Hvilík grunnhugmynd!
Ung flogaveik einstæð móðir fær þrjú alvarleg flog og uppsker eyður í minni sitt. Þegar hún hefst handa við að fylla í þær með hjálp vina og fjölskyldu kemur í ljós að það var fleira en flogin sem hafði máð út minningar. Sár og miskunnarlaus fortíðin laumast að Sögu inn um þær glufur sem hún neyðist til að opna til að endurheimta líf sitt.
Það flækir líka ferlið að hún treystir eiginlega
engum fyrir sanneikanum um minnisleysið, aðallega af ótta við að þær
upplýsingarnar svipti hana forræði yfir barninu, á sama tíma og hún óttast
hugsanlegar afleiðingar ástandsins fyrir öryggi drengsins. Eðlilega.
Það tók Stóra skjálfta allnokkra kafla að
klófesta athygli mína til fulls. Meðan Saga er á valdi frumruglsins þurfti smá
aga til að elta hana um óreiðuna. Eins finnst mér Auður stundum neyðast til
þess fyrstu köflunum, plottsins vegna, að sveigja raunsæi samtala nokkuð
hressilega í þágu spennuviðhaldandi upplýsingagjafar.
En svo hægist um, og um leið og Auður byrjar að
púsla saman fjölskyldumynd Sögu og fortíð hennar blómstraði bókin og fljótlega var
ég kominn á kaf í eina af bestu bókum Auðar og – fyrir vikið augljóslega – einn
af öldutoppum flóðsins ‘15.
Þar leikur hinn stórkostlegi sögurammi –
söguhvati – lykilhlutverk. Flogaveikin og minnisglöpin eru ekki bara
tæknibrella höfundar, heldur eru sífellt í huga söguhetjunnar. Orsakir meinsins
og afleiðingar, þýðing þess fyrir möguleikann á hamingju og ást. Skýring á sumu
því sem hún kemst að um fortíðina. Ekki á öllu samt. Og auðvitað kveikir svona
saga endalausar vangaveltur þannig þenkjandi lesenda um hvernig sú smíð sem við
köllum raunveruleika okkar, sögu okkar, er óhjákvæmilega óáreiðanleg en samt
það besta sem við höfum. Oftast.
En þó flogin og minnið séu í lykilhlutverki er
það færni og hugrekki Auðar sem persónusmiðs, tilfinningakönnuðar og
skrásetjara sem gefa okkur innihaldið. Öll fjölskylda Sögu og aðrir nákomnir
eru málaðir skýrum litum af samúð og innsæi. Samskiptum og valdastreitu
fjölskyldunnar og hinum tragísku rótum hennar er frábærlega lýst.
Sem og hjónabandi Sögu og endalokum þess,
hamingjustundum og hinum sáru árekstrum sem leggja það í rúst. Og hinum
sérkennilegu unglingum sem rekur á fjörur Sögu og hlaupa undir bagga með henni
þegar hún treystir sér ekki til að afhjúpa sig í veikleika minnisleysisins
fyrir sínum nánustu. Auður er með öllu þessu fólki í liði.
Hún er ekki flugeldastílisti. Stóri skjálfti er
algert raunsæisverk. Lýsingar á sálarlífi, samskipamáta, samfélagi, allt
trúverðugt, jarðtengt. Hér gerist ekkert sem ekki gæti gerst, hefur gerst, er
lýst með hversdagslegum orðum á stælalausu máli. Framvinda bókarinnar er skýr,
þegar frásögnin hleypur útundan sér á það sér raunsæislegar skýringar í
ferðalagi Sögu um fortíðina. Stundum viðrar bókmenntafólk efasemdir um framtíð
hinnar „hefðbundnu“ skáldsögu. Erindi hennar og tilgang. Kannski er hann að
finna í því sem situr eftir hjá lesanda sagna eins og Stóra skjálfta við
bókarlok.