Pétur Haukur Jóhannesson stendur fyrir verkefninu Nýlenda A0-4 sem hægt er að finna á Karolina Fund. Nýlenda A0-4 er vísindaskáldsaga sem gerist í geimnum árið 2190. Hún mun telja um 300 blaðsíður út prentuð. Það má í raun segja að þetta sé blandað af vísindaskáldskap og spennutrylli því í bókinni er að finna þó nokkun hasar sem ætti að halda lesandanum vel við efnið. Búið er að teikna myndir af nokkrum persónum bókarinnar sem finna má á heimasíðu Nýlendu A0-4.
Höfundurinn Pétur er 29 ára gamall. Hann hefur búið mesta alla tíð á Fáskrúðsfirði en síðastliðin 8 ár hefur hann búið í Reykjavík. Hann lauk BSc gráðu í tölvunarfræði árið 2013 og starfar sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá Advania. Þar áður útskrifaðist hann úr Lögregluskóla ríkisins og starfaði sem lögreglumaður í um tvö ár þar á eftir, og á sumrin með tölvunarfræðinni.
Pétur er trúlofaður Tinnu Hrönn Óskarsdóttur og eru þau barnlaus, en eiga von á stelpu í lok febrúar. Kjarninn hitti Pétur og tók hann tali.
Um hvað fjallar Nýlenda A0-4?
„Árið er 2190 og mannkynið hefur fundið ormagöng úti í geimnum sem liggja á ókortlaðar slóðir. Pláneta hefur fundist hinu megin við göngin og er mannkynið búið að koma sér þar fyrir og farið að nýta þar auðlindir. Plánetan heitir Jodess. Öll starfsemi sem telst eyðileggjandi fyrir Jörðina er flutt á nýju plánetuna hægt og rólega því mengun á Jörðinni er orðið risavaxið vandamál.
Nýlenda A0-4 fjallar um flugstjórann Ewin og undirmenn hans á flutningaskipinu Freka. Skipið ferðast á milli Jarðarinnar og Jodess, nánar tiltekið Nýlendu A0-4 sem er ein af nokkrum borgum sem risið hafa á Jodess. Þar búa um 1,6 milljónir. Þau leggja af stað frá Jörðinni þann 14. janúar 2190 í enn einn leiðangurinn. Áætlaður ferðatími til Jodess eru um 30 dagar. Þegar þau koma á Nýlendu A0-4 sjá þau að ekki er allt eins og það var síðast. Þau þurfa að takast á við nánast óyfirstíganlegt verkefni ef þau vilja upplifa eðlilegt líf aftur. Ewin kynnist sjálfum sér sem nýjum manni eftir gjörðir sem hann hefði aldrei órað fyrir að geta gert, allt til að halda lífi. Uppgjör, blóð, sviti, byssur, svik og söknuður koma við sögu í þessari ferð."
Hvenær er útgáfan áætluð?
„Útgáfan er áætluð um miðjan desember, í síðasta lagi. Ég ætla þó að reyna að prenta hana fyrr svo ég nái að selja eitthvað af eintökum, fyrir utan þau sem eru fyrirfram pöntuð á Karolina Fund, fyrir jólin."
Hvað kom til að þú fórst að skrifa vísindaskáldsögu?
„Ég byrjaði í raun fyrst að skrifa söguna árið 2007, þó ég tali alltaf um að ég hafi byrjað 2010. Ég var ekki með internetið í nokkra mánuði og leiddist stundum svo ég ákvað að byrja bara að skrifa einhverja sögu sem ég gæti haft gaman að. Þá var engin spurning að velja sögu sem gerðist í geimnum, því ég hef oft mjög gaman að þeim. Ég skrifaði þó bara einhvern hálfan kafla og hætti svo, enda hafði ég nóg að gera í vinnunni en þá var ég lögreglunemi í starfsnámi á höfuðborgarsvæðinu.
Árið 2010 missti ég svo vinnuna í einhverja fjóra mánuði. Þá varð ég að finna mér eitthvað að gera. Ég vildi geta skapað eitthvað. Ekki kunni ég að teikna, smíða eða forrita. En ég kunni að skrifa. Svo ég ákvað að halda áfram með söguna sem ég byrjaði á 2007. Um sumarið fékk ég svo vinnu í lögreglunni aftur og eftir það byrjaði ég í Háskólanum í Reykjavík. Ég vann í bókinni af og til með námi og vinnu. Það gekk mjög hægt en hafðist að lokum."
Hvað er það við vísindaskáldsöguheiminn sem heillar þig mest?
„Mér hefur alltaf fundist heillandi hvað það er margt í boði þegar kemur að vísindaskáldsögum. Söguþráðurinn getur verið allavega. Það er hægt að gera vísindaskáldsögu sem gerist á Jörðinni, úti í geimi eða þess vegna á stað sem er ekki til. Út frá því er svo hægt að spinna hvað sem er.
Það er eitt sem mér finnst nauðsynlegt að allar sögur innihaldi til þess að geta talist skemmtilegar, og þarna er ég svolítið að hugsa þetta út frá bíómyndum því ég hef ekki lesið mikið af vísindaskáldskap, því saga er alltaf saga, hvort sem hún er túlkuð á hvíta tjaldinu eða í bók. Það er persónusköpun í sögunum sem mér finnst skipta mestu máli. Ef persónusköpun er léleg, þá verður allt lélegt, og það á líka við um vísindaskáldskap. Fyrst þarf auðvitað að kynna persónurnar svo maður geti fundið til með þeim. Næst þurfa þær að vera raunverulegar, þ.e.a.s. ef þær bregðast ekki við aðstæðum eins og fólk bregst við þeim í raunveruleikanum, þá finnst mér mikið upp á vanta. Þá er ég að tala um þegar persónur missa t.d. vin eða maka. Þá eiga þær að vera sorgmætar og gráta, nema þær eigi við einhver andleg veikindi að stríða, en þá þarf veikin að skína í gegn alla söguna. Ef saga uppfyllir þetta ekki, þá fellur hún fljótt í áliti hjá mér, sama hvort hún sé vísindaskáldskapur eða ekki."
Verkefnið er að finna hér.