Sjálfbærni er hugsjón samtímans. Merkilegt að sjá þess jafn áþreifanleg merki í skáldskapnum, af öllum stöðum. Ótrúlegasta fólk virðist dreyma um að vera sjálfu sér nógt um söguefni, vinna með sitt eigið líf á mun grímulausari hátt en við eigum að venjast, svona ofan á allar hefðbundnu ævisögurnar og minningabækurnar. Grímulausari, en líka skáldlegri. Úr verður óstöðugt efnasamband, sem er auðvitað annað orð yfir sprengiefni. Einhverjar bombur hafa nú þegar sprungið.
Sjóveikur í München er öðrum þræði um efnasamband sem gæti þess vegna verið sprengiefni. Reyndar fjallar veikasti kafli bókarinnar eiginlega um það hvað gerist þegar svarta gubbið sem Ungur Maður (söguhetja Hallgríms) hefur verið að safna í bjórglas innanklæða er gert upptækt af Austurþýskum lögreglumönnum í heimsókn hans austur fyrir múr í lok Þýskalandsdvalarinnar. Það er svolítið eins og þessi fangelsisdvöl hafi verið skrifuð á sjálfstýringu, saumuð upp úr öðrum frásögnum og kvikmyndum um slíka reynslu. Enda eru hún það. Allavega ekki sótt í minningasjóð höfundar, nema að smávægilegu leyti eins og fram kom í Kiljuviðtali.
Umrætt efnasamband er líka skáldskapur. Og ekki bara það – mögulega er það Skáldskapur, hvorki meira né minna. Hraun, blek, hin innri ólga sem þarf bæði að storkna og fljóta til að hægt sé að forma hana, nýta til skapandi starfa. Hallgrímur teflir á tæpasta vað með að láta lesandann sífellt fylgjast með þessum uppsölum og pukrinu í kringum það áður en líkingin kristallast að lokum. Þá fyrirgefur lesandinn, allavega þessi, staglið í þessu djarfa og, á endanum, snjalla líkingamáli.
Pukur, feluleikur, er eitt gegnumgangandi stef. Ungur Maður er áfjáður í einveru. Hann forðast hið bjórglaða samfélag íslensku námsmannanna, hann tengir ekki við samnemendur sína í hinni bæversku listaakademíu, hann felur sig bak við gluggatjöld, nakinn, meðan leigusalinn hans tekur á móti vinkonu sinni í farsakenndasta atriði bókarinnar. Stílsmáti dagsins í listinni snertir hann ekki. Hann tengir einna helst við Marcel Duchamp, en gengur að vonum illa að komast að leyndardómum „Stóra glersins“, hvað þá að finna þau fótspor meistarans sem honum gæti liðið vel í. Marcel sjálfur er ekki til viðtals.
Og í jólaferð til Flórens í leit að list, en ekki síður ást og hamingju, mætir skelfingin til leiks. Hinni umtöluðu nauðgun og eftirköstum hennar er frábærlega lýst. Lesandinn skynjar hvernig hún fær nákvæmlega það pláss, þann tíma, sem það tekur Ungan Mann að koma henni úr kallfæri við meðvitund sína. Og er svo úr sögunni. Nema hvað hún er auðvitað í sögunni og ekkert á förum.
Hinn sérstaki stílsmáti og húmor Hallgríms er auðþekktur, og vel beitt hér í þágu persónusköpunarinnar, annað hvort væri. Stundum kvarta menn yfir fyrirferð missniðugra útúrdúra og eltingaleikja við misdýra orðaleiki. Enginn ætti að þurfa að gnísta tönnum yfir slíku í þessari bók. Hér heldur þroskaður höfundur á penna fullum af torfengnu bleki og nýtir það af skynsemi til að lýsa sér, rannsaka sig og afhjúpa. Og skemmta okkur. Og gerir það.