Ég taldi mig vita sitthvað um Nínu Sæmundsen áður en ég opnaði bók Hrafnhildar Schram. En það reyndist misskilningur, byggður á þeirri ranghugmynd að allar íslenskar listakonur sem náðu frama erlendis fyrr á árum hétu Nína og væru sennilega sama konan. Svona eins og ég man aldrei hver af körlunum í myndlistinni hét Ásgrímur og hver Ásmundur.
Það var ákaflega ánægjulegt að fá þetta leiðrétt svona snaggaralega. Og oft voru þau rekin upp, stóru augun, meðan ég fræddist um þetta makalausa lífs- og listhlaup. Þrátt fyrir fátækt, uppruna í listsnauðu landi og kynbundnar hindranir virðist frami Nínu bæði stöðugur og áfallalaus lengst af, þó veikindi og blankheit tefji fyrir henni og berklarnir svipti hana unnustanum.
Flettandi bókarinnar skilur frama Nínu vel. Fegurðin, hreinleikinn, í verkum hennar hittir mann beint í hjartastað, jafnvel í tvívíðum svarthvítum endurgerðum þessarar fallegu bókar. Maður skilur reyndar líka hvernig hún heltist úr lestinni, hvernig orðsporið dagar uppi eftir því sem kröfunni um frumleika, byltingar og öfga vex ásmegin. Og ímyndar sér að hið forvitnilega skeið þar sem listakonan býr í Hollywood og brjóstmyndgerir stjörnurnar hafi þar komið í bakið á henni, sem og hin landlæga karlremba og klíkuforpokun sem alltaf hefur átt griðland í íslenskum listamannakreðsum.
Það væri gott að þurfa ekki að skrifa „ímyndar
sér“. Því miður skilur ævi- og ferilságrip Hrafnhildar lesandann eftir með
hungurverki. Ágætt svo langt sem það nær en það bara hlýtur að vera hægt að
viða að efni í fullburða ævisögu sem myndi svo sannarlega vera mikilsvert
innlegg í menningarsögu okkar. Og stórmerkilegt lífshlaup þar fyrir utan.
Langsamlega safaríkast er lesefnið þegar Hrafnhildur fjallar um list Nínu. Setur hana í listasögusamhengið, bæði eftir að hún er orðin fullbúinn og sjálfstæður listamaður og meðan hún lýsir stöðunni i danskri og evrópskri höggmyndalist á mótunarárum Nínu. Og ekki síður þegar hún lýsir – orðgerir – og greinir einstök lykilverk. Þar er Hrafnhildur á heimavelli, og vitaskuld eiga þeir hlutar að vera þungamiðjan í svona bók. Það truflaði mig reyndar að myndir af umræddum verkum lenda alls ekki alltaf á sömu opnum og textinn um þau, og einhver dæmi eru um að verk sem Hrafnhildur staldrar við sjáist ekki í bókinni. Sérkennilegt, miðað við það frágangsnostur sem einkennir bókina líkt og aðrar frá Crymogeu.
Einnig hefði verið fengur að einhverskonar
yfirliti yfir þau verk Nínu sem vitað er um, og hvar þau er að finna. Þó ekki
væri nema að geta þess við allar ljósmyndir bókarinnar hvort og þá hvar hægt sé
að berja viðkomandi mynd berum augum.
Texti Hrafnhildar er almennt lipur og læsilegur, en lesandinn, allavega þessi, væri til í mun viðameiri bók þar sem reynt væri af meiri einurð að geta sér til um drifkrafta Nínu, samskipti við samferðafólk sitt og gefa viðtökum verka hennar breiðari skil. Ekki er gott að átta sig á hvers vegna það er ekki slík bók sem nú kemur út. Mögulega eru heimildir illínáanlegar, hugsanlega óx slíkt verkefni aðstandendum í augum. Kannski er þetta fyrsta skref að fullgildri ævisögu. Það vona ég og legg hér með inn pöntun, meðan ég fletti Nínu S. og horfist í augu við hinar fögru myndir sem hún fann í hráefnunum sínum.