Ný bók um íslensku jólasveinana, skrifuð að Íslendingi og teiknuð af Búlgara, er væntanleg árið 2016. Baldur heitir ný og lítil barnabókaútgáfa sem starfar frá Prag í Tékklandi og þeirra markmið er að blanda saman ólíkum menningum, með því að virkja unga rithöfunda og listamenn allstaðar að úr heiminum til þess að vinna saman að gerð barnabóka. Sagan af íslensku jólasveinunum er því búlgörsk túlkun á bræðrunum þrettán.
Kjarninn ræddi við aðstandendur verkefnisins, sem safna nú fyrir því á Karolina Fund.
Hvaða fólk stendur á bakvið Baldur og jólasveinabókina?
„Við erum María Elínardóttir frá Íslandi og Martin Atanasov frá Búlgaríu. Við kynntumst fyrir fimm árum í námi í Prag og höfum unnið saman að mörgum mismunandi verkefnum tengd bókum og sýningum en okkur hefur lengi langað til að búa til almennilegar barnabækur. Fyrir tveim árum fórum við að leita að sögum og listamönnum. Okkur bárust margar sögur héðan og þaðan en ákváðum að einbeita okkur að alþjóðlegum þjóðsögum, goðsögum og ævintýrum. Íslensku jólasveinarnir voru hátt á listanum hjá okkur og áður en við vissum af þá var listamaður frá Búlgaríu búinn að senda okkur nokkrar teikningar í bókina. Fyrir utan hvað listamaðurinn okkar Hristo Neykov var áhugasamur um söguna, þá var hann einnig ótrúlega góður í að túlka útlit bræðranna og anda jólasveinanna."
Hvaðan kom sagan í bókinni?
„Sagan hefur auðvitað verið til heillengi og María hefur hlustað á hana frá því hún var lítil. En í hvert skiptið sem hún sagði útlendingum frá þessari skrýtnu jólasveina hefð, þá kom í ljós að nánast enginn vissi af henni. Síðan reyndist erfitt að finna almennilegar myndir af þeim og okkur datt í hug að búa bara til bók og túlka þá sjálf."
Hvaða markhóp eru þið að miða bókina að?
„Við erum barnabókaútgáfa sem í raun reynir að höfða til allra. Sögurnar okkar eru fyrir alla aldurshópa. Sögurnar sem við segjum tengjast alltaf einhverjum stað, landi eða borgum. Þótt bækurnar séu barnabækur, þá eru allar sögurnar þjóðsögur sem hafa borist manna á milli í hundruði ára. Næsta bókin okkar á eftir jólasveinunum kemur frá Gdansk í Póllandi og fjallar um hvernig borgin breyttist eftir heimsókn frá trölli. Fyrir okkur er mikilvægt að börn lesi um heiminn og kynnist ólíkum menningum. Við erum rétt að byrja og ákváðum því að nýta okkur Karolina Fund, sem er íslensk hópfjármögnunarsíða og vonum að Íslendingar kaupi bókina eða styrki verkefnið. Auðvitað vonum við nú líka að nýja túlkun okkar á jólasveinunum slá í gegn."
Hér er hægt að
styrkja verkefnið og kaupa bókina.