Hópur, sem samanstendur af fötluðu hagsmunabaráttufólki og öðrum áhugasömum einstaklingum sem vilja efla frumkvöðlastarf á Íslandi, stendur nú að hópfjármögnun á Karolina Fund til þess að fjármagna uppbyggingu frumkvöðlavettvangs innan Sjálfsbjargar.
Það er vert að minnast á að hönnunarfyrirtækið UENO hefur heitið því ad mæta hverju framlagi krónu fyrir krónu á meðan að á söfnuninni á Karolina Fund stendur. Söfnuninni lýkur 31. desember nk. Kjarninn ræddi við Brand Karlsson, sem stendur fyrir verkefninu. Kjarninn hefur áður fjallað um Brand, en í sumar flaug hann í einstökum flugstól á svifvæng þrátt fyrir að vera lamaður fyrir neðan háls.
Hvað felst í starfi Sjálfsbjargar?
,,Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra, eru samtök hreyfihamlaðra á Íslandi. Í 3. grein laga samtakanna segir að hlutverk þeirra sé meðal annars „að vinna að fullkominni þátttöku og jafnrétti hreyfihamlaðra og annarra fatlaðra, á öllum sviðum þjóðlífsins, með því að hafa áhrif á ríkis- og sveitarstjórnir, hagsmunasamtök og einstaklinga og með því að vekja áhuga almennings á málefnum þeirra með útgáfu og kynningarstarfsemi“.
Hvað er Frumbjörg?
,,Alltaf beita upp í vindinn, eygja, klífa hæsta tindinn,” eru einkunnarorð Sjálfsbjargar. Í þessum anda var Frumbjörg, Frumkvöðlamiðstöð Sjálfsbjargar, stofnuð fyrr á þessu ári. Frumbjörgu er ætlað að takast á við mörg óleyst verkefni er tengjast hagsmunum fatlaðra á sviði heilbrigðis- og velferðarmála, einnig nýsköpun sem aukið getur atvinnumöguleika fatlaðra og eflt samskipamöguleika þeirra innan þjóðfélagsins.
Óánægja fatlaðra og aldraðra með hnignandi stoðir heilbrigðiskerfisins hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum og lítið hefur borið á áþreifanlegum úrræðum til úrbóta í þessum málum.
Af nýlegum viðtölum við fjármálaráðherra og formann fjárlaganefndar er ljóst að þau eru meðvituð um þann fjölþætta vanda sem felst í takmörkuðum atvinnutækifærum fatlaðra og öryrkja. Innan Frumbjargar er ætlunin að byggja upp jákvætt og hvetjandi umhverfi þar sem fatlaðir geta fengið stuðning til að skapa sín eigin atvinnutækifæri. Ætlunin er einnig að veita frumkvöðlum sem vinna að verkefnum sem líkleg eru til að bæta heilbrigðis- og velferðarmál fatlaðra aðstöðu og aðgengi að vaxandi tengslaneti samstarfsaðila Frumbjargar. Frumbjörg er þegar í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Klak Innovit, Háskóla Reykjavíkur og Karolina Fund og unnið er að því að koma á tengslum við fleiri stofnanir og fyrirtæki með reynslu á sviðum nýsköpunar innan atvinnulífslins."
Hverju sjáið þið fyrir ykkur að Frumbjörg eigi eftir að áorka?
,,Á vegum Frumbjargar mun verða efnt til nýsköpunarkeppna þar sem afmörkuð vandamál verða tekin fyrir og kallað eftir hugmyndum að lausn þeirra. Tillögur að lausnum viðkomandi vandamála verða síðan prófaðar innan Sjálfsbjargar sem þannig verður þróunarvettvangur fyrir innleiðingu nýrra úrbóta til hagsbóta fyrir fatlaða sem og samfélagið í heild. Á vegum Frumbjargar mun verða efnt til nýsköpunarkeppna þar sem afmörkuð vandamál verða tekin fyrir og kallað eftir hugmyndum að lausn þeirra. Tillögur að lausum viðkomandi vandamála verða síðan prófaðar innan Sjálfsbjargar sem þannig verður þróunarvettvangur fyrir innleiðingu nýrra úrbóta til hagsbóta fyrir fatlaða sem og samfélagið í heild.
Einnig eru í gangi viðræður um uppsetningu aðgengilegrar Fablab aðstöðu þar sem frumkvöðlar fá aðgengi að hátækniframleiðslutækjum og öðrum nýjungum sem þeim gætu nýst til atvinnusköpunar.
Við treystum á stuðning fólks í gegnum hópfjármögnum á Karolinafund. Með fjárframlögun til Frumbjargar stuðlum við að samfélagsúrbótum í þágu fatlaðra. Með bestu óskum um gleðileg jól og farsælt komandi ár."
Verkefnið er að finna hér.