stefnu flokksins. Loftslagsmál eru risastórt réttlætismál. Staðreyndin er sú að það eru flokkar á Alþingi sem leggja mikla áherslu á loftslagsmál og með mjög flotta stefnu sem við getum sameinast um. En munurinn á okkur og sumum öðrum flokkum er að við munum ekki fara í ríkisstjórn með flokki sem vill ekki fjármagna tillögur í þessum málaflokki.“
Það séu skilaboð Samfylkingarinnar inn í næstu ríkisstjórn. Að umbótamál verði fjármögnuð. „Mér finnst allt í lagi að það sé verkaskipting á milli flokka. Raunveruleikinn er sá að ef við förum í ríkisstjórn þá erum við fara í fjölflokka ríkisstjórnarsamstarf. Ég vil að okkar hluti í verkaskiptingunni snúist um trúverðugleika þegar kemur að efnahagsmálapólitík þegar kemur að því að hrinda velferðaráherslum í framkvæmd. Og mér finnst allt í lagi að dreifa áherslum með öðrum flokkum. Það breytir því ekki að þetta er í forgangi sem grundvallar málefni í Samfylkingunni.“
Besta sem Ísland hefur gert í auðlindamálum er Landsvirkjun
Eitt stærsta úrlausnarefni stjórnmála, jafnt hér á Íslandi sem alþjóðlega, í nánustu framtíð snýr að orkumálum. Í Evrópu snýst það um skort á orku. Á Íslandi, þar sem orkan er næg, snýst það um hver næstu skref í orkuöflun verða, í hvaða ramma þau verði stigin og hvernig eigi að nýta þá viðbótarorku sem getur fallið til.
Þar á meðal eru ákvarðanir um hvort og hvernig farið verði í uppbyggingu á vindorku, hvort hún eigi að eiga sér stað á forsendum samfélagslegrar uppbyggingar eða hvort það eigi að hleypa einkaaðilum að borðinu.
Kristrún segir það nokkuð skýrt í sínum huga að orkumál séu lífskjaramál. „Við erum að sjá methagnað hjá Landsvirkjun í dag, sem rennur til samfélagsins, út af stöðunni í heiminum vegna stríðsins í Úkraínu á meðan að staðan í Evrópu er allt önnur. Ég held að það liggi alveg fyrir að eitt það besta sem við höfum gert í auðlindamálum er að vera með það fyrirkomulag sem er í kringum Landsvirkjun. Þetta er einn af fáum hlutum í auðlindanýtingu sem við höfum gert alveg rétt. Þess vegna finnst mér mjög sérstakt að við séum komin út í einhverja aðra umræðu á þessu nýja skeiði í orkumálum, að það sé ekki bara sjálfgefið að við höldum þessu módeli. Mér finnst það algjörlega sjálfgefið. Það þýðir ekki að Landsvirkjun þurfi að vera í öllum útfærslum. En mér finnst skipta miklu máli að vindorkan fari inn í rammaáætlun og það sé heildaryfirsýn yfir þessa framkvæmd.“
Öruggt orkuaðgengi fyrir alla forgangsmál
Hún segir að miðstýring sé ekkert sérstakt markmið hjá sér í lífinu. „Það eru sumir markaðir sem eru betri ef þeir eru ekki eins miðstýrðir og aðrir og ég trúi á blandað hagkerfi. Ríkið þarf ekki að vera með puttana í öllu. En á þessum markaði, orkumarkaði, þá trúi ég á að það virki best. Varðandi vindorkuna er svo skýrt að þær útfærslur sem eru hagstæðastar fyrir okkur, ef við förum þá leið að nýta hana, eiga að snúast um hvar við stillum upp görðunum og hversu margar vindmyllur við verðum með. Þá þarf að vera með yfirsýn. Það er ekki hægt að vera bara með einhvern mann út í bæ að reisa eina vindmyllu einhversstaðar. Í ofanálag þá þurfum við að huga að því hvert rentan af þessu lekur þegar þetta fer af stað og hvert orkan fer.“
Annar flötur á umræðunni um orkumál snýst um hvort Ísland eigi áfram að vera lokaður orkumarkaður og tryggja þannig forgangsaðgang að ódýrri orku fyrir heimili og fyrirtæki í landinu en selja restina til fyrirtækja, aðallega í mengandi iðnaði, sem byggi hér verksmiðjur eða hvort landið eigi að tengjast öðrum orkumörkuðum, til dæmis með lagningu sæstrengs, og ná þannig í hærra verð fyrir orkuna sem hægt yrði að nýta til annarra samfélagslegra verkefna.
Kristrún segir ljóst að staðan sem er uppi í Evrópu í dag, þar sem orkuverð hefur margfaldast vegna stríðsins í Úkraínu, hafi breytt viðhorfi margra til þessara mála. „Mér finnst fullkomlega eðlilegt að fólk sem býr í Norður-Evrópu, þar sem er ekki orkuskortur, setji spurningarmerki við það að vera sett í þá stöðu að geta þurft að upplifa miklar orkuverðshækkanir. Þetta er erfið umræða að taka þegar það er ekki búið að skapa traust varðandi orkuafhendingu innan kerfisins. Við höfum ekki leyst málin þannig að aðgengi að orku víða úti á landi sé öruggt þrátt fyrir að eiga alla þessa orku. Mér finnst forgangsmál að leysa þá stöðu áður en við förum að ræða þátttöku í alþjóðlegu samstarfi um orku. Þannig les ég bara þjóðina.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars