Ólympíuleikarnir eru fyrir alla: Íþróttamenn sem uppskera loks ávöxt erfiðis síns, áhorfendurna sem flykkjast til framandi landa til að hvetja keppendur áfram, og okkur sem heima sitjum, með nammiskálina á bumbunni, og fylgjumst með helstu íþróttamönnum heims merja út sigur út á örfá sekúndubrot eða fulkomlega teygða rist.
Á sama tíma eru Ólympíuleikarnir meira en íþróttaviðburður. Þeir leiða saman þjóðir heims með heiðarleika og járnaga íþróttamannsins að leiðarljósi. Tilgangur leikanna, samkvæmt Ólympíusáttmálanum, er meðal annars að stuðla að mannúð, friði og mannlegri reisn með íþróttaiðkun og góðu fordæmi. Í anda þessa markmiðs keppir lið flóttamanna í fyrsta skipti á leikunum í ár.
Partí á kostnað bágstaddra
En að vissu leyti minna Ólympíuleikarnir nú fremur á hungurleika en leika friðar og mannúðar. Leika þar sem skemmtun hinna ríku fer fram á kostnað hinna fátæku og valdaminnstu. Þar sem íþróttamenn og áhorfendur koma saman í mannvirkjum byggðum á rústum fátækrahverfa. Slíkir íþróttaleikvangar eru oft sérbyggðir fyrir Ólympíuleikana og nýtast lítið sem ekkert að leikunum loknum. Tveggja vikna partí á kostnað skattgreiðenda og bágstaddra.
Yfir 77.000 íbúar fátækrahverfa í Ríó hafa misst heimili sín vegna framkvæmda við Ólympíuleikana, sem líkja mætti við að allir íbúar Kópavogs, Seltjarness, Garðabæjar og Hafnafjarðar misstu heimili sín svo byggja mætti íþróttahallir. Kostnaður Ríó hefur nú þegar farið fram úr áætlunum og borgin er svo illa stödd fjárhagslega að fylkisstjóri Río de Janeiro fylkis lýsti nýlega yfir að það glímdi við „fjárhagslega neyð˝ og þyrfti stuðning brasilíska ríkisins til að koma í veg fyrir algjört hrun almannaöryggis, heilbrigðiskerfis, menntunar og samgangna. Á sama tíma fullvissuðu yfirvöld alþjóðasamfélagið um að fjárhagsvandinn myndi ekki bitna á Ólympíuleikunum. Þannig hefur heilsu, menntun og öryggi íbúa Ríó verið ýtt til hliðar í nafni leikanna.
Ríó er ekki einsdæmi hvað þetta varðar. Þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í Peking árið 2008 lögðu yfirvöld áherslu á að nútímavæða borgina með nýjum háhýsum og bættu samgöngukerfi. Leikarnir voru enda liður í sókn Kína og áttu að heilla heimsbyggðina. En til að koma nýjum leikvöngum og lestarteinum fyrir þurfti að rýma til og losa pláss. Fórnarkostnaðurinn var meðal annars sá að 1,5 milljón íbúa borgarinnar missti heimili sín og leikarnir kostuðu kínverska ríkið yfir 4800 milljarða, sem er um þreföld verg landsframleiðsla Íslands.
Hver ber ábyrgðina?
Margt af þessu vitum við og ræðum jafnvel opinskátt árum, mánuðum og vikum fyrir næstu Ólympíuleika. En um leið og liðin ganga inn á (nýbyggðan) Ólympíuvettvanginn, víkur siðferðið fyrir keppnisandanum. Þannig fer umræðan í sífellda hringi og leiðir ekki til neins.
Að vissu leyti kristalla Ólympíuleikarnir vanda alþjóðasamfélagsins þegar kemur að ábyrgð. Hver skal ábyrgjast að mannréttindi verði ekki fótum troðin? Er það ábyrgð íþróttamanna að sniðganga leika, þegar vitað er að réttindum almennings hefur verið fórnað við undirbúning þeirra? Eða er það mögulega ábyrgð okkar, sem heima sitjum með nammiskálina, að neita að horfa á keppni sem hefur fótum troðið grunnhugmynd leikanna: bætta mannúð og gott fordæmi?
Meginábyrgðin hlýtur að liggja hjá Alþjóðaólympíunefndinni sem ákveður hvaða borg heldur Ólympíuleikana hverju sinni. Borgir skila inn umsóknum um að halda leikana þar sem gerð er grein fyrir áætluðum kostnaði og færð rök fyrir kostum þess að halda leikana í viðkomandi borg. Nefndin gerir margvíslegar kröfur um mannvirki, samgöngur og fjölda hótela og veitingastaða. Í gegnum tíðina hefur iðulega ríkt hörð samkeppni og nefndin því átt þess kost að velja þá borg sem setur fram hvað metnaðarfyllsta áætlun. Þetta leiðir til þess að umsóknir eru oft stórlega ýktar og framkvæmdir fara langt fram úr kostnaðaráætlun.
En hlutverk nefndarinnar er ekki einungis að tryggja ágæti leikanna, því samkvæmt sáttmálanum er henni ekki síst ætlað að framfylgja hugmyndafræði og hlutverki Ólympíuleikanna. Með því að firra sig ábyrgð á siðferðilegum skyldum sínum þar sem mannleg reisn og mannúð skulu ávallt vera í forgrunni er grunngildum Ólympíuleikanna fórnað.
Áhugaleysi vestrænna borga gæti knúið fram breytingar
Mögulega er breytinga að vænta á umsóknarkerfinu. Sívaxandi kostnaður við leikana hefur dregið úr áhuga á að halda þá og hafa fjölmargar borgir dregið umsóknir sínar tilbaka, þeirra á meðal Osló og Stokkhólmur fyrir vetrarólympíuleikana 2022 og Boston fyrir sumarleikana 2024, með þeim orðum að ómögulegt sé að framselja fjárhagslega framtíð borgarinnar.
En áhugaleysi vestrænna borga gæti aukið vandann fremur en hitt. Kína og Brasilía sáu leikana sem tækifæri til að stimpla sig inn hjá alþjóðasamfélaginu. Að þessu leyti hafa þróunarríki með vaxandi efnahag ríkari ástæðu til að halda leikana en margar vestrænar borgir. Á sama tíma eru lýðræðisleg ferli og réttindi íbúa oft takmarkaðri í slíkum ríkjum og alþjóðaólympíunefndin gerir enga kröfu um að íbúar borganna séu hafðir með í ráðum. Eftir að Osló dró tilbaka umsókn sína um að halda vetrarleikana 2022 stóðu aðeins tvær umsóknir eftir, frá Peking og Almaty í Kazakstan.
Áhugaleysið hefur ýtt við forseta alþjóðaólympíunefndarinnar, Thomas Bach, sem hefur boðað mögulegar breytingar á umsóknarferlinu. Orð Bach vekja örlitla von í brjósti. En miðað við máttleysi nefndarinnar við að taka á ríkisstyrktri lyfjamisnotkun rússneskra keppenda, þar sem nefndin varpaði allri ábyrgð á sérsamböndin, er ekki ástæða til sérlegrar bjartsýni.
Það er ábyrgð landsnefnda, íþróttamanna og áhorfenda að krefjast breytinga og vera tilbúin til að gefa upp glansmyndina. Ástæðulaust er að takmarka leikana við vestrænar borgir en það hlýtur að vera réttmæt krafa að ólympíunefndin tryggi að mannlegri reisn íbúa sé ekki fórnað á altari leikanna. Lausnin gæti falist í því að leikarnir yrðu haldnir nokkrum sinnum í sömu borg eða að umsóknarferlið og kröfurnar væru einfölduð.
Lausnin getur verið erfið, flókin og kostað málamiðlanir, en líkt og keppendur Ólympíuleikanna vita manna best, þarf staðfestu og ákveðni til að ná settu markmiði. Því glansmyndin er ekki nauðsynleg grunnhugmyndinni: að skapa vettvang þar sem íþróttamenn heimsins etja kappi á heiðarlegan og uppbyggilegan hátt.