Gerður Jónsdóttir og Anna Björg Björnsdóttir eru tvær í teymi sem hafa mikinn áhuga á hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl. Báðar eru þær íþróttakonur, Anna Björg hefur stundað knattspyrnu nánast allt sitt líf og Gerður kemur fyrst og fremst úr fimleikum, dansi og ýmsum bardagalistum. Leiðin lá því beinast við hjá þeim báðum að mennta sig í íþróttafræðum og eru þær báðar með Bs. gráðu og M.ed. í þeim fræðum.
Í náminu fengu þær mikinn áhuga á hreyfingu eldri borgara og komust að því að lítið er til af aðgengilegu efni fyrir þennan hóp í samfélaginu. Þar má segja að áhugi þeirra hafi kviknað að hanna hentug hreyfispjöld fyrir eldri borgara til þess og styðja og hvetja til hreyfingar. Kjarninn hitti Gerði og Önnu Björg og tók þær tali.
1. Fyrir hvern eru hreyfispjöldin?
Hreyfispjöldin eru hönnuð með eldri borgara í huga en þrátt fyrir það geta allir nýtt sér spjöldin. Þetta eru einföld æfingarspjöld sem auka styrk, þol, liðleika og jafnvægi. Æfingarnar eru framkvæmdar með eigin líkamsþyngd og án útbúnaðs. Hreyfispjöldin eru í hentugri stærð og ekki nauðsynlegt að hafa reynslu af hreyfingu þar sem á spjöldunum eru myndir og fullnægjandi útskýringar. Öll eldumst við og einn óumflýjanlegur þáttur öldrunar er að öll líkamsstarfsemi okkar skerðist, sem hægt er að koma í veg fyrir með reglubundinni hreyfingu.
2. Hvernig er almennt líkamlegt ásigkomulag eldri borgara á Íslandi?
Samkvæmt Hagstofu Íslands hefur meðalaldur eldri borgara hækkað síðustu ár og líkamlegt ásigkomulag þeirra því betra en áður.
Aukin tækniþróun og betri læknisþjónusta hefur hjálpað til og mikil vitundarvakning átt sér stað hvað varðar áhrif hreyfingar. Hreyfing er mikilvægur hluti heilbrigðs lífsstíls og dregur úr hnignun tengdri öldrun.
Eldri borgarar eru því sérstaklega hvattir til þess að stunda reglulega hreyfingu til þess að viðhalda góðri heilsu og sjálfstæðara lífi.
3. Lengir eða bætir hreyfing lífið?
Með því að stunda reglubundna hreyfingu er verið að viðhalda góðri heilsu, auka líkamlegan og andlegan styrk til að takast á við dagleg verkefni. Hreyfing hefur margþætt áhrif eins og auka þol og vöðvastyrk, aukin beinþéttni betri svefn, minna hætta af ýmsum sjúkdómum eins og sykursýki af tegund 2, kransæðasjúkdómum, háþrýstingi, heilablóðfalli, sumum krabbameinum og einnig minni hætta á ótímabærum dauða. Styrktarþjálfun getur verið gífurlega gagnleg fyrir einstaklinga komin á sín efri ár hún viðheldur vöðvamassa sem gerir það að verkum að hreyfifærni viðhelst betur, gönguöryggi verður meira og einstaklingur nær því að lifa sjálfstæðu lífi mun lengur en ella. Jafnvægisæfingar eru einnig mikilvægar þar sem þær geta komið í veg fyrir ótímabært fall sem getur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér.
Það má því segja með góðu móti að regluleg hreyfing lengi lífið.
Við höfum lagt mikla vinnu í að búa til þessi spjöld og langar okkur að þetta verkefni verði af veruleika. Við biðlum til ykkar að styrkja þetta verkefni svo við getum lagt lokahönd á það og stuðlað að heilsueflingu eldri borgara.
Söfnunin fer nú fram hér á karolinafund.com