„Læknirinn minn vill meina að ég hafi ranghugmyndir. En þá spyr ég á móti: Hvaða hugmyndir eru rangar. Hugmynd er hugmynd. Ekkert annað. Hún er aldrei röng. Fugl situr í trénu sem ég sit undir. Það er skjór. Hann á ekki heima hér á landi. Hann er samt ekki rangur fugl.“
Skrímsli eru svolítið eins og froskar. Ef þau eru krufin hætta þau að hræða. Hætta að vera skrímsli. Enda hræðir söguhetja Guðmundar Brynjólfssonar í Líkvöku lesandann ekki, þó ódæðismaður sé. Frekar að hún veki með manni samúð og skelfingu að aristótelískum hætti. Það er samt hæpið að kalla Engilbert tragíska hetju. Fórnarlamb eigin lífs er nær lagi.
Bókin rekur lífshlaup Engilberts nokkuð skilmerkilega. Ekki alltaf í tímaröð, ekki til fullnustu og líklega er honum ekki fyllilega treystandi, hvorki sem sannsöglum sögumanni né heiðarlegum greinanda síns eigin skemmda sálarlífs.
Fyrsti hluti bókarinnar rekur uppvöxt drengsins, svona að mestu – tímaröðin er ekki strang-krónólógísk í Líkvöku. Lýst er flökkulífi hans með vinnukonunni móður sinni úr einni hryllingsvistinni í aðra, úr klóm eins kvalara í aðrar verri. Reynsla sem mótar manninn og leiðir hann á endanum á vettvang síns eigin glæps með viðkomu í heimi geðveiki, neyslu, ranghugmynda og spítalavistar. Glæps sem hann er knúinn til að fremja í hefndarskyni fyrir annað ódæði gagnvart konu, mögulega vegna þess hve varnarbarátta hans fyrir móður sinni og sjálfum sér reyndist gagnslaus.
Þessi fyrsti hluti er heilsteyptasti hluti bókarinnar, og sá áhrifaríkasti. Þar er lýst samfélagi harðneskju og kulda á mjög sannfærandi hátt. Samfélagi sem við könnumst við þó fæst deilum við nákvæmlega reynslu með söguhetjunum sem betur fer. Niðurbrot persónuleika drengsins virðist manni næsta óhjákvæmilegt, þrátt fyrir stundarskjól sem hann nýtur hjá fermingarprestinum sínum. Með niðurbrotinu raknar frásögnin eðlilega dálítið upp, þó alltaf haldi Guðmundur athygli lesandans og öllum þráðum í hendi sér.
Þar skiptir miklu hvað rödd sögumanns er skýr og sérstök. Lesendur snjallra pistla Guðmundar, sem hann birtir á Hringbraut.is, kannast væntanlega við orðheppnina og dálítið hryssingslegan húmorinn sem Engilbert hefur á valdi sínu þrátt fyrir allt. Sennilega væri Líkvaka nokkuð illbærileg lesning ef þessa nyti ekki við. Í bókinni verða líka hvað eftir annað á vegi manns snjallar hugleiðingar sem venda fyrir manni algengum hugmyndum á hressandi hátt:
„Þegar allir ganga í takt en enginn gengur samt í sama takti og næsti maður, þá er ekki gengið í takt.“
Það verður að segjast að Guðmundur teflir á tæpasta vað með lýsingum á glæpnum sem söguþráðurinn hverfist um, og eftirmála hans. Óhætt er að segja að þær séu ekki fyrir klígjugjarna og sú hugsun hvarflar að manni að sumt af því svaðalegasta vinni ekki alveg fyrir kaupinu sínu við að auka sögunni áhrifamátt og koma erindi hennar til skila.
Engu á síður er það mín tilfinning að Guðmundur Brynjólfsson hafi með Líkvöku stigið skref fram á við í höfundaferli sínu. Fyrst og fremst með því að móta sinn sérstaka tón á skýrari, kraftmeiri og persónulegri hátt en áður. Nú bíðum við spennt. Og pínu smeyk.