Fáir íslenskir útgáfuflokkar eru eins mikilvægir og Lærdómsrit Hins íslenska bókmenntafélags. Og engir eins langlífir að ég held. Fyrstu bækurnar komu út 1970 og enn koma þau út, hin fjölbreyttu fræðirit. Ekkert virðist þeim óviðkomandi og einu inntökuskilyrðin virðast vera innihaldsgæðin og hinar ströngu lengdarkröfur sem brotið setur bókunum. Brotið og hönnunin öll á svo sinn þátt í að gera röð lærdómsrita að einhverri mestu útlitsprýði hvers bókaskáps. Við henni hefur ekki verið hróflað, fyrir utan að bækurnar eru nú harðspjalda. Lengi lifi íhaldssemin þegar það sem haldið er í er svona frábært.
Og enn koma þau út. Að þessu sinni þrjú. Tvær bækur með minningum og viðbrögðum við martröðum seinni heimsstyrjaldar og það höfuðrit sem hér er undir. The Structure of Scientific Revolutions eftir bandaríska vísindasagnfræðinginn Thomas S. Kuhn, sem í þýðingu Kristjáns G. Arngrímssonar hefur fengið hið öllu snarpara nafn Vísindabyltingar, með ágætum rökstuðningi ritstjórans Eyju M. Brynjarsdóttur í bókarlok. Eyja skrifar einnig innganginn og setur hugmyndir Kuhns í samhengi við hræringar í hugmyndasögunni á fyrri hluta tuttugustu aldar.
Það er gríðarlegur fengur að því að fá loksins
þetta feikiáhrifamikla höfuðrit vísindaheimspekinnar á íslensku. Það er
auðvitað of seint til að við skynjum titringinn sem það olli á sjöunda
áratugnum. Þar situr fyrir miðju hugmyndin um „Paradigm Shift“ –
„viðmiðaskipti“ í þýðingunni – hvernig nýjar vísindahugmyndir ryðja þeim eldri
úr vegi og eru ekki partur af samfelldri þróun heldur grundvallarbreyting –
bylting – á heimsmynd, útgangspunktum og vinnubrögðum vísindasamfélagsins.
Margt af því sem hér var sagt í fyrsta sinn eru
núna sjálfsagðir hlutir. Og þó. Sú mynd sem Kuhn dregur upp af starfi
vísindamanna og það „Reality Check“ sem fólst í henni virðist stundum hafa
farið framhjá einstrenginglegustu og sjálfsánægðustu umræðuforkólfum samtímans.
Það er gaman að vera minntur á að leitin að sannleikanum er ekki jafn einföld
og skástu leitargræjurnar okkar ekki jafn fínnstilltar og þröngsýnustu
einfeldningarnir vilja vera láta. Gaman og hollt. Þau efasemdarfræ sem hún sáir
um vélgengan óskeikulleika vísindanna eru ákaflega heilsusamleg að mínu viti,
saman við þann yfirlætisvelling sem stundum er boðið upp á.
Það er ekki erindi þessarar umfjöllunnar að
munnhöggvast við Kuhn. Læt nægja að segja að kjarninn í því sem hann segir er
ákaflega sannfærandi, enda rótfastur í skilningi á hvernig vísindastarf gengur
fyrir sig í raun og veru. Um leið og hann reynir að tengja og rökfesta sýn sína
á þessa starfsemi í klassískri engilsaxneskri þekkingarfræði með öllum sínum
orðhengilshætti um skynjun og þessháttar, sem og einhverskonar frumspekilegum
vangaveltum um heimsmynd og sannleika þá missir hann marks og ég áhugann. Mér
finnst líka að verðmætin í hugmyndum hans standi ósködduð eftir þó honum
mistakist þessi tenging við heimspekilegan grundvöll. Og einhvernvegin hef ég
ekki áhyggjur af því að mynd hans af vísindunum gefi einhverjum afsökun fyrir
að aðhyllast einhverskonar afstæðishyggju. Ég fæ ekki betur séð en vísindin
réttlæti heimsmynd sína sjálf, jafnvel þótt kenningar þeirra hafi áhrif á
hvernig sú mynd er, en sé ekki endilega sífellt réttari og nákvæmari mynd af
raunveruleika sem gefinn er fyrirfram. Sennilega finnst
alvörugefnum heimspekingum þetta full-galgopaleg afstaða hjá mér, en það verður
bara að hafa það.
Þýðing Kristjáns er ágætlega læsileg. Það sem er
tyrfið hér er örugglega snúið í frumtextanum einnig. Það sem veldur mestum
erfiðleikum er hvað hér er oft gengið út frá að lesandinn hafi rúmlega
grunnþekkingu á þeim fjölmörgu kenningum sem Kuhn tekur sem dæmi.
Reyndar hefði verið mikill fengur að orðalista
þar sem mikilvæg hugtök úr textanum væru sýnd á íslensku og frummálinu. Það á
bæði við um lykilorð úr vísindadæmunum og þau hugtök sem Kuhn smíðar sér eða
gefur ný hlutverk með kenningu sinni. Slíkur listi myndi auðvelda áhugasömum
lesenda mjög að finna ítarefni og útskýringar. Allt slíkt er einkar aðgengilegt
á okkar netvæddu tímum, en óþarfa hindrun að þurfa að giska á að hverju skal
leitað.
Gott ef slíkur listi ætti ekki að vera fastur liður í Lærdómsritum framtíðarinnar. Því það er augljóslega enginn bilbugur á þessari frábæru útgáfu.