Á bakvið Bökubílinn eru bræðurnir Valgeir og Guðmundur Gunnlaugssynir ásamt Guðjóni Vali Sigurðssyni, landsliðsfyrirliða í handbolta. Þeir reka einnig saman Íslensku Flatbökuna í Bæjarlind, Kópavogi. Valgeir, eða Valli Flatbaka eins og hann er gjarnan kallaður, er hugmyndasmiðurinn að Flatbökunni og Bökubílnum.
Hann hætti í kvikmyndaiðnaðinum og elti langþráðan draum að opna pizzastað. Valli sannfærði bróðir sinn og Guðjón Val að taka þátt. Í dag er staðurinn tæplega árs gamall og gengur mjög vel. Kjarninn ræddi við Valla.
Hvaðan kom hugmyndin að bökubílnum og hvernig tengist þið sem standið að verkefninu?
„Hugmyndin að Bökubílnum kviknaði fljótlega eftir að staðurinn opnaði í febrúar á þessu ári. Mikið af viðskipavinum okkar var að koma langar leiðir til þess að fá sér pizzu og það helsta sem var spurt um var: hvenær ætliði að opna nær mér? Í fyrstu var þetta skemmtilegt að heyra og það var ekki inn í plönum að opna annan stað. En þegar það leið á þá og þessi spurning hélt áfram að koma þá fórum við að hugsa hvað við gætum gert. Svarið var augljóst. Bökubíllinn!
Við ákváðum að fara þá leið að hópfjármagna bílinn til þess að geta komið honum á göturnar sem fyrst. Við fórum af stað með söfnun á Karolina Fund í byrjun nóvember og markmiðið er að safna 3,5 milljónum króna fyrir 4. desember. Ef söfnunin gengur eftir mun Bökubíllinn vera kominn á göturnar í mars eða apríl.
Með Bökubílnum náum við að þjónusta viðskiptavini okkar nær þeim. Markmiðið er að þjónusta úthverfin vel á kvöldin og um helgar. Í hádeginu liggur beint við að leggja nálægt vinnustöðum þar sem fáir veitingastaðir eru. Einnig verður hægt að bóka bílinn í hvaða tilefni sem er."
Hvað ætlið þið að bjóða uppá í bökubílnum?
„Bökubíllinn verður eins og smækkuð útgáfa af Flatbökunni. Í bílnum verður alvöru eldofn og ekkert til sparað í að halda gæðunum eins og þær eru á staðnum. Matseðillinn verður svipaður þótt að líklega verði aðeins vinsælustu pizzurnar í boði. En það verður einnig hægt að fá vinsæla rétti eins og bernaise brauðstangirnar og eftirréttapizzuna Sú Sanna. Á henni er Nutella súkkulaði, bananar, jarðaber, karamella og flórsykur. Við erum alltaf að finna upp á nýjum, skemmtilegum réttum og Bökubíllinn mun aðeins gefa okkur frekari tækifæri til þess að vera frumleg."
Við hvaða tilefni væri hentugt að panta bökubílinn?
„Það er alltaf tilefni til þess að fá sér pizzur! En Bökubíllinn hentar einstaklega vel fyrir fyrirtæki sem eru að halda starfsmannadag eða vilja vera með öðruvísi borðhald á árshátíðunum. Fyrir einstaklega þá passar Bökubíllinn fullkomlega í stórafmæli eða jafnvel í brúðkaupið. Einnig fyrir íþróttafélög sem vilja gera vel við stuðningsmenn eða iðkendur.
Þótt allt sé handgert í bílnum, þá er afkastagetan mikil. Ofninn ræður við hátt í 100 pizzur á klukkutíma, þannig það er hægt að dæla þeim út. Bíllinn hentar í hvaða tilefni sem er þar sem stór hópur ætlar að hittast."
Hvað er hægt að fá í staðinn fyrir að styrkja verkefnið ykkar?
„Það er nóg í boði fyrir þá sem styrkja. Það eru 5 og 10 pizzu klippikort sem veita mjög mikinn afslátt af pizzunum, sem hægt er að leysa út bæði í Bökubílnum og á Flatbökunni. Ef það blundar í einhverjum pizzahönnuður, þá er hægt að fá að gerast slíkur: Hanna eina pizzu, gefa henni nafn og hún verður í boði á Bökubílnum í einn mánuð, þar sem 10% af sölunni á henni mun fara til góðgerðamálefnis að eigin vali. Það er hægt að fá landsliðstreyju áritaða af íslenska landsliðinu í handbolta og Barcelona áritaða af Guðjóni Vali sjálfum.
Þeir sem eru að plana atburð í byrjun næsta sumars geta bókað Bökubílinn á ótrúlega góðu verði, annars vegar fyrir 50 manna veislu og hins vegar 100 manna veislu.
Toppurinn er svo auðvitað ársbirgðir af bökum! Ein pizza á dag í heilt hár. Það á tæplega 500 kr. pizzuna. Allir sem styrkja fara svo á hetjulistann sem verður hengdur upp í bílnum."