Evrópusambandið (ESB) gæti líklega orðið sér úti um nægilegt orkumagn til að þurfa ekki að reiða sig á innflutning jarðgass frá Rússlandi út þennan vetur. Þrátt fyrir það gæti slík ráðstöfun leitt til enn frekari verðhækkana á orku til húshitunar, auk þess sem sum aðildarríki sambandsins í Austur-Evrópu gætu þurft að grípa til varúðarráðstafana. Þetta kemur fram í greiningu frá hugveitunni Bruegel sem birtist í síðustu viku.
Boða samrýmdar refsiaðgerðir
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um áður hefur rússneskt herlið nú safnast saman við landamæri Úkraínu. Evrópusambandið, ásamt Bandaríkjunum og öðrum aðildarríkjum NATO, hótað Rússum hörðum og samræmdum refsiaðgerðum, komi til þess að þeir ráðist inn í Úkraínu.
Á meðal hugsanlegra refsiaðgerða sem rætt hefur verið um er stöðvun á innflutningi jarðgass frá landinu til ESB, meðal annars með því að lok Nord Stream 2 leiðsluna á milli Rússlands og Þýskalands.
Samkvæmt Bruegel hefur Evrópusambandið reynt að flytja inn hlutfallslega minna af jarðgasi frá Rússlandi á síðustu árum. Þó eru Rússar enn stærstu innflutningsaðilar sambandsins á jarðgasi, en 38 prósent af öllum gasinnflutningi ESB í fyrra kom frá þeim.
ESB í viðkvæmri stöðu
Meginland Evrópu hefur nú þegar glímt við nokkurn orkuskort á síðustu mánuðum og miklar verðhækkanir, þar sem birgðir voru litlar og framleiðsla á endurnýjanlegum orkugjöfum var undir væntingum í fyrra. Þó segir Bruegel að verstu spárnar hafi ekki ræst, meðal annars þar sem vetrarmánuðirnir í álfunni hafa verið hlýrri en venjulega. Einnig hefur aukinn innflutningur af jarðgasi komist til móts við minni orkuframleiðslu í álfunni.
Orkubirgðir sambandsins hafa aukist á síðustu mánuðum og nema nú 442 terawattsstundum, en til samanburðar framleiðir Kárahnjúkavirkjun 4,6 terawattsstundir á ári. Ef gasinnflutningur frá Rússlandi stöðvast um næstu mánaðarmót segir Bruegel að Evrópusambandið ætti fræðilega að geta gengið á birgðirnar sínar fram í apríl. Ef veturinn verður kaldur í álfunni gæti sambandið þó þurft á rússnesku jarðgasi að halda í mars.
Tæknilegir og pólitískir erfiðleikar
Hins vegar er óvíst hvort öll aðildarríki sambandsins munu geta mætt eftirspurninni eftir jarðgasi, þar sem orkuflutningskerfi á milli landa er takmörkunum háð, segir hugveitan. Líklegt sé því að flöskuhálsar myndist ef innflutningur á jarðgasi frá Vestur-Evrópu til Austur-Evrópu eykst skyndilega.
Sömuleiðis nefnir Bruegel að staðan gæti boðið upp á ýmsar pólitískar hindranir. Mögulegt sé að ríki sem hafa meiri birgðir af jarðgasi veigri sér við að deila því til annarra aðildarríkja Evrópusambandsins sem eru í verri stöðu. Hætta á slíkri hömstrun eykst svo eftir því sem óvissan um lengd innflutningsbannsins er meiri.
Í ljósi þess segir hugveitan að líklegt sé að sum aðildarríkja ESB sem séu verr tengd öðrum löndum og hafi litlar orkubirgðir muni þurfa að grípa til neyðarráðstafana í vetur, ef lokað verður á innflutningi rússnesks jarðgass.
Miklar verðhækkanir
Tímaritið The Economist fjallaði einnig um áhrif hugsanlegs innflutningsbanns á jarðgasi frá Rússlandi í síðustu viku. Þar var því haldið fram að Evrópusambandið gæti þraukað í fjóra til fimm mánuði með slíkt bann í gildi ef það gengi meira á eigin birgðir en núverandi reglur leyfa, en mögulegt væri að þessar reglur yrðu rýmkaðar í ljósi aðstæðna.
Þó bendir tímaritið á að innflutningsbannið yrði mjög neikvætt fyrir evrópskan efnahag. Sársaukinn yrði þó miklu frekar í formi mun hærra orkuverðs í stað framboðsskorts á orkunni sjálfri.