„Ágangur manna á jörðina er orðin slíkur að hún hefur ekki lengur undan að framleiða hin náttúrulegu gæði sem mennirnir nýta. Fólksfjölgun og aukin neysla ræður hér mestu um og er neyslan nú orðin slík að talið er að mannkynið sem heild noti nú auðlindir sem jafnist á við eina og hálfa jörð á ári," segir Sigurður Eyberg. Í bígerð er heimildarmynd um sjálfbærni í ósjálfbæru samfélagi og þar er fylgst með honum og tilraunum hans til að minnka vistspor sitt. Kjarninn hitti Sigurð Eyberg í tilefni þessa verkefnis og tók hann tali.
Hvaða hópur stendur á bakvið heimildamyndina „Maðurinn sem minnkaði vistsporið sitt“?
„Brosbræður eru mennirnir á bakvið myndina en hún hefði aldrei getað orðið ef ekki hefði komið til gríðarlega óeigingjarnt starf margra góðra aðila. Þar ber hæst framlag klipparans Atla Þórs og hreyfimyndamannins Arnars Fells Gunnarssonar.
Þá er fjöldi tónlistarmanna sem leyfir okkur að nota tónlistina sína og þar eru Hinir Guðdómlegu Neanderdalsmenn fremstir í flokki en tónlist þeirra setur mikinn svip á myndina. Aðrir eru Gálan, Þröstur Jóhannesson, Digital Joe og Hálftímagangur.
Annars vorum við flest að gera hluti sem við höfðum ekki gert mikið af áður – allavega ekki í svona stóru verkefni."
Hvað er vistspor?
„Vistspor er mælikvarði á sjálfbærni. Vistsporið gengur út frá því að hægt sé að rekja alla neyslu mannkyns til þess frjósama lands sem veitir okkur náttúruauðinn sem við notum til að framleiða vörurnar sem við erum að neyta. Með sama hætti er hægt að meta hversu mikið landsvæði þarf til að taka við sorpinu og menguninni sem neysla okkar veldur. Þetta gerir okkur kleift að meta umhverfisáhrif neyslu einstaklings eða stærri heildar eins og fyrirtækis, sveitarfélags eða þjóðar. Því meiri sem neyslan er því meira þarf af frjósömu landi til að standa undir henni og því stærra verður Vistsporið."
Hvaða spurningum eru þið að reyna að svara með þessari heimildamynd?
„ Aðal spurningin sem lagt var upp með var: Er hægt að lifa sjálfbæru lífi í íslensku, nútíma samfélagi? Aðrar spurningar sem svo óhjákvæmilega koma upp snúast svo um hvað maður þarf að gera til að nálgast þetta markmið, þ.e.a.s. á hverju er best að byrja, hvað vegur þyngst o.s.frv.
Þessum spurningum er svo öllum svarað í myndinni eftir því sem Siggi uppgötvar þetta sjálfur við það að reyna lifa sjálfbæru lífi.
Myndin verður frumsýnd í samstarfi við Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands miðvikudaginn 20. apríl klukkan 15.00, í Háskólabíói í Reykjavík, sal 2. Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir."
Söfnun er hafin á Karolina Fund til að koma myndinni á DVD diska, sjá hér.