„Þetta er rosalega krefjandi nám. Mér fannst fyrsta árið erfiðast, því þá er maður að finna út til hvers er ætlast af manni,“ segir Emilía Björg Sigurðardóttir, útskriftarnemi í vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands. Hún getur ekki sagt annað en að hún hafi verið mjög ánægð í náminu. Hún segist hafa farið í námið vegna þess að hún hafi alltaf verið að hugsa um hvernig hægt væri að blanda saman sköpunargáfu og spurningum sem herja á hana um tilvist hluta.
Að ganga inn á sýningu vöruhönnunarnema í bókasafni Listasafns Reykjavíkur er eins og að ganga inn á rannsóknarstofu en alls útskrifast sjö nemendur með B.A.-próf í faginu frá Lhí í vor. Nemendur höfðu fullt frelsi til að velja efni eða þema útskriftarverka sinna. Emilía segir að verkin hjá þeim hafi þróast í svipaða átt, það er að vekja upp spurningar meðal fólks í samfélaginu um endurvinnslu efna.
Emilía segir að útskriftarhópurinn hafi verið mjög samrýndur í gegnum árin. Þau unnu sem hópur að verkefninu Willow Project, sem fór einnig í bókaútgáfu fyrir stuttu, og hún segir að það hafi gengið mjög vel. „Okkur hlýtur að líka vel við hvort annað, annars værum við ekki vinir núna,“ segir hún og hlær. „Þetta er eins og systkinahópur. Við erum alltaf upp í skóla saman, borðum saman og við deilum öllu sem við eigum.“ Hún segir að það verði jafnvel erfitt að útskrifast og kveðja hópinn.
Hvað er vöruhönnun?
Emilía segir að mörg svör séu í rauninni við þeirri spurningu og þau byggi á því hver sé spurður. „Vöruhönnun hefur þróast hratt síðustu ár og þurft í raun að endurskilgreina sig í takt við tímann. Í náminu erum við búin að vera að rýna í ferla sem eru nú þegar til staðar. Læra af þeim og jafnvel koma með tillögur að endurhönnun, nýta afgangsefni og pæla í hvernig hlutir eru gerðir. Við skoðum efni og hugsum: af hverju þetta efni og hvaðan kom það? Og við veltum stöðugt fyrir okkur í hvaða samhengi sé verið að hanna.
Þannig að við erum alltaf að hugsa um hvernig ferlið byrjar og hvernig það endar. Hvaða efni þú notar, hvaðan það kemur og hvernig það muni enda? Þetta er alltaf að fara að vera einhvers konar hringrás,“ segir hún. Emilía bætir við að kennararnir leyfi þeim að draga sínar eigin ályktanir af þeim upplýsingum sem þau fái og vinna úr þeim á eigin forsendum.
Flestir nemendur að vinna með endurvinnslu á efnum
Útskriftarnemendurnir í vöruhönnun eru flestir að vinna með endurvinnslu en Emilía segir að það hafi einfaldlega legið í loftinu. Þau spyrja spurninga eins og: Af hverju erum við með þessa þráhyggju að hafa allt hvítt? Af hverju reynum við ekki að setja matarafganga í hringrás til að skila næringu til jarðarinnar? Af hverju verður þetta ekki hluti af okkar hringrás? Með því á hún við að fólk ætti að skila því sem það tekur frá jörðinni, því þá sé það ekki að eyðileggja hana og pumpa hana fulla af eiturefnum.
Emilía segir að þemað á sýningunni hafi verið wunderkammer. „Það eru sýningarkassar sem notaðir eru til að miðla þekkingu og eru í raun uppspretta safna. Þetta þema hjálpaði okkur að skapa nánd með sýningargestum og miðla upplýsingum til þeirra á vonandi persónulegan hátt. Við erum í bókasafnsrýminu og vildum því sýna hvað bækur eru stór hluti af rannsóknarferli okkar. Við förum tilbaka og finnum gamla þekkingarhætti sem samfélagið hefur jafnvel gleymt og blöndum því saman við það sem við finnum og lærum í nútímasamfélagi,“ bætir hún við.
Hringrás efnaskipta
Í lýsingu á útskriftarverkefni Emilíu kemur fram að samband mannsins við svörð jarðarinnar sé ósjálfbært samband. Moldin sé lítils metin í nútímasamfélagi þótt hún sé undirstaða lífsins. Með því að skapa hringrás efnaskipta sem framleiðir vökva með moltugerð úr úrgangi matariðnaðar getum við skilað næringarefnum til moldarinnar.
„Nafnið Elixir var upphaflega notað um goðsagnakenndan vökva sem veitti eilíft líf og gat breytt efnum í gull. Með því að nefna úrgangsvökvann þessu nafni er verið að skírskota til þessa: að skapa verðmæti úr úrgangi og benda á hversu einfalt er að skila næringu til jarðarinnar og um leið að draga úr notkun á ólífrænum áburði eða skordýraeitri sem rýrir moldina. Með þessari hringrás er moldin metin að verðleikum sínum.“
Mikill áhugi fyrir útskriftarsýningum
Sýningunni í Hafnarhúsinu hefur verið mjög vel tekið, að mati Emilíu enda margir nemendur að kynna sín verk. Á opnun sýningarinnar komu í kringum 2.500 manns en 80 nemendur sýndu verk sín þar. Hún telur að fólk hafi áhuga á að sjá sýningar af þessu tagi en hún hefur staðið yfir í tvær vikur. Síðasti dagur sýningarinnar í Hafnarhúsinu er sunnudagurinn 8. maí en sjá má lista yfir útskriftarverk á heimasíðu Lhí.
Ilmur Dögg Gísladóttir, kynningar- og verkefnastjóri Listaháskóla Íslands, segir að fjöldi útskriftarverka og sýninga hafi staðið yfir í apríl og maí. Og þrátt fyrir að sýningunni í Hafnarhúsinu sé að ljúka núna þá séu margir viðburðir í viku hverri. Nemendahópurinn hafi verið mjög fjölbreyttur og samanstæði af listamönnum úr öllum geirum listaheimsins.
Einnig voru sýningar í Gerðarsafni í Kópavogi en þar komu nemendur hvaðanæva úr heiminum. Sýningin hefur verið framlengd vegna góðrar viðtöku eins og kemur fram á heimasíðu Gerðarsafns.