Rétt fyrir miðnætti á gamlárskvöld var saman kominn mikill fjöldi fólks við dómkirkjuna í Köln til að fylgjast með flugeldasýningu á áramótunum. Meðal þeirra voru yfir þúsund karlmenn af arabískum og norður-afrískum uppruna og réðust hópar þeirra að konum á svæðinu eftir að flugeldasýningin hófst. Yfir 600 konur leituðu til lögreglu og lýstu hvernig mennirnir áreittu þær, káfuðu á þeim, rifu af þeim klæðin og rændu af þeim verðmætum. Tvær nauðganir hafa verið kærðar. Konurnar lýsa algjörri óreiðu og fullkomnu máttleysi lögreglu.
Atburðarrás kvöldsins er enn að mörgu leyti óskýr. Lögreglan hefur borið kennsl á 31 árásarmann, þar af 13 hælisleitendur en enginn þeirra er grunaður um kynferðisafbrot. Árásarmennirnir eru af ýmsum þjóðernum, meðal annars frá Alsír, Marokkó, Íran, Sýrlandi, Serbíu, Írak, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Lögreglan í Köln hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að gera lítið úr atburðunum, en blaðafulltrúi hennar sagði á nýársdag að nóttin hefði verið tiltölulega róleg. Það var ekki fyrr en fjórum dögum síðar sem fréttir af árásunum birtust eftir að skýrslu lögreglumanns var lekið til fjölmiðla. Fjölmargir fréttamiðlar hafa fjallað um málið og er það meðal annars forsíðuumfjöllun nýjasta tölublaðs The Economist.
Hið týnda aðalatriði
Fjölmiðlar og lögregla hafa verið sökuð um að hylma yfir atburðina af ótta við að þeir væru vatn á myllu þeirra sem vilja takmarka komu flóttamanna til Evrópu. Gagnrýnin hefur beinst að flóttamannastefnu Angelu Merkel í stað aðalatriðis þessa atburðar; máttleysis hins vestræna réttarkerfis við að taka á kynferðisbrotum gegn konum.
Fyrstu viðbrögð borgarstjóra Kölnar voru að benda konum á að koma sér upp ákveðnum hátternisreglum til að koma í veg fyrir árásir. Hvatti hún konur meðal annars til að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá karlmönnum og ferðast um í hópum. Lögreglustjóri Kölnar var rekinn eftir að hafa síendurtekið varið viðbrögð og viðbúnað lögreglu. Þýska lögreglan hefur auk þess lengi verið gagnrýnd fyrir að taka ekki almennilega á kynferðisbrotum, til að mynda á Októberfest, en þýski femínistinn Anne Wizorek telur að þar séu um 200 kynferðisbrot framin á ári hverju. Hún segir árásirnar í Köln óhugnanlegar, en þýskar konur hafi lengi mátt verjast kynferðisbrotum frá samlöndum sínum.
Það á að refsa þeim sem brjóta lög. Í tilviki flóttamanna leggur flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna þá skyldu á flóttamenn að þeir fylgi lögum og reglum í hælislandinu. Flóttamenn eru hinsvegar líkt og annað fólk misjafnir. Misjafnlega klárir, misjafnlega góðir, misjafnlega löghlýðnir. Það þýðir því ekki að yfirfæra lögbrot manns yfir á þann samfélagshóp sem hann tilheyrir, hvort sem viðkomandi er innflytjandi á nýársgleði, Þjóðverji á Októberfest eða Íslendingur í Eyjum.
Hvað ef næsti Steve Jobs er (ekki) meðal flóttamanna?
Fjölmiðlar og greinendur sem styðja flóttamannastefnu Angelu Merkel hafa lagt áherslu á að flóttamenn hafi jákvæð áhrif á efnahag þeirra ríkja sem taka á móti þeim. Nýlegar tölur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins benda til að svo sé. Fjölmargir hafa einnig deilt mynd á samfélagsmiðlum þar sem bent er á að faðir Steve Jobs var sýrlenskur flóttamaður. Það er þekkt aðferð innan réttindabaráttu að reyna að sannfæra þann sem völdin hefur um að það sé hans hagur að virða mannréttindi minnihlutahópa. Má þar nefna baráttu kvenna á stríðshrjáðum svæðum fyrir þátttöku í friðarviðræðum. Bent hefur verið á að kvenleg mildi og umhyggja geti leitt til farsælli friðarsamninga. Það má vel vera, en fyrst og fremst eiga konur rétt á að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins og að hlustað sé á skoðanir þeirra.
Mögulega leynist næsti Steve Jobs meðal þeirrar milljónar flóttamanna sem flúði til Evrópu árið 2015. Kannski ekki. Það breytir ekki þeirri staðreynd að vestrænum ríkjum ber skylda til að virða mannréttindi flóttamanna og hælisleitanda samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna.
Samningurinn saminn við fordæmalausar aðstæður
Sumir halda því fram að flóttamannastraumurinn nú sé án fordæma og flóttamannasamningurinn hafi ekki verið hugsaður fyrir viðlíka aðstæður. Það er rétt, að samanlagður fjöldi flóttamanna, hælisleitanda og vegalausra hefur aldrei verið meiri síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Flóttamannasamningurinn var hinsvegar samþykktur í júli 1951, sex árum eftir að seinni heimstyrjöldinni lauk. Meginland Evrópu var í rúst, tugir milljóna manna þurftu að flýja heimili sín og meira en milljón þeirra var hælislaus þegar flóttamannasamningurinn var samþykktur. Evrópa á að miklu leyti heiðurinn af flóttamannakerfinu sem ríkir enn í dag. Hörmulegar aðstæður þeirra sem flúðu stríðsátök og ofsóknir nasista voru þeim sem skrifuðu samninginn í fersku minni. Þeir þekktu raunveruleika sem fæstir núlifandi Evrópubúa geta gert sér í hugarlund.
Fjölmargir flóttamenn hafa fordæmt árásirnar í Köln. Einn þeirra er Sýrlendingurinn Basheer Alzaalan sem skrifar í The Guardian. Basheer óttast að allir flóttamenn verði dæmdir fyrir gjörðir fámenns minnihluta. Á sama tíma fjölgar árásum á innflytjendur í Þýskalandi. Karlmenn vígbúast til þess að verja konur fyrir innflytjendum. Líkt og kynferðisbrot þekkist ekki í vestrænni menningu.
Köln er ein birtingarmynd ofbeldis gegn konum. Óhugnanleg birtingarmynd. En með því að einblína einungis á þann fjölda innflytjenda sem tók þátt í árásunum er hætt við að réttindum tveggja ólíkra hópa sé ógnað. Annars vegar réttindum kvenna til lífs án ofbeldis og hins vegar réttindum flóttamanna til lífs. Nú er hætt við að umræðan leiði okkur á verri stað.