Jóhannes Kr. Kristjánsson er margverðlaunaður rannsóknarblaðamaður og einn íslenskra blaðamanna sem er félagi í International Consortium of Investigative Journalists. Hann hefur undanfarna mánuði unnið að því að koma á fót nýju fjölmiðlafyrirtæki, að nafni Reykjavik Media. Samstarfsmaður Jóhannesar er Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður. Hann starfaði fyrir DV í um fimm ára skeið og síðan Vísi, þar sem hann setti sér að skrifa fréttagreinar með aðferðum gagnablaðamennsku. En þar kafaði hann dýpra í málin en yfirleitt er gert í íslenskum fjölmiðlum.
Rannsóknir Jóhannesar á svokölluðum Panamaskjölum sem hófust fyrir tæpu ári síðan ollu straumhvörfum í íslensku samfélaginu eftir að Kastljósþáttur RÚV, sem unninn var í samstarfi við Reykjavik Media, fór í loftið þann 3. apríl síðastliðinn. Í kjölfarið fundu þeir Jóhannes Kr. og Aðalsteinn fyrir miklum stuðningi og ákváðu að setja af stað söfnun til að geta komið nýjum fréttamiðli Reykjavik Media á koppinn. Kjarninn hitti Aðalstein og tók hann tali.
Hvers vegna völdu þið að fara þessa leið til að fjármagna Reykjavik Media?
„Við sáum tækifæri til að tengjast beint við lesendur og áhorfendur okkar. Við erum að vinna fyrir þá og því fannst okkur rökrétt að reyna að fara þessa leið til að treysta grunn fyrirtækisins."
Verkefnið ykkar sló öll met í hópfjármögnunarsamhengi Karolina Fund, var þetta eitthvað sem þið áttuð von á?
„Nei þetta kom okkur skemmtilega á óvart. Við fundum fyrir miklum áhuga frá fólki eftir að fyrsta fréttin okkar var birt í samstarfi við Kastljós. Við opnuðum söfnunina dálítið fyrr en við höfðum ætlað okkur vegna þessa. Við náðum svo markmiðinu á fyrsta sólarhringnum, sem sýnir áhugann sem við fundum fyrir."
Hvaða áhrif hefur það á starfsemi Reykjavik Media að söfnunin hefur gengið framar öllum vonum?
„ Við stöndum á sterkari fótum en við hefðum annars gert. Markmiðið sem við settum okkur var algjört lágmark til að tryggja áframhaldandi fréttavinnslu Reykjavik Media."
Verkefnið er að finna hér