Platan Blóðbragð með þungarokks hljómsveitinni Skurk er áhugavert verkefni sem birtist á Karolina Fund um síðustu helgi. Hljómsveitin er að vinna að verkefninu með Tónlistarskóla Akureyrar og kennara skólans, Daníel Þorsteinssyni.
Skurk gaf út geisladiskinn Final Gift í júní 2014 og var sá diskur eins konar uppgjör þeirra við fortíðina. „Þegar við byrjuðum aftur völdum því nokkur gömul lög frá tímabilinu 1987-1993 og uppfærðum þau örlítið, en héldum dauðahaldi í andann sem einkenndi þetta frábæra tímabil í lífi okkar,” segir Hörður Halldórsson, gítarleikari hljómsveitarinnar. Bandið er skipað Guðna Konráðssyni sem syngur og spilar á gítar, Jóni Heiðari Rúnarssyni á bassa, og svo Kristjáni B. Heiðarssyni trommuleikara, auk Harðar. Fljótlega eftir útgáfu Final Gift voru meðlimir Skurk komnir aftur í stúdíó, nú til að taka upp nýtt efni. Fljótlega varð ljóst að verkefnið yrði töluvert stærra en upphaflega var gert ráð fyrir. „Það sem átti að vera venjulegur tíu laga diskur með hefðbundinni þungarokksveit er nú orðið stórt verkefni sem hátt í þrjátíu tónlistarmenn og konur taka þátt í.“
Hvaðan kemur Skurk?
„Við erum frá Akureyri. Bandið var stofnað á síðustu öld, og hefur verið starfandi síðan, reyndar með rúmlega tuttugu ára pásu. Markmiðið var frá upphafi að spila þungt rokk, og spila hátt. Á fyrstu árunum sem við vorum starfandi var meira en nóg um að vera í tónlistarlífinu fyrir norðan, og fjölmargar hljómsveitir og tónlistarmenn voru að stíga sín fyrstu skref og læra hver af öðrum. Það má nefna Helga og hljóðfæraleikarana, Baphomet - sem náðu góðum árangri á Músíktilraunum ‘92, og hljómsveitir á borð við Tombstone, Hún andar, Exit, Svörtu kaggana, Skrokkabandið, Uxorius frá Dalvík og Pain frá Húsavík.
Þarna voru ótal margir unglingar á tónleikum og í hinum og þessum æfingaplássum, og margir þar á meðal sem síðan hafa gert mikið fyrir íslenska tónlist og sumir t.d. komið fram fyrir Íslands hönd í Eurovision. Það má því segja að Skurk hafi sprottið úr afar frjóum jarðvegi tónlistarmenningar sem var svo opin að allt var í raun leyfilegt. Tónleikalífið var í miklum blóma á norðurhjaranum á þessum tíma, og langflestir tónleikar vel sóttir og mikil stemning sem skapaðist. Hljómsveitir tóku sig saman og leigðu litlar rútur og keyrðu út um allt norðurland til að spila fyrir nýja áhorfendur. Enginn var að selja neitt, heldur snerist þetta eingöngu um að spila pönk, rokk, þungarokk, thrash metal og dauðarokk, og það eina sem leiddi böndin áfram var gleðin yfir að deila tónlistinni.“
Hvar vinnið þið tónlistina?
„Þar sem Kristján býr í Mosfellsbæ og við hinir skurkarar á Akureyri þá eru æfingarnar svo sem ekki margar. Höddi settist niður og fór að safna saman köflum og línum sem allir deildu á sameiginlegum stað á netinu í tvo til þrjá mánuði, og smátt og smátt fóru lögin að taka á sig mynd. Þá tók Höddi upp gítarinn og límdi þetta allt saman. Það var í raun furðu fljótt sem það urðu til nokkur lög. Svo haustið 2014 hittumst við í aðstöðu þyrluskíðafyrirtækisins Arctic Heliskiing í Skíðadal, þar sem við stilltum upp hljóðfærunum og byrjuðum að semja lögin saman út frá þessum beinagrindum sem komnar voru. Það var fáránlega gaman að vera í þessari trufluðu náttúruperlu sem Skíðadalur er, og í þessari frábæru aðstöðu Arctic Heliskiing, og þurfa bara að hafa áhyggjur af því að spila þungarokk.
Þarna kláruðum við um helming laganna og svo nokkrum vikum seinna fórum við norðanmenn suður í Kópavog til hans Jakobs í stúdíó GFG og sömdum og æfðum seinni hlutann. Við byrjuðum svo strax eftir helgina að taka upp. Strax þá varð ljóst að við vildum hafa strengjasveit með í nokkrum lögum. Okkur þótti strax skemmtileg hugmynd að fá Tónlistarskólann á Akureyri inn í verkefnið. Við vildum að diskurinn hefði eitthvað meira gildi en eingöngu þungarokk, og vildum deila þessari frábæru gleði sem það er að vera í stúdíói og að taka upp tónlist. Það er fátt skemmtilegra og meira hvetjandi en að spila og taka upp skemmtilega tónlist í stúdíói, og við vildum kynna þetta fyrir nemendum Tónlistarskólans. Það var virkilega gaman hvað forsvarsmenn skólans og kennarar tóku vel í þetta strax frá upphafi.
Við höfum fengið ótrúlegan stuðning frá skólanum öllum og þeim nemendum sem hafa tekið þátt. Það er í raun með ótrúlegri framtakssemi og opnum huga gagnvart verkefninu sem það hefur tekist að bræða saman þessa frábæru blöndu þungarokks og klassíkrar tónlistar. Þarna má helst nefna Hauk Pálmason aðstoðarskólastjóra. Daníel Þorsteinsson píanisti og hljómsveitarstjóri skólahljómsveitarinnar hefur einnig reynst okkur stoð og stytta. Hann hefur í raun unnið tónlistina með okkur í frá upphafi og hefur komið með ótrúlega mikið inn í bandið. Upptökurnar fara að mestu fram í Kópavogi í Stúdíó GFG en strengir og kórar eru svo teknir upp á Akureyri af Hauki.“
Hvað er það við þungarokk sem kallar svona á ykkur?
„Það er erfitt að útskýra það í fáum orðum. Við heilluðumst allir snemma af kraftinum og orkunni sem fylgir þessari tónlistarstefnu, og fundum þar eitthvað sem smell passaði við unglingshugann sem var í mótun. Hljómsveitir á borð við Metallica, Anthrax, Iron Maiden, Sepultura og Overkill áttu stóran þátt í að vinna okkur á sitt band. Fyrir marga er þungarokk frekar óaðgengilegt, þó almenningsálitið hafi reyndar breyst mikið hér á landi á síðustu árum, en fyrir okkur sem lifum og hrærumst í þessu er það bæði aggresjónin og melódíurnar sem snerta einhverja strengi. Þungarokk hefur löngum einkennst af miklum andstæðum, þar sem hljómsveitir nýta sér bæði angurværar laglínur og svo þennan gífurlega kraft sem skapast þegar það koma saman rafmagnsgítarar og háværar trommur. Svo er það vináttan, hjálpsemin og bræðralagið sem hefur einkennst þungarokkið, enda er þetta fyrir marga lífstill meira en bara áhugamál. Andinn í þungarokkinu hefur alltaf verið afar vinsamlegur, öfugt við það sem oft er haldið. Það eru meira að segja til nýlegar rannsóknir sem hreint út sanna að fólk sem hlustar á þungarokk sé líklegra til að vera rólyndis manneskjur. Ekki má heldur gleyma slagorði Eistnaflugs, sem segir einfaldlega: „Það er bannað að vera fáviti!”. Það má því kannski bara segja að þungarokk geri okkur að betri mönnum.“
Hvert stefnið þið?
„Við ætlum að gefa út þessa plötu okkar, Blóðbragð, og gera hana eins vel út garði og mögulegt er. Við setjum í raun stefnuna á að gera bestu þungarokksplötu sem komið hefur út á Íslandi. Við setjum markið afar hátt, og vitum að það eru ófáar útgáfur sem við erum að miða okkur við. Hvort okkur tekst ætlunarverkið geta aðrir bara dæmt um, en kannski er það ekki aðalmálið þegar allt kemur til alls, enda er smekkur fólks svo mismunandi, við förum úr hljóðverinu vitandi það að við lögðum allt í þetta verkefni. Við vonum að fólk styðji verkefnið og heiti á okkur á Karolina Fund, svo við eigum auðveldara með að klára ferlið. Við vonum svo auðvitað að þegar platan kemur út muni hún hafa sömu áhrif á einhverja og við upplifðum í byrjun, og kynni því fólk fyrir þessari tónlistarstefnu og öllu því jákvæða sem henni fylgir. Við ætlum svo að halda ótrauðir áfram og spila á tónleikum og halda áfram að semja skemmtilega tónlist. Já, og svo er alltaf markmiðið að verða heimsfrægir, er það ekki?“
Verkefnið er að finna hér.