„Það varðar okkur öll að í heiminum sé fjöldi barna sem ekki njóti grunn- mannréttinda og fái ekki tækifæri til að vaxa og þroskast eins og best verður á kosið. Það hefur sýnt sig svo ekki verður um villst að ein af virkustu aðferðunum til að draga úr vannæringu barna er að mennta mæður barnanna,“ segir Anna Elísabet Ólafsdóttir. Anna er ásamt Eiríki Bergmann, Magnúsi Árna Skjöld Magnússyni, Viðari Viðarssyni, Kristínu Þórdísi Þorgilsdóttur og Restituta Joseph Surumbu, að vinna að verkefni sem mun efla menntun kvenna í Tansaníu til að þær geti komið á fót eigin rekstri. Kjarninn hitti Önnu Elísabetu og tók hana tali.
Hvað er ‘woman power’ og út á hvað gengur verkefnið ykkar?
"Verkefnið WOMEN POWER – sem nú er verið að safna fyrir á Karolina Fund - er verkefni sem einmitt gengur út á það að mennta efnalitlar konur. Verkefnið er unnið í þorpinu Bashay í norðurhluta Tansaníu í Afríku sunnan Sahara. Akademískir starfsmenn Háskólans á Bifröst leiða verkefnið undir stjórn Önnu Elísabetar, aðstoðarrektors.
Verkefnið er byggt á námskeiðinu Máttur kvenna sem kennt hefur verið síðastliðin 10 ár við Háskólann á Bifröst. Í hnotskurn gengur verkefnið út á það að hjálpa konunum að finna viðskiptatækifæri í nærumhverfi sínu, vinna einfalda viðskiptaáætlun og fara af stað í rekstur. Fyrsti nemendahópurinn útskrifaðist fyrr á þessu ári en nú er í undirbúningi framhaldsnámskeið fyrir konurnar sem og nýtt námskeið fyrir allar þær konur sem ekki komust að á fyrsta námskeiðið."
Af hverju þorpið Bashay?
"Anna Elísabet hefur verið viðloðandi Bashay í Tansaníu síðastliðin 10 ár og bjó þar um tíma. Hún rekur þar lítinn bóndabæ, Tanzanice Farm, sem býður upp á ódýra gistingu fyrir ferðamenn. Með störfum sínum í Bashay hefur Anna skapað störf fyrir fjölda þorpsbúa. Þar á meðal er Resty, 24 ára tansanísk kona sem nú er framkvæmdastjóri Tanzanice Farm. Hún er með þrjá karlmenn í vinnu og hefur með góðum stuðning öðlast virðingu þeirra sem og annarra þorpsbúa. Resty hefur dvalið á Íslandi í rúmt ár og fengið haldgóða menntun í tölvutækni, bókhaldi og ensku. Dvöl hennar á Íslandi hefur skapað henni ný tækifæri og stóraukið víðsýni hennar, getu og færni. Resty er leiðtogi kvennahópsins sem Háskólinn á Bifröst er nú að mennta."
Hvað viljið þið sjá komast til leiðar og hvernig sjáið þið framtíðina fyrir ykkur varðandi þetta verkefni?
"WOMEN POWER er að verða sjálfbært verkefni og er stefnt á uppbyggingu frumkvöðlaseturs fyrir konurnar í Bashay, seturs sem skapar þeim athvarf til að hittast, fræðast, miðla af reynslu sinni og hjálpast að við að koma viðskiptahugmyndum sínum á koppinn. Með þessu móti styrkjum við samfélagið innan frá, hjálpum konunum að verða sjálfbjarga og geta betur stutt við börnin sín, fætt þau og klætt og þannig skapað þeim bjartari framtíð."
Hvers konar verðlaun eru í boði fyrir að heita á ykkur?
Við vonum að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í þessu verkefni með fjárhagslegum stuðningi. Í þakklætisskyni fyrir framlög eru m.a. boð á sýningu heimildarmyndar um verkefnið, armband eða jafnvel snyrtitaska sem bæði er unnið af konunum í Bashay.
Nánari upplýsingar um verkefnið og félagasamtökin er að finna á facebook síðu verkefnisins: og á heimasíðu félagasamtakanna WOMEN POWER.