Heimildamyndin Facebookistan var sýnd á Norrænu kvikmyndahátíðinni sem haldin var í Norræna húsinu dagana 13.-20. apríl. Myndin hefur flakkað milli kvikmyndahátíða um allan heim og gengið mjög vel. Kjarninn settist niður með leikstjóranum Jakob Gottschau og spjallaði um kvikmyndagerðarferlið og ritskoðun og gagnageymslu á Facebook.
Jakob Gottschau er danskur heimildamyndagerðarmaður og hefur starfað sem slíkur í 22 ár. Hann hefur t.d. unnið með sögulegt efni um Islam, innflytjendur í Danmörku og samband Danmerkur, Grænlands og Færeyja. Hann byrjaði að skrifa sem blaðamaður þegar hann var við háskólanám í Hróarskeldu. Hann segist glaður hafa yfirgefið akademískt starf til þess að skrifa og síðar búa til myndir.
Útgangspunktur Facebookistan er spurningin: „Ef Facebook væri þjóð, hvernig væri henni stjórnað?“ Jakob segir að spurningin sé mikilvæg vegna þess að í dag er Facebook einmitt stærsta „landið“ í heiminum og að hans mati hefur fyrirtækið ákveðnum skyldum að gegna gagnvart notendum sínum.
Var fyrst hrifinn af hugmyndinni um Facebook
Hann byrjaði á verkefninu fyrir meira en þremur árum. „Ég hafði gert lítil verkefni um samfélagsmiðla í Kína, Egyptalandi og Kambódíu. Ég hef mikinn áhuga á því hvernig samfélagsmiðlar láta fólk í kúguðum löndum eiga í annars konar samskiptum en þekktust fyrir tíma miðlanna,“ segir Jakob. Hann var því töluvert hrifinn af samfélagsmiðlum á þessum tíma og hann segist á vissan hátt enn vera það.
En á sama tíma og hann hafði lokið því verkefni þá lenti vinur hans og samstarfsfélagi, sem er danskur rithöfundur, í því að vera ritskoðaður á Facebook. Hann notaði miðilinn til að eiga í samskiptum við aðdáendur sína og lesendur. Hann hafði skrifað bók um hippa á 7. áratugnum og safnað saman mikið af myndum frá þessu tímabili. Hann setti myndirnar inn á Facebook en sumar þeirra voru nektarmyndir. Myndunum sem hann hafði póstað var nokkru síðar eytt og fékk hann þau stöðluðu skilaboð að innihald póstsins hafi brotið gegn notendareglum Facebook.
Handahófskennd ritskoðun
Jakob segir að þetta hafi verið vendipunkturinn til að kanna hver ritstýrir efninu sem birtist á Facebook. „Það er fólk þarna úti að ritskoða á hverjum degi. Í dag er Facebook nefnilega stærsti almenningsstaður í heimi,“ segir hann. „En hvernig fer fólk að því að ritskoða allt þetta efni og hver gerir það?“ Hann telur að ritskoðunin beinist ekki einungis að þessu afslappaða skandinavíska viðhorfi til t.d. nektar, heldur sé efni pólitískra hreyfinga einnig tekið fyrir. „Í Tyrklandi, Egyptalandi og Sýrlandi er verið að ritskoða ýmsa hópa,“ segir hann. Hann bendir á að ákveðinn tvískinningur birtist í velsæmisreglum á Facebook. Til dæmis sé nekt á sólarbaðströnd ekki leyfileg en öðru gegni um ofbeldi gegn konum í Sýrlandi.
Kossar samkynhneigðra séu jafnvel ekki leyfilegir á meðan það er í lagi fyrir gagnkynhneigða að sýna atlot sín. „Þegar leitast var eftir viðbrögðum frá Facebook þá sögðust þeir ekki hafa fordóma gegn samkynhneigðum,“ segir Jakob. En þrátt fyrir þessar yfirlýsingar þá gerist þetta ítrekað. Því telur hann að þessi ritskoðun á Facebook sé algjörlega handahófskennd.
Stofnun sem stjórnar stærsta almenningsrými í heimi
Til þess að komast að því hvernig Facebook ritskoðar þá ætlaði Jakob að finna einhvern sem starfaði við ritskoðun. „Við þurftum að tala við manneskju sem hefur eitthvað með þetta að gera. Og við fundum eina. Hún vildi njóta nafnleyndar en það sem ég get sagt er að hún er fá Suðaustur-Asíu. Hún fékk 1 dollara á tímann og gerði samning við Facebook að segja ekki frá störfum sínum.“ En þrátt fyrir það þá var hún tilbúin að ræða við Jakob undir nafnleynd. Hún sagði einnig frá því að ef hún gæti farið yfir 4000 myndir á klukkustund (0.9 sek á mynd) þá fengi hún allt að 4 dollara á tímann. Hann segir að ritskoðunin verði væntanlega ekki nákvæm þegar slíkt magn eigi í hlut. Að mati Jakobs er um að ræða stofnun sem stjórnar stærsta almenningsrými í heimi með miklu gagnamagni. Í því felist gríðarleg samfélagsleg ábyrgð.
En hvað verður um þær upplýsingar sem birtast á Facebook?
Hinn vinkillinn sem tekinn er fyrir í heimildamyndinni er réttur til friðhelgi einkalífs. Jakob segir að sá sjónarhóll hafi komið til nokkru seinna í verkefninu. Hann ákvað að rannsaka hvernig Facebook færi með þær upplýsingar sem koma inn í gagnabanka þeirra. „Facebook er með stefnu um friðhelgi einkalífs en óljóst er hvernig þeir sem fyrirtæki fara með þær upplýsingar sem notendur setja á Facebook,“ segir hann. Hann tekur sem dæmi að þegar einhverju er eytt á Facebook þá sé því í raun og veru ekki eytt. Hann segir að öll gögn séu geymd og að notandinn hafi ekki yfirráð yfir því hvað verður um þau gögn.
„Ég held að það sé óhætt að fullyrða að það sé ekki hægt að treysta Facebook fyrir gögnum sem sett eru inn á vefinn,“ segir Jakob. Hann telur þetta vera mikið vandamál þrátt fyrir að fólk hafi jafnvel ekkert að fela. Þetta sé ákveðið prinsipp í lýðræðissamfélögum sem ekki megi hrófla við. Það megi jafnvel líta á þetta sem gróft mannréttindabrot. „Við sem manneskjur eigum rétt á því að eiga okkar einkalíf út af fyrir okkur. Ríkisstjórnir og fyrirtæki verða að vera gagnsæ en ekki einstaklingar,“ telur hann.
Jakob vitnar í Edward Snowden sem segir: „Ef þér er ekki sama um friðhelgi einkalífs af því að þú hefur ekkert að fela þá er líka hægt að segja að þér sé sama um málfrelsi af því þú hefur ekkert að segja.“ Jakob lítur því þannig á að þrátt fyrir að maður hafi ekkert að fela þá sé mikilvægt að virða þessa friðhelgi.
Hann segir að Facebook sé langstærsta fyrirtækið sem safni gögnum af ýmsu tagi um notendur sína og okkur öll. Að það sé mikilvægt fyrir okkur sem neytendur að vita hvað verður um gögnin okkar.
Facebook lokað og ógagnsætt
Jakob segir að þrátt fyrir að fyrirtækið segist vera opið og í sambandi við notendur sína þá sé raunin önnur. Það á einungis í samskiptum við notendur sína þegar það ræður sjálft aðstæðunum og sé við völd. Hann telur fyrirtækið ekki opið heldur þvert á móti mjög lokað og ógagnsætt. Það eigi ekki í samskiptum við notendur sína og sé í raun sama um þá. Það sé gamaldags að því leyti.
Jakob segist aldrei hafa fengið svör frá fyrirtækinu. Hann hafði samband við fulltrúa Facebook á Norðurlöndunum, hann sendi tölvupóst á höfuðstöðvarnar í Paulo Alto og hann fór til höfuðstöðvanna í Nýju-Delhi á Indlandi og í Kaliforníu og bankað upp á. Hann segist hafa beðið um svör og að fá að tala við einhvern en ekki fengið nein svör eða viðbrögð af neinu tagi. Einu manneskjurnar sem hann náði að tala við voru öryggisverðir sem gátu ekki gefið svör eða bent á aðra tengiliði. Hann segir að Facebook hafi hunsað hann algjörlega.
Fólk verður að geta notað dulnefni
„Einu tilfellin þar sem Facebook svarar eða gefur athugasemdir eru þegar fréttir birtast á CNN eða BBC. Þá heyrist í þeim,“ segir Jakob. „Fyrir utan það þá ekkert.“ Hann nefnir dæmi þar sem dragdrottning, Sister Roma, fór með mál sitt í fjölmiðla. Facebook hafði eytt notendareikning hennar vegna þess að hún notaði ekki sitt raunverulega nafn. Hún sætti sig ekki við það og upp hófst mikil fjölmiðlaumfjöllun sem varð til þess að Facebook leyfði Sister Roma að halda reikningi sínum. Hún hafi þó verið mjög gagnrýnin á að ekki hafi allir fengið sömu möguleika og hún til að gera slíkt hið sama.
Jakob segir að margir séu í þeirri stöðu að eiga erfitt með að koma fram undir sínu raunverulega nafni. Að baki geti legið margar ástæður, fólk geti verið að flýja ofbeldi eða pólitískar ofsóknir og því þurft að nota dulnefni.
Lönd í Evrópu byrjuð að stöðva gagnaflutningana
„Við elskum öll samfélagsmiðla og Facebook en mörg lönd í Evrópu eru farin að draga í efa stjórnunarhætti Facebook,“ segir Jakob. Nokkrir dómstólar í Evrópu hafa dæmt fyrirtækinu í óhag þegar kemur að gagnaflutningum milli Evrópu og Bandaríkjanna. Þeir líta svo á að ekki megi flytja svo mikið af gögnum milli heimsálfanna.
Jakob segir að hann sé ánægður með þessa þróun því gagnamagnið sé orðið svo gríðarlegt hjá Facebook. „Þeir vita svo mikið um okkur og við vitum svo lítið um þá,“ segir hann. „Við þurfum að vita meira.“
Enn með Facebook-reikning en hættur að „læka“
Jakob er enn með Facebook-reikninginn sinn vegna þess að það er hentugt fyrir hann sem kvikmyndagerðarmann. Hann segir þó að hann sé hættur að deila efni eins og hann gerði áður. Hann sé hættur að „læka“ og tjá sig Facebook. Hann hafi ekki lengur áhuga á því að fyrirtækið hafi slíkar upplýsingar um sig. Hann vill þó ekki meina að hann sé vænisjúkur, hann vilji bara fá að ráða því sjálfur hvaða upplýsingar séu geymdar og hverjar ekki.
Hann vonast til að samfélagsmiðlar framtíðarinnar verði meðvitaðari um ábyrgð sína og stöðu. Að ritskoðun verði ekki eins og hún er í dag og ef fólk langi til að eyða efni að sínu frumkvæði þá ætti það að geta það. „Við elskum nefnilega samfélagsmiðla og þeir eru komnir til að vera,“ segir hann að lokum.