Fáir hafa sennilega búist við því að Kína yrði með á HM í Rússlandi 2018. Vonir bjartsýnustu manna brustu endanlega eftir tvö markalaus og algerlega andlaus jafntefli gegn Hong Kong í undankeppninni í fyrrahaust.
En síðan gerðist eitthvað alveg magnað ...
Hrakningar
Undankeppnin í Asíu fyrir HM 2018 stendur nú sem hæst. Velja þarf 4-5 lið úr hópi tæplega 50 landsliða sem er að finna hér í austurálfu. Leiknar eru fjórar umferðir ýmist með útsláttarfyrirkomulagi, riðlakeppnum eða umspilsleikjum. Meginniðurskurðurinn fer fram í annarri umferð keppninnar. Gæðamunur liðanna er mikill. Bestu liðin eru á par við landslið Norðurlanda (t.d. Íran, Japan, S-Kórea og Sádí-Arabía). Þau verstu eru hins vegar á botni styrkleikalista FIFA (lið eins og Sri Lanka, Bhutan, Macau og Mongólía). Þetta þýðir að þó að um 90% liðanna heltist úr lestinni áður en yfir lýkur þá á það ekki vera ofraun fyrir land eins og Kína að komast alla leið.
Kínverjar voru reyndar stálheppnir er dregið var í riðla í annarri umferð keppninnar á síðasta ári. Fengu þeir Katar, Hong Kong, Maldive-eyjar og Bútan sem andstæðinga. Aðeins Katar er af svipaðri getu og Kína. Öll hin liðin eiga samkvæmt bókinni að vera miklu verri. Flestir gáfu sér því að það yrði auðvelt fyrir þá að komast áfram í þriðju umferð. Þar með myndu þeir ekki aðeins halda lífi í draumnum um HM 2018 heldur einnig ávinna sér rétt til þátttöku á Asíumótinu 2019. Skemmst er frá því að segja að kínverska landsliðið gerði sér mjög erfitt fyrir strax frá upphafi. Tapaði fyrri leiknum gegn Katar og gerði svo tvö markalaus og algerlega andlaus jafntefli gegn Hong Kong. Liðið var komið í þriðja sæti síns riðils og flestir búnir að afskrifa þátttöku á öllum stórmótum í næstu framtíð.
Hillingar
Í kring um kínversku áramótin (8. febrúar sl.) fór af stað mögnuð atburðarás sem óhætt er að segja að hafi gerbreytt þeirri stöðu sem landslið Kína var komið í.
Fyrst var hinum franska þjálfara liðsins Alain Perrin vikið frá og heimamaðurinn Gao Hongbo kallaður til. Sá hafði áður tekið við landsliðinu í sárum og komið því á gott skrið. Hann þurfti hins vegar að gjalda fyrir það að kínverska knattspyrnusambandið treysti á þeim tíma ekki öðrum fyrir liðinu en frægum erlendum þjálfurum og var látin víkja fyrir gömlu Real Madrid kempunni José Antonio Camacho, forvera Perrins. Hvað um það, síðan Gao tók aftur við stjórntaumunum hefur Kína verið á sigurbraut. Ekki nóg með það heldur hafa úrslit í öðrum leikjum í undankeppninni verið afar hagstæð. Allt í einu opnaðist Kína „fjallabaksleið“ inn í 3. umferð keppninnar – sem eitt af fjórum bestu liðunum í öðru sæti síns riðils.
Þriðjudaginn 29. mars. sl. rann svo upp síðasti leikdagur annarar umferðar keppninnar. Staðan var enn mjög snúin. Til að komast áfram þurftu Kínverjar að stóla á að Ástralía legði Jórdaníu, Íran Óman og Filippseyjar N-Kóreu. Og að sjálfsögðu var algert frumskilyrði að Kína bæri sigur úr bítum í seinni viðureign sinni við fantasterkt liði Katar. Það kom ekki á óvart að Ástralir og Íranir skyldu vinna sína leiki. Mun tvísýnna var hins vegar hvort Filippseyjingar gætu staðið uppi í hárinu á N-Kóreumönnum í Manila. Sjö mínútum fyrir leikslok voru N-Kóremenn yfir 1-2 og allt benti til að þeir færu áfram inn í þriðju umferð á kostnað Kínverja. Var þá skyndilega eins og rynni af þeim allur vígamóður. Hleyptu þeir Filippseyjingum inn í leikinn sem þökkuðu pent fyrir sig með tveimur mörkum er tryggði þeim sigur í leiknum.
Þegar fréttir bárust af þessari kúvendingu í Manila voru Kínverjar yfir í sínum leik 1-0. Sú forysta var samt ekki nægjanleg til að róa taugar þeirra 50 þúsund áhorfenda er troðfylltu Zhuque-leikvöllinn í Xian, hinni fornfrægu höfuðborg Kína. Spennan var gífurleg. Eina mark leiksins til þessa hafði komið skömmu eftir hálfleik. Gao var þá nýbúinn að gera örlitla breytingu á liðinu. Setti hann Yu Dabao inn á til að stýra framlínunni. Við það losnaði um hinn efnilega Wu Lei er til þessa hafði verið í öruggri gæslu andstæðinganna. Færði hann sig nú yfir á vinstri kantinn og fór að valda miklum ursla í sókninni. Það var hann sem átti stoðsendinguna sem markið varð til úr.
Á 88. mínútu sýndi Wu
Lei aftur snilldartakta. Stakk hann varnarmenn Katar af og elti uppi
stórfenglega gegnumsendingu félaga síns Hao Junmin. Eftir það var nóg fyrir
hann að stjaka aðeins við knettinum svo hann breytti um stefnu á síðustu stundu.
Markmaðurinn átti ekki möguleika.
2-0 var staðan orðin og ljóst að Kína kæmist áfram.
Fagra veröld
Dregið verður í riðla í þriðju umferð undankeppninnar hinn 12. apríl. Vissulega verður á brattan að sækja fyrir Kína. Öll liðin sem komust áfram eru erfiðir andstæðingar (nema kannski Tæland og Sýrland): Sádar, Sameinuða arabíska furstadæmið, Ástralía, Katar, Íran, Japan, Írak, S-Kórea og Úzbekistan. Það má hins vegar halda því fram að það hafi verið lífsnauðsynlegt fyrir Kína að halda sér inni í helstu stórmótum næstu ára. Án þess væri áætlun stjórnvalda um að gera landið að fótboltastórveldi í náinni framtíð næsta fjarstæðukennd. Frasi forsetans, Xi Jinpings, um að Kína taki þátt í HM, haldi HM og vinni HM algerlega hljómlaus. Hugsanlega hefði umfjöllunin heima fyrir um liðið og allt palnið snúist upp í eintómt háð og spott. Framundan í sumar og haust eru nú fullt af spennandi landsleikjum. Leikmenn eins og Yu Dabao og Wu Lei öðlast ný og verðug markmið til að stefna að. Það er áríðandi að þeir noti tækifærið sem þeir hafa hjá kínversku félagsliðunum sínum til að læra af öllum þeim erlendu stórstjörnum sem þar eru nú innanborðs. Milljónir stráka og stelpna eignast nýjar fyrirmyndir til að herma eftir á flottu sparkvöllunum sem verið er að reisa um allt landið. Kaldhæðni mun örugglega víkja úr umræðunni um kínverska boltann um sinn. Uppbyggileg gagnrýni fær séns.