„Maður fyrirgefur með munninum, stundum með huganum. Aldrei i hjartanu, það er svo villt. Ég verð reið nú er ég skrifa þetta, því að barnið í mér er sko alls ekki búið að fyrirgefa. Það er þó nógu kristilegt til að skíta þær ekki út með því að líma illskumiðann á þær undir nafni. Hefndinni í mér langar þó að gera það, hún er þarna rétt við hjarta.“
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir er einstök í íslenska rithöfundagarðinum. Frumlegur skáldsagnasmiður en ekki síður frumlegur sagnfræðingur sem leyfir hinum sérstæða stílista sem leikur lausum hala í lygisögunum hennar að setja mark sitt á framsetningu efnis sem stendur að öðru leyti föstum fótum í fræðilegum aga og viðurkenndum rannsóknarvinnubrögðum.
Fyrstu bókina í þessum ævisögulega þríleik hef ég því miður ekki lesið, en Stúlka með maga (2014) þótti mér feikivel heppnuð að þessu leyti. Stíll Þórunnar, en kannski ekki síður afstaða hennar til bjásturs og bresta fólksins sem hún skrifar um, setur einatt ferskan blæ á kunnuglega hluti: aldarfarslýsingar, samskiptamáta og siðferðisviðmið fortíðarinnar.
Þegar hún beinir stílvopnum sínum og lífssýn að sinni eigin ævi gerast aðrir hlutir.+
Samt er það líka í þessari bók, þetta einstaka sjónarhorn hennar, þessi óstöðuga blanda af mjúkum skilningi sem öll viðfangsefnin mæta og hreinskilnislegri hörku sem oft birtist og hverfur formálalaust. Gott dæmi tilvitnunin hér að ofan, um einelti eða stríðni nokkurra skólasystra hennar. Hefði nokkur annar sjálfsævisöguritari afgreitt málið svona?
Einelti sem Þórunn kafar ekki í, lýsir varla og virðist reyndar hvorki hafa verið langvinnt né alvarlegt. Og það er ljótt að segja það en sá æviferill sem lýst er hér virðist svo mjúkur og áfallamildur að það er á mörkunum að hann sé í frásögur færandi. Allavega þykja mér hin einstöku greiningartæki Þórunnar malla í hægagangi lengst af, eftir dramað í kringum skilnað foreldranna og þýðingu hans fyrir hina ungu stúlku.
Eitt af því sem mér hefur fundist svo magnað við sagnfræðibækur Þórunnar er sú tilfinning að hún sé að segja manni allt sem hún veit. Smáatriði um fatnað, mat og reiðtygi í Snorra frá Húsafelli, upptalningar um innkaup forfeðra hennar í Ólafsvík í Stúlku með maga. Lykt. Hefur einhver sagnfræðingur/rithöfundur okkar verið eins örlátur með og fordómalaus gagnvart þef? Þessi hirðusemi segir manni að öllum steinum hafi verið velt, auk þess sem frásagnirnar af smælkinu fylla myndina.
Hér hefur Þórunn eðli máls samkvæmt allt annan aðgang að viðfangsefni sínu. Fyrir vikið fáum við tilfinningu fyrir miklu meira „vali“, að margt sé ósagt. Það er tiplað á tánum í frásögninni. Allir eru meira og minna fallegir og dásamlegir, systurnar yndislegar, vinirnir upp til hópa vitringar. Elskhugarnir prúðmenni.
Sem er fábært. Örugglega satt. Þórunn nýtur þess að segja frá þessu öllu, maður heyrir hana skríkja stílrænt þegar hún rekur kynlífsvakningu sína, og sýtir fallega ógripin tækifæri í þeim efnum. Eins var gaman að sjá hið margumskrifaða viðfangsefni „borgarbarn fer í sveit“ tekið Jörlutökum. Og Mexíkó, sem hefði auðveldlega getað enst henni heila bók, finnst mér. Auðvitað er hér ferskur tónn í þeirri lýsingu tímabilsins sem allar minningabækur jafnladra hennar eru smám saman að skapa í sameiningu.
En lengst af vantar viðnámið. Togstreitu efnis og frásagnarmáta. Fjarlægðina sem gefur gildisdómum og greiningum vigt. Lífsháska? Ekki það að ég óski eftir meiri erfiðleikum í fortíð höfundar. En að háskanum fjarverandi hefði hún þurft að kafa dýpra. Þrengja sjónarhornið. Mögulega setja styttra tímabil undir smásjána.
Aldrei verður Stúlka með höfuð samt minna en skemmtileg.