Áhugafólk um áframhaldandi kvikmyndasýningar í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði safnar fyrir nýju sýningarkerfi. Hópurinn hefur unnið að söfnuninni í tvö ár með nokkrum hléum en af miklum krafti undanfarnar vikur. Að söfnunarhópnum standa einstaklingar úr röðum Lionsklúbbs Patreksfjarðar, Skjaldborgar – hátíðar íslenskra heimildamynda og Kvikmyndaklúbbsins Kittýjar. Kjarninn hitti Öldu Davíðsdóttur og tók hana tali.
Hver er saga Skjaldborgarbíós?
„Skjaldborg var byggð snemma á síðustu öld sem samkomuhús Patreksfirðinga, það var vígt 1935 og er talið að fljótlega eftir það hafi verið byrjað að sýna kvikmyndir í húsinu. Það eru því ansi margar kynslóðir sem hafa farið í bíó í Skjaldborg og þær eldri einnig á dansleiki í húsinu, t.d. ömmur og afar fólks í söfnunarhópnum. Patreksfirðingar hafa því sterkar taugar til Skjaldborgar og það hefur mikil áhrif á að brottfluttir íbúar eru að styrkja söfnunina jafnt og þeir sem búa á staðnum."
Hvað breytingar eru nauðsynlegar til starfsemi bíósins geti haldið áfram?
„Til að starfsemi bíósins geti haldið áfram er nauðsynlegt að koma upp stafrænum sýningarbúnaði. Í húsinu er eingöngu vél sem getur sýnt af filmum en kvikmyndir eru alveg hættar að berast til landsins á filmu. Filmuvélin fær að vera áfram í húsinu, stafrænu græjurnar taka ekki eins mikið pláss og geta fortíðin og nútíðin því fengið að vera hlið við hlið í sýningarklefanum. Fyrir utan að kaupa kerfið og koma því fyrir þarf lagfæringar á sýningarklefa, rafmagni og fleiru.
Hvaða merkingu hefur Skjaldborgarbíó fyrir samfélagið?
„Skjaldborgarbíó hefur mjög mikla þýðingu fyrir samfélagið, ekki aðeins vegna þeirrar sögu sem húsið geymir, heldur er það stór hluti af menningarframboði á svæðinu, sem er allir sunnanverðir Vestfirðir en ekki eingöngu Patreksfjörður. Aðgengi að menningu er eitt af því sem skiptir máli þegar fólk velur sér stað til búsetu og er Skjaldborg því hluti af mun stærri heildarmynd en bara að bjóða upp á sýningar fyrir kvikmyndaáhugafólk.
Í Skjaldborg eru einnig haldnar leiksýningar, tónleikar, beinar útsendingar frá stórum íþróttaviðburðum o.fl. Kvikmyndasýningar hafa verið uppistaðan í þeirri starfsemi sem fer fram í Skjaldborg og er hætt við að dofni yfir öllu öðru ef ekki er hægt að halda þeirri starfsemi áfram.
Stærsti viðburðurinn yfir árið í bíóinu er Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda, en næsta vor verður hún haldin í tíunda sinn. Hátíðin er löngu búin að tryggja sig í sessi sem einn af stærri menningarviðburðum landsins en þar hefur nútíminn einnig lagt innreið sína og sífellt fleiri myndir sem berast hátíðinni eru á stafrænu formi.
Fyrir utan að geta einfaldlega ekki sýnt kvikmyndir á stafrænu formi eru gæðin í hljóð og mynd einnig orðin það léleg að það er ekki ásættanlegt að bjóða kvikmyndagerðarfólki að frumsýna myndirnar sínar í Skjaldborg. Það mun breytast til bóta við að skipta um kerfi og skiptir líka gríðarlega miklu máli. Þetta vita vinir hátíðarinnar sem sést á því hversu margir hafa styrkt söfnunina."
Eitthvað að lokum?
„Söfnunin fyrir nýja sýningarkerfinu hefur staðið yfir í tvö ár, heildarupphæðin sem þarf að safna er tíu milljónir og fyrir mánuði síðan var búið að safna átta milljónum. Söfnunarhópurinn ákvað að blása til hópfjármögnunar á Karolinafund til að ná inn síðustu tveimur milljónunum og stendur sú söfnun yfir til miðnættis laugardaginn 5. nóvember. Það er því enn hægt að styrkja verkefnið á Karolina Fund."