Árið 1991 reyndi hópur sovéskra harðlínumanna að fremja valdarán í Moskvu á meðan Gorbachev var í fríi við Svartahaf á Krím. Í upplausnarástandi sem ríkti 19. - 21. ágúst tókst Boris Jeltsín með aðstoð almennings að brjóta valdaránið á bak aftur. Þá hélt hann á fræga ræðu á skriðdreka fyrir utan þinghúsið í Moskvu. „Ef myndin mín væri um atburðina í Moskvu þá hefði ég þurft að fylgja þekktum persónum og atburðarrás. Þess í stað sýni ég fólkið og stemninguna samtímis í Leningrad. Fjarlægðin í tíma og rúmi hjálpar. Fólkið í myndinni veit ekki örlög sín og landsins en við gerum það. Fyrir okkur sem lifðum þarna snertir þessi vitneskja okkur við áhorf myndarinnar djúpt. Það má segja að við höfum glutrað niður 25 árum. Við vorum svo grunnhyggin og það er leitt."
Þetta segir kvikmyndaleikstjórinn Sergei Loznitsa um nýjustu mynd sína „The Event“. Loznitsa fæddist 1964 í Hvítarússlandi en ólst upp í Kiev. Nam stærðfræði og japönsku en lauk síðan námi í leikstjórn við kvikmyndaskólann VGIK í Moskvu. Efniviður mynda hans er oftast saga Rússlands, eins og í „The Event“ eða „Sobytje“ sem hann gerði úr myndefni frá 1991, árinu sem Sovétríkin liðu undir lok.
Loznitsa á að baki 17 verðlaunaðar heimildamyndir auk tveggja leikinna
kvikmynda sem voru frumsýndar á kvikmyndahátíðinni í Cannes.
Nýjasta myndin „The Event“ hefur meðal annars unnið til verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Leipzig. Á blaðamannafundi fyrir frumsýningu í Feneyjum í fyrra , minnti Loznitsa á að úkraínskur kollegi hans Oleg Sentsov var nýlega dæmdur í Moskvu í 20 ára fangelsi fyrir tilbúnar ásakanir FSB. Samtökin Amnesty International hafa fordæmt réttarhöldin og borið dóminn saman við þá sem tíðkuðust á tímum Stalíns.
Nú segja margir gamla tímann kominn aftur til Rússlands?
„Þetta líkist gamla tímanum en í stjórnmálum hefur í raun ekkert gerst þar öldum saman. En nú er eitthvað nýtt því nú höfum við þjóð af fólki án sögu og án siðferðiskenndar. Á Sovéttímanum hafði fólk siðferðiskennd. Þá var þetta vissulega einnig villtur og dýrslegur heimur en opinberlega ríkti siðferðiskennd. Þú gast gerst allskonar siðlausa hluti og það var horft framhjá því en því var ekki hampað. En það sem ég heyri í dag frá opinberum aðilum og fulltrúum valdsins, kleptokratíunnar, eru hlutir sem aldrei hefðu viðgengist á tímum Brezhnev eða Chrustjov, jafnvel á tímum Stalíns. Þeir sýna skort á siðferðiskennd með stolti. Þetta er það nýja og munurinn. Fólk sem lifir innan þannig samfélags skilur oft ekki hversu hættulegt það er. Helmingur rússnesku þjóðarinnar lifir undir fátæktarmörkum. Og flestum virðist standa á sama. Jafnvel þessi 5 % sem eiga allt í Rússlandi eru stoltir yfir því hvað þeir eru svalir að raka að sér miklum peningum. Og restin í þeirra augum eru bara eitthvað, sem má deyja. Þetta er siðferðilega algerlega röng staða.“
Þú býrð í Þýskalandi en myndir þínar fjalla flestar um Rússland og söguna. Af hverju?
„Ég fæddist inn í rússnesk-úkraínska fjölskyldu. Tungumál og hugsunarháttur
minn er rússneskur en í dag líður mér eins og ég sé fyrir utan þetta rými. Á milli
landa því ég bý í Berlín en er ekki þýskur heldur tilheyri rússneskri menningu.
Mér líður eins og frá Kiev, ekki Úkraínu sem ríki heldur bara sem náunga frá
Kiev. Ég lærði og bjó í Rússlandi en get ekki verið þar því ég er ósammála svo
mörgu þar . Í Úkraínu get ég heldur ekki verið eins og ekta úkraínumaður sem ég
skynja ögn ólíka mér. Ég er ekki útlendingur þar eða hér, í raun og veru þarf ég
engan ákveðinn stað og líður bara vel með það.
En ef þú spyrð, hvaðan ertu þá svara ég að ég komi frá Kiev frá sjöunda til níunda
áratugarins. Á þeim tíunda bjó ég í Moskvu. Gömlu vandamálin og það sem
truflaði mig og tók á er allt úr rússneskri menningu sem er hluti af mér.
En landið sem ég tilheyri er ekki lengur til. Mér líkar ekki hugmyndin um
vegabréf , í raun og veru tilheyra öll lönd okkur öllum og mér er illa við
landamæri. Ég ólst upp í Sovétríkjunum og var með Sovéskt vegabréf sem einn
daginn var klippt í sundur og ég látinn hafa Úkraínskt. Allt í lagi ef þeir láta mig
hafa Kiev-passa þá verð ég glaður. En ég mun aldrei fara og biðja um þýskan
passa. Ég ber ábyrgð gagnvart mínu upprunalandi og þarf að þekkja það vel og
velja hvað ég sýni sem kvikmyndagerðamaður. Ég er ekki þjóðverji og í myndum
mínum er ég mjög virkur og meðvitaður um fyrrum landið mitt.“
Nýja myndin þín byggir á efni frá 1991. Hvað veldur því?
„Þessi mynd er ekki í beinu sambandi við það sem er að gerast í dag, en auðvitað
yfirlýsing. Til dæmis tónlistin sem ég nota minnir alla á atburðinn. Þessa daga
sem Valdaránstilraunin stóð léku opinberar útvarpsstöðvar aðeins Svanavatnið
eftir Tjaikovsky. Því nota ég það auk útvarpshljóða sem við söfnuðum aðallega af
netinu. Það kom mér á óvart hversu erfitt það var að finna hljóð og margt var
horfið frá þessum tíma. Hljóðvinnsla myndarinnar tók þrjá mánuði með
Vladimir Gorlovetsky en ég hef fengið að njóta snilldar hans í meira en tíu ár.
Ég vildi sem mesta nærveru við fólkið og það er ástæðan fyrir því að ég hef ekki
þul sem truflar áhorfendann við að njóta myndanna."
Hvernig fannstu myndefnið?
Ég vissi um þessar kvikmyndir og að efnið væri vandað. Tekið á filmu af átta
frábærum kvikmyndatökumönnum frá heimildamyndastofnuninni í Leningrad.
Efnið veitti mér innblástur og það að ég gerði síðastu mynd mína í Úkraínu um
Maidan mótmælin í Kiev. Þessar myndir vinna vel saman vegna þess að þú hefur fjarlægð, 22 ár á milli.
Umsjónarmaður arkífefnis í St. Pétursborg Sergei Gelver er snillingur sem hefur
oft bent mér á athyglisvert efni. Þökk sé honum gerði ég Blokada (Umsátrið í
Leningrad) og Predstavlenia/Revue. Þetta er þriðja myndin sem ég tileinka
þessari borg. Fyrir mér er aðeins ein borg í Rússlandi, Sankti Pétursborg.
Fyrir mér er Moskva einhversskonar þorp. Iðnaðarþorp.“
Þú áttir samt heima í Moskvu?
„Í Moskvu bjó ég á milli Húss kvikmyndanna og kvikmyndasafnsins og ferðaðist
með neðanjarðarlestinni í Kvikmyndaskólann. Ég vann seinna í 8 ár í St.
Pétursborg og bjó þar af og til og klippti myndir. Mér líkaði vel og fór allra ferða
minna fótgangandi. Það gat tekið yfir klukkutíma en þetta er falleg borg sem mér
þykir vænt um. Í Moskvu tók ég heldur neðanjarðarlestina. Fyrir mér er hún eins
og klipp, hlutar af ólíkum svæðum. St. Pétursborg er heild, borg þar sem einhver
velti fyrir sér skipulaginu og möguleikunum. Það er einnig ástæðan fyrir því að
ég gerði myndina um 1991 í Leningrad. Þar var þetta bergmál ómur af því sem
við vitum um söguna um það sem gerist utan rammans. Áhorfendur geta einbeitt
sér að fólkinu hreyfingum og andlitum. Þessum anda sem er ekki lengur til .
Í Leningrad voru fjölmennustu mótmælin á þessum tíma Sovétríkjanna. Með
friðarmerkjum og mínútu þögn fyrir fórnarlömbin sem féllu í Moskvu og víðar.
Um 500 þúsund manns söfnuðst saman þarna á torginu.“
Þú varst ekki viðstaddur sýningu myndar þinnar á Artdoc kvikmyndahátíðinni í Moskvu nýlega. Hver var ástæðan?
„Það eru nokkrar ástæður og mér þykir það leitt. En vegna ástandsins sem er nú milli Rússlands og Úkraínu og að úkraínski kvikmyndaleikstjórinn Oleg Sentsov svar dæmdur í 20 ára fangelsisvist . Ég hef ekki séð neina hreyfingu í þeim málum. Það hjálpaði aðeins þegar það komu mótmæli frá Evrópsku kvikmyndaakademíunni, bréf frá Berlín . Nei póstkort sem var sent eftir að rússarnir misþyrmdu honum og þvinguðu til að játa .Evrópska Kvikmyndaakademían var mjög varkár í tilmælum sínum til Pútíns. En nú eru þeir ákveðnari og setja upp mynd af Sentsov á viðburðum. Við skiljum þó öll að það skiptir engu máli hvað við segjum , ekkert gerist. Og vitum að við erum í þeirri stöðu þar sem KGB eða Rússnesk stjórnvöld segja við alla: „ Þið eruð einskisverð! Þið getir ekkert gert þið eruð ekki stjórnmálamenn . Stingið ekki nefi ykkar í stjórnmálin.“
Þetta má lesa úr þögninni og skorti á viðbröðgum
frá Kreml. Ég segi þetta ekki vegna þess að við eigum að hætta að skipta okkur af.
Nei alls ekki því við gerum þetta einnig vegna þess að þetta hjálpaði Oleg og
öðrum sem einnig var dæmdur. Það hjálpaði því nú er hann frægur og þeir geta
ekki bara látið hann hverfa án þess að umheimurinn bregðist við.
Í öðru lagi skipta þessi mómæli máli fyrir okkur, til að finna að við erum enn
manneskjur. Við erum ekki hrædd við að segja þetta.
Þetta er ástæðan og ekki vegna þess að ég er hræddur sem ég fer ekki til
Rússlands, heldur vegna þess að Oleg Sentsov kollegi minn og vinur situr þarna í
fangelsi vegna uppspunna ástæðna, eftir að hafa verið handtekinn á Krím.
Eftir margra daga misþyrmingar var hann þvingaður til að skrifa undir ásakanir
sem eru algerlega út í hött.
Ég get ekki ímyndað mér sjálfan mig að kynna mynd eftir mig í Moskvu.
Skiftir ekki máli þó þetta sé kvikmyndahátíð andófsmanna eða ekki.
Þá mundi ég kynna myndina á sviði, fólk að klappa osfr. Þetta er eins og að
Tomas Mann hefði mætt til að kynna nýja bók í Berlín Hitlers. Þetta er sama
staðan í dag og því yfirlýsing að mæta ekki. Það gefur í skyn að það séu framfarir
þegar þú kemur til lands og kynnir eitthvað. Rússar þurfa að gera eitthvað sjálfir.
Því eins og Oleg Sentsov var dæmdur saklaus þá situr fjöldi fólks í rússneskum
fangelsum í dag. Vísindamenn og nú æ fleiri bloggarar sem skrifa eitthvað og eru
handteknir fyrir það sitja nú sem samviskufangar. Einnig fjöldi fólks sem
fyrirtækin eru stolin frá á bíræfnum þjófum. Þetta er mögulegt vegna þess að
almenningur í Rússlandi þegir og gerir þessar aðstæður mögulegar.“
Á tímum Sovétríkjanna sýndu margir á vesturlöndum andófsmönnum samstöðu en nú með vaxandi fjölda samviskufanga heyrist minna úr þeirri átt. Hvað veldur?
„Ég held að fyrst og fremst sé þetta spurning fyrir rússneskan almenning.
En auðvitað erum við öll tengd saman og við verðum að berjast gegn óréttlæti
hvar sem það er. En þessi tegund skilnings held ég að muni ekki birtast fyrr en
hjá komandi kynslóðum. Ég ætla ekki að fara að dæma Vesturevrópubúa. Þeir
hafa eigin vandamál sem þeir þurfa að takast á við. Það er ekki heldur svo
auðvelt að vita hvernig á að takast á við þetta villta land Rússland sem enn er á
nítjándu öld eða jafnvel miðöldum.“
Grunaði þig árið 1991 að þetta færi í þessa átt?
„Þegar ég fór að hugsa af alvöru þá sá ég hvað myndi gerast á miðjum tíunda
áratugnum. Árið 1994-95 skildi ég að hlutirnir myndu þróast svona.
Því að þá hófst stríðið í Tjetjeníu og enginn sinnti því. Allir vissu að þetta var
stríð með þúsundum fórnarlamba en það voru ekki margir sem höfðu samúð
með fólkinu. Fólk hélt sig fjarri. Þetta var upphafið, við misstum, ég segi við og á
við íbúa fyrrum Sovétríkjanna . Við misstum tækifæri til þess að breyta einhverju
eftir 1991. Lestin fór án okkar, og í raun hefði átt að hefja ferlið á því að tala um
eignir."
Hvernig þá?
„Tvær mikilvægar spurningar: Réttarhöld um Sovétvaldið. Það má kalla það
Nürnberg- eða Kiev-Réttarhöld en það verða að vera réttarhöld um Moskvu.
Einnig Varsjá osfr. Það verður að fara í gegnum þetta ferli. Án þess gerist ekkert.
Og seinni spurningin fjallar um eignir og það sem gerðist árið 1917. Hvort það
hafi bara verið allt í lagi að myrða alla og taka eignir þeirra eða ekki.
Ef ríkið segir nei þýðir það að eitthvað þarf að gera til að takast á við þetta
vandamál. Fyrir ættingja eða fyrir fólkið sem þjáðist vegna þessa. Ekki síst allar
fjölskyldur sem liðu vegna valdhafa Sovétríkjanna. Þetta er ekki eitt augnablik
heldur afar langur tími og Rússland er risastórt land. Þetta hefur fyrst og fremst
táknrænt gildi en það er mjög mikilvægt. En það er ekki mögulegt með þessa
menn við stjórnvölin sem nú eru í Rússlandi því þeir vilja ekki að almenningur sé
sjálfstætt hugsandi fólk. Þeir vilja ekki að fólki sé umhugað um eignir sínar. Þeir
eru enn fastir í hugsanahætti Bolsjevika eða Stalíns þegar þú varst ekkert. Jafnvel
þótt þetta séu Óligarkar þá þurfa þeir að vera tilbúnir til að segja. Ég er
reiðubúinn að gefa ríkidæmi mitt til ríkisins. Eins og Oleg Deripaska lýsti yfir í
fyrra. Hann sagði ef ríkið þarf á eignum mínum að halda þá mun ég láta þær af
hendi. Þetta er hugmyndafræðileg spurning. Ef hún kemst ekki upp á yfirborðið
mun ekkert gerast."
En búa ekki margir Rússar hér í Berlín sem hafa flúið ástandið þar?
„Ekki bara hér heldur einnig í öðrum borgum og í Eystrasaltslöndum og Finnlandi. Já reyndar mjög margir í Berlín en ég er ekki hluti af neinum hópi. Þegar ég er ekki að skrifa, taka upp eða klippa myndir í Úkraínu eða Eystrasaltsríkjunum þá bý ég hér svo að segja úti í horni. Ég er með stórt bóksafn og mig langar núna mest til að bara lesa í nokkur ár. Mig dreymir um tímann þegar morgundagurinn var eins og haf af óvæntum hlutum og hægt var að gera það sem maður vildi.“
Það lítur ekki út fyrir að þessi
draumur Loznitsa rætist á næstunni því hann vinnur að klippingu heimildamyndar.
Auk strangrar dagskrár kvikmyndahátíða og fyrirlestra mun hann leikstýra stuttmynd
í vor og leikinni mynd í fullri lengd eftir eigin handriti á komandi ári.
Þetta er annað viðtalið sem Kjarninn birtir við Sergei Loznitsa. Það fyrra birtist 23. nóvember 2014. Það má lesa hér.