Óli Gneisti Sóleyjarson, þjóðfræðingur og áhugamaður um kvikmyndagerð, er að safna fjármagni til að framleiða heimildarmynd um þá menningu sem varð til þegar vídeóspólan komst í hendur almennings á Íslandi. Um „ris og fall vídeóspólunnar“, eins og hann kallar það. Kjarninn hitti Óla Gneista og tók hann tali.
Um hvaða leyti kemur
vídeóspólan til Íslands?
„Ein fyrstu merkin um komu vídeóspólunnar til Íslands er þegar skemmtistaðir fóru að auglýsa sýningar á tónlistarmyndböndum. Þá var tekið sérstaklega fram hvaða tónlistarmenn yrðu spilaðir. Þetta var um 1978 sem það gerðist.
Annar gleymdur þáttur í sögu vídeóspólunnar á Íslandi eru vídeókerfin sem voru í raun kapalsjónvarpsstöðvar. Oft var þetta bara myndbandstæki í kjallaranum á fjölbýlishúsum en það voru líka til stærri kerfi og það voru til að mynda töluverðar framkvæmdir í Breiðholtinu þegar verið var að grafa strengi í jörð. En þar sem leyfi skorti frá rétthöfum þá hurfu þessi kerfi.
Frægasti hluti upphafsára myndbandstækninnar var stríð VHS og Betamax. Það stríð teygði sig auðvitað til Íslands. Gæðin voru Betunnar en notagildið lá í VHS. Ég man sem krakki eftir því að hafa þurft að læra muninn svo ég veldi ekki óvart Betaspólu.
Líklega var það árið 1981 sem myndbandsspólan varð hluti af íslenskri dægurmenningu. Það áttu ekki nærri því allir tæki en það virtust allir vera að tala um spólurnar.
Fólk reyndi að berjast gegn vídeóspólunni og ýmsu sem henni tengdist. Það voru búnir til bannlistar og efni var gert upptækt. Fólk var líka hrætt um að myndbandstækið yrði barnapía og sá ótti var örugglega á rökum reistur þó mín kynslóð hafi líklega komist alveg merkilega ósködduð í gegnum það."
Hvenær telurðu að hápunktur vídeóspólunnar hér á landi hafi verið?
„Mér finnst eiginlega að hápunkturinn hafi verið árin áður en DVD kom á markaðinn. Þá var spólan kjarninn í afþreyingarmenningunni. Það var komið gott úrval á leigunum og það var líka hægt að kaupa sér kvikmyndir og sjónvarpsþætti á boðlegu verði og maður gat því byggt upp sitt eigið safn. Það var hægt að kaupa tómar spólur á boðlegu verði og taka upp efni.
Nú gæti ég verið að ýkja þetta upp af því að þarna er ég rétt innan við tvítugt en fyrir kvikmyndaáhugamann eins og mig þá var þetta alveg dásamlegur tími."
Telur þú að það hafi átt sér stað einhverjar samfélagsbreytingar með komu vídeóspólunnar?
„Ef heimildarmyndin á sér einhverja rannsóknarspurningu þá er þetta líklega hún. Spólan breytti miklu. Hún rauf auðvitað að miklu leyti ríkiseinokunina. Það er eitthvað sætt við samfélagið sem beið næstum í heild sinni árið 1983 eftir því að vita hver skaut J.R. en að flestu öðru leyti er það frekar óspennandi í augum okkar í dag. Það er ekki bara fjölbreytnin sem varð til að lífga upp á afþreyingarmenninguna heldur þurftum við ekki lengur að beygja okkur jafn mikið undir dagskrá sjónvarpsins. Við gátum tekið upp þátt á þriðjudagskvöldi og sparað okkur hann fram á sjónvarpslaust fimmtudagskvöld.
Kvikmyndahúsin voru fyrst mjög ósátt við spólurnar en tóku þær seinna upp á arma sér og ráku sínar eigin leigur. Það var líka þannig að Íslendingar höfðu þurft að bíða lengi eftir að myndir kæmu í bíó. Í því villta vesturs ástandi sem ríkti fyrstu árin þá voru myndir oft komnar á leigurnar áður en þær komu í bíó. Mig grunar að það hafi orðið til þess að Ísland fékk myndir fyrr í bíó en áður hafði þekkst.
En auðvitað var vídeóspólan líka snar þáttur í því að auka hlut bandarískrar afþreyingarmenningar á Íslandi og um leið að gera enskuna enn stærri hlut af íslenskri menningu. Þá var textun á myndbandsspólum mikilvægt skref til að viðhalda íslenskunni. Slíkar takmarkanir voru mögulegar þegar um raunverulegar landamærahindranir var að ræða. Í dag erum við í allt öðrum sporum og við getum verið sátt eða ósátt við það.
Kannski er stóra breytingin samt sú að afþreyingarmenning hætti allt í einu að vera einnota. Flestar bíómyndir komu í bíó og síðan mögulega í sjónvarpinu. Myndir og sjónvarpsþættir eignuðust framhaldslíf. Það að bíómyndir og sjónvarpsþættir í dag geta byggt á endalausum vísunum í eldra efni er mögulegt vegna þess að eldra efnið var til taks. Á Íslandi birtist þetta kannski helst í því að fólk horfði aftur og aftur á áramótaskaup og gat vitnað í þau fram og til baka. Mig grunar að það endurtekningin sé stór hluti af ástæðunni fyrir því að margir telja skaupin 1984-1986 vera þau bestu. Þau voru nefnilega tekin upp á öðru hverju heimili."
Verkefnið er að finna hér.