Páll Ivan frá Eiðum fékk fyrir einhverju síðan skilaboð frá ókunnugum manni (Dr. Gunna) sem spurði hann hvers vegna hann hefði ekki gefið út plötu, og hvort honum fyndist plötur asnalegar? Nú, nokkrum vikum síðar er Páll Ivan búinn að mixa og mastera 15 laga plötu (LP vínyll). Það eina sem honum vantar upp á er að hanna og prenta umslagið, framleiða plöturnar og borga fólki fyrir vinnuna. Kjarninn tók Pál Ivan tali.
Segðu okkur frá myndlistinni þinni og þér sem myndlistamanni?
„Ég hef lengi daðrað við myndlistina í einhverri mynd en það var í raun árið 2012 sem ég byrja af einhverri alvöru. Ég var þá í fæðingarorlofi en barnsmóðir mín hún Elín Anna Þórisdóttir er málari og myndlistarmaður þannig að heimilið var fullt af málningu, penslum, og öðru sem þarf til þess að mála.
Ég var svo skelfilega vansvefta að ég gat ekki með nokkru móti búið til tónlist eða hugsað eða gert nokkuð vitrænt, en að mála - það gat ég. Það var æðislegt að byrja bara að sulla með liti, dreifa þeim yfir flötinn án skipulags eða væntinga. Unaður. Svo hef ég bara ekki hætt. Er að teikna mjög mikið um þessar mundir, voða mikið typpi og píkur en allt voða krúttlegt bara. Kæru lesendur: Ekki hika við að byrja að mála og teikna! Ekki vera feimin! Það geta það allir, það mega það allir og það má alveg vera lélegur og hafa gaman!"
Hvað er þessi plata búin að vera lengi í bígerð?
„Tja platan hefur í raun aldrei formlega verið í vinnslu fyrr en fyrir örfáum mánuðum síðan. Lögin eru sum orðin ansi gömul en ég hef bara sett þau á soundcloud og ekki hugsað um þau mikið meir. Svo fyrir stuttu sendir hann Dr. Gunni mér skeyti: Afhverju ertu ekki búinn að gefa út plötu? Eru plötur asnalegar? Örfáum vikum síðar var búið að mixa og mastera plötu, fá FM Belfast remix af einu laganna og henda í Karolina Fund fjáröflun."
Ertu einn að vinna að þessu verki eða eru einhverjir góðir með þér?
„Hann Dr. Gunni hefur verið að hjálpa mikið við að velja lögin og ákveða röðina á þeim og svo hefur hann Albert Finnbogason verið að mixa aðeins og mastera allt. Það eru einhverjir líklegir samstarfsaðilar í tengslum við útgáfuna sjálfa en það verður að koma í ljós aðeins seinna. Ef ég verð ekki neyddur til að gera umslagið sjálfur að þá væri frábært að fá frábæran listamann í verkið! Ef þið hafið hugmyndir að mögulegum umslagsgerðarlistamönnum þá megið þið endilega láta mig vita."
Verkefnið er að finna hér.