Íslendingurinn Reynir Jóhannesson tók rúmlega þrítugur við embætti aðstoðarsamgöngumálaráðherra Noregs síðasta sumar. Hann hafði þá starfað sem pólitískur ráðgjafi samgönguráðherrans Ketil Solvik-Olsen í eitt og hálft ár, fyrir Framfaraflokkinn (n. Fremskittspartiet).
Núverandi ríkisstjórn Noregs tók við keflinu 2013 og er borgaraleg minnihlutastjórn Hægri flokksins og Framfaraflokksins, með forsætisráðherrann Ernu Solberg, formann Hægri flokksins, í broddi fylkingar. Solvik-Olsen er varaformaður Framfaraflokksins.
„Ég er í raun með sama vald og ráðherrann sjálfur,” segir Reynir. „Nema ég mæti ekki til kóngsins á föstudögum, ég tala ekki fyrir þingið og mæti ekki á ríkisstjórnarfundi. En ég get verið í forsvari fyrir öll önnur mál sem eru afgreidd í ráðuneytinu og undirskrift mín jafngildir undirskrift ráðherra.”
18 ára bæjarfulltúi í Noregi
Áhugi Reynis á stjórnmálum kviknaði snemma. Hann flutti átta ára gamall með foreldrum sínum frá Siglufirði til Sandefjord í Noregi. Aðeins 18 ára að aldri var hann kosinn bæjarfulltrúi Framfaraflokksins í bænum. Nokkrum árum síðar flutti hann til Íslands til að leggja stund á nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
„Ég vann í Landsbankanum haustið 2008 og þá reynslu tek mér með mér út allt lífið. Að horfa upp á það sem var að gerast, á sama tíma og ég var að taka virkan þátt í pólitíkinni á Íslandi, mótaði mig mikið,” segir hann. Reynir tók virkan þátt í starfi InDefence-hópsins á þeim tíma. „Ég vann náið með Jóhannesi [Þór Skúlasyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra] við undirskriftarsöfnunina, sá um heimasíðuna og vann á netinu við að ná inn undirskriftum. Þar fann ég fyrst hversu öflugt verkfæri internetið er.”
Ég vann í Landsbankanum haustið 2008 og þá reynslu tek mér með mér út allt lífið. Að horfa upp á það sem var að gerast, á sama tíma og ég var að taka virkan þátt í pólitíkinni á Íslandi, mótaði mig mikið.
Kom Framfaraflokknum á Netkortið
Árið 2009 flutti Reynir aftur til Noregs ásamt konu sinni, þar sem ástríða hans fyrir stjórnmálum átti heldur betur eftir að halda áfram.
„Ég þekkti Framfaraflokkinn og hann þekkti mig. Ég hóf störf sem ráðgjafi fyrir þingflokkinn skömmu síðar og gerði það næstu fjögur árin,” segir hann. Námið í HÍ nýttist honum vel í kosningabaráttunni í Noregi. „Lokaverkefnið mitt var um blogg og stjórnmál. Á þeim tíma vorum við aðallega að notast við MySpace, Facebook var að byrja og svo voru bloggin. Ég hjálpaði flokknum, sérstaklega formanninum og varaformanninum, til að byggja sig upp með notkun netsins og samfélagsmiðla í kosningabaráttunni.”
„Við Ketill kynntumst þarna. Við unnum mikið að videoframleiðslu, netskrifum, bloggum og ímyndarsköpun á Facebook og Twitter. Þetta er orðinn gífurlega mikilvægur hluti af pólitíkinni í dag. Vikulega erum við með sex hundruð þúsund til milljón Facebook-notendur sem sjá hvað ráðherrann er að gera,” segir Reynir.
Fékk nóg af pólitíkinni
Eftir árangursríkt starf Reynis við kosningabaráttu Framfaraflokksins árið 2013 ákvað hann að þó róa á önnur mið.
„Ég var kominn með nóg af stjórnmálum. Eða það hélt ég. Ég tók starf hjá almannatengslafyrirtæki í Osló þar sem ég átti að byggja upp stafræna miðlun fyrir fyrirtækið og viðskiptavini þeirra. En eftir einungis tvær vikur hringdi Ketill, sem var þá nýorðinn samgöngumálaráðherra, og bauð mér starf sem pólitískur ráðgjafi. Og ég gat ekki sagt nei við því, það var ekki séns. Þetta gæti hafa verið eina tækifærið sem mér býðst til þess að taka þátt í að stýra ráðuneyti og landi.”
Ári síðar fékk Reynir stöðuhækkun og var ráðinn aðstoðarráðherra. Hann ber nú ábyrgð á þáttum sem snúa að internetinu, umhverfismálum í samgöngum, hafnarmálum, farsímakerfinu og póstþjónustunni. Þar að auki sér hann um að setja saman fjárlög ráðuneytisins í heild.
Þrír aðstoðarráðherrar starfa í samgönguráðuneyti Noregs, hver með sín ábyrgðarsvið. Reynir segir starfið afar frábrugðið starfi pólitísks ráðgjafa, sem svipar til starfs aðstoðarmanns ráðherra hér á landi.
Og ég gat ekki sagt nei við því, það var ekki séns. Þetta gæti hafa verið eina tækifærið sem mér býðst til þess að taka þátt í stýra ráðuneyti og landi.
Harðastur í innflytjendamálum
Beðinn um að aðlaga Framfaraflokkinn að íslenskum veruleika, segir Reynir að hann sé eins konar blanda af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
„Stjórnmálaumhverfið í Noregi er mjög ólíkt því íslenska. Framfaraflokkurinn er harður á að lækka skatta og undirstrikar nauðsyn þess að fara varlega í það hversu miklum skattpeningum skal verja í velferðarkerfið. Svo er flokkurinn þekktur fyrir að vera mjög harður í innflytjendamálum,” segir hann. „Auðvitað verður umræðan mjög hörð og ég veit af eigin reynslu að það er erfitt að útskýra þessi mál því maður er alltaf settur í einhvern bás og er misskilinn. Ég hef ekkert á móti útlendingum heldur er flokkurinn einungis með harða innflytjenda- og flóttamannastefnu. Við erum harðasti flokkurinn hvað varðar innflytjendur í Noregi, þó ekki eins öfgafullir og hörðustu flokkarnir annars staðar í Evrópu, eins og í Frakklandi, Grikklandi og Hollandi. Okkar flokkur er mjög frjálslyndur, en hefur samt tekið að sér þennan hluta af umræðunni,” segir Reynir.
Við erum harðasti flokkurinn hvað varðar innflytjendur í Noregi, þó ekki eins öfgafullir og hörðustu flokkarnir annars staðar í Evrópu, eins og í Frakklandi, Grikklandi og Hollandi.
Eitt að flytja - annað að fá hluta af kerfinu
Reynir segir grundvallarstefnu Framfaraflokksins vera lægri skattar og minni opinber afskipti af fólki og fyrirtækjum.
„Á níunda áratugnum byrjaði innflytjendaumræðan í Noregi og hún er enn mjög stórt mál. Í ár gætu komið á bilinu 30.000 til 60.000 flóttamenn til landsins og um tíma var talið að þeir gætu orðið 100.000. Maður sá það sem gerðist þegar Svíar voru með tárin í augunum að loka landamærunum og allt fór úr böndunum. Við þurfum að passa upp á að þeir sem koma séu raunverulega að flýja stríð því hingað koma margir sem okkar stofnanir uppgötva að búa annars staðar í heiminum, mögulega í löndum þar sem er stríð, en reyna að nýta sér tækifærin til að komast inn í önnur lönd. Eitt er að flytja, en annað er að fá hluta af kerfinu okkar. Við erum með ákveðin fjárlög og erum að reyna að hjálpa eins mörgum og við getum. Það er fólk raunverulega að flýja stríð, en svo er fólk sem er bara að leita sér að betra lífi. Og það er líka allt í lagi, en þá er það fólk að taka peninga frá þeim sem eru raunverulega að flýja stríð. Og það er ekki ótakmarkað af peningum hér heldur, þó að Noregur sé ríkt land. Þetta er stóra málið núna.”
Fregnir voru af því á dögunum að Norðmenn væru að taka fé úr olíusjóðnum í fyrsta sinn. Reynir segir sjóðinn þó alltaf að stækka, þó að það sé minna sem fari í hann. Tekjurnar séu lægri núna út af lækkandi olíuverði, en sjóðurinn tapaði 300 milljörðum norskra króna það sem af er ári miðað við undanfarin ár.
„Hann er samt alltaf að stækka. Þegar ég flutti til Noregs voru um 4.000 milljarðar norskra króna í honum, nú eru þeir um 7.000. Það þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu.”
Eins og efsta deild fótbolta fyrir stjórnmálanörd
Reynir hefur verið aðstoðarráðherra í tæpt ár en hefur unnið náið með samgönguráðherranum í rúm tvö ár. Og hann er svo sannarlega ekki kominn með leið á stjórnmálum á nýjan leik.
„Þetta er bara lífið mitt. Ætli fótboltabullur geti ekki skilið þetta - þegar maður er kominn upp í efstu deild stjórnmálanördanna þá yfirtekur þetta allt. Núna er ég kominn út á völlinn í stað þess að sitja í stúkunni. Þá nýtir maður tækifærin, vinnur sextán tíma á dag og reynir eftir fremsta megni að eiga fjölskyldulíf líka. Sem betur fer á ég þolinmóða fjölskyldu sem skilur að þetta er tækifæri sem kemur kannski ekki aftur.”
Skrifstofan liggur yfir House of Cards og Borgen
Sjónvarpsþættir um líf og störf stjórnmálamanna hafa sennilega aldrei verið eins vinsælir og nú. Spurður hvort hann samsami sig þáttum eins og Borgen, West Wing, House of Cards og Scandal segir Reynir vissulega svo vera.
„Auðvitað horfir öll skrifstofan á House of Cards. Við horfum líka á Borgen og að mínu mati er það, sem betur fer, mun nær raunveruleikanum heldur en það fyrrnefnda,” segir Reynir. „Borgen er gert að miklu drama, en það er rosalega margt þar sem við getum samsamað okkur.”
Spurður hvort hann hafi þá upplifað sig sem Casper Juul þegar hann vann sem pólitískur ráðgjafi ráðherra hlær Reynir og segir að svo hafi verið að einhverju leyti.
„Maður var alltaf að kljást við fjölmiðla, rífast við þá, berjast fyrir því að það fari út réttar upplýsingar, þær upplýsingar sem maður vill að fari út og að andstæðingurinn stýri ekki hvernig litið er á hlutina,” segir hann.
Þar sem ríkisstjórnin er minnihlutastjórn er hún í samstarfi við Kristilega flokkinn (n. Kristelig Folkeparti) og Vinstri (n. Venstre). „Þessir fjórir flokkar vinna saman í yfir 90 prósent mála og fjárlögum. Við þurfum alltaf að sækja meirihluta í þinginu og þá kemur svolítið Borgen-ástand,” segir hann.
Meiri persónuleg harka á Íslandi
En það er víðar en í Noregi þar sem stjórnmálin minna á sjónvarpsþætti. Ísland hefur legið undir smásjá innlendra og erlendra fjölmiðla undanfarið vegna fregna af eignum ráðamanna í skattaskjólum.
„Ég les alltaf fréttir um málin heima á Íslandi. Þetta er líka margt fólk sem ég þekki og hef unnið með,” segir Reynir. „En ég vil ekki tjá mig um innanríkismál annarra landa þar sem ég er hluti af ríkisstjórn Noregs. En ég var í stúdentapólitíkinni á Íslandi og var með í Sjálfstæðisflokknum og Heimdalli, þannig að ég þekki eitthvað til. Það er mikill munur á íslenskum og norskum stjórnmálum, auðvitað bæði vegna stærðarmunarins, en stærsti munurinn er sá að það er meiri persónuleg harka á Íslandi. Það er sótt harðar að manni sem einstaklingi. Ég vil ekki hafa neina skoðun á því hvort menn hafi gert rétt eða rangt, en mér finnst meiri áhersla lögð á málefnin sjálf í Noregi, og það verður oft harka í því, en á Íslandi er það oft maðurinn sem verður aðalmálið. Ég sé það síður í Noregi.”
Reynir segir mjög mikilvægt að fjölmiðlar og almenningur veiti stjórnmálamönnum aðhald. „En svo þarf að passa að fólk fái ekki illt í magann við tilhugsunina um að fara út í pólitík og óttist að einhver komi og éti sig. En það er líka misjafnt hvernig stjórnmálamenn kljást við umtal, hvort þeir segja satt eða ósatt. Það er auðvitað mjög stór hluti af þessu öllu saman.”
En það er líka misjafnt hvernig stjórnmálamenn kljást við umtal, hvort þeir segja satt eða ósatt.
Vonar að orðsporið þoli stjórnmálin
Næstu kosningar í Noregi verða haustið 2017. Það er því mögulegt að eftir eitt og hálft ár verði Reynir að leita sér að annarri vinnu. Hann er fullkomlega meðvitaður um það og segir alla átta sig á að svona störf séu bundin við tímabil.
„Ég veit alltaf að þetta er tímabundið starf. En ég gæti hætt á morgun og verið mjög ánægður með mína vinnu. Og ég hef ekki hugmynd um hvað mig langar að gera næst.” Spurður hvort hann gæti hugsað sér að vinna í pólitíkinni á Íslandi, bendir Reynir á að hann sé norskur ríkisborgari og búi þar með konu og börn. Norsk pólitík sé hans pólitík.
„Ég mundi þó aldrei útiloka neitt. Ég er norskur stjórnmálamaður þannig að það er erfitt að tjá sig um að vinna sem pólitíkus í öðrum löndum, en að vinna við samskiptamál, fjarskiptamál eða starfræna miðlun, sem ég hef mikinn áhuga á, er eitthvað sem ég gæti hugsað mér í framtíðinni,” segir hann. „Ég vona bara að orðspor mitt verði ekki ónýtt eftir stjórnmálin, sem ég efast stórlega um að verði. Svo er ég ungur þannig að ég á nóg eftir.”
Ég veit alltaf að þetta er tímabundið starf. En ég gæti hætt á morgun og verið mjög ánægður með mína vinnu. Og ég hef ekki hugmynd um hvað mig langar að gera næst.