„Þetta er óvenjuleg bók en góð, er mér sagt,“ segir Karl Th. Birgisson sem hefur skrifað bók um forsetakjörið 2012. Kjarninn spurði hann um verkið.
Hvað kveikti áhuga þinn á að rannsaka og skrifa um þetta efni?
„Ég ákvað strax vorið 2012 að skrifa þessa bók enda voru framundan mjög sérstakar forsetakosningar, þar sem alvörumöguleiki var á að sitjandi forseti yrði felldur. Það leit líka þannig út framan af. Kosningabaráttan var stutt, en alveg ævintýrlega skrautleg.
Bókin er byggð á opinberum heimildum, sem sumar eru reyndar horfnar af internetinu núna, en líka samtölum mínum við fjölmarga sem koma við sögu enda talaði ég við fjölda fólks á degi hverjum off-the-record, þar á meðal Ólaf Ragnar. Ég hélt líka dagbók og birti brot úr henni innan um.“
Karl segist hafa sett handritið niður í skúffu, en tekið það upp þegar Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti að hann ætlaði þrátt fyrir allt að bjóða sig fram aftur. „Svo hætti hann aftur við, en þá var of seint að breyta kápunni. Bókin er nefnilega alls ekki um Ólaf Ragnar, heldur ekki síður um framboð Þóru Arnórsdóttur og kosningabaráttuna alla. Þar gekk á ýmsu, sumu skemmtilegu og öðru mjög ljótu.“
Karl leyfði örfáum að lesa bókina í handriti og segir viðbrögðin hafa verið þannig að bókin yrði að koma út. „Guðni Th. Jóhannesson kallar hana skyldulesningu, Svanhildur Hólm Valsdóttir segir að hún sé listilega vel skrifuð, Margréti Tryggvadóttur þótti hún bráðfyndin og Davíð Þór Jónsson lýsir henni sem spennusögu. Betri umsagnir get ég ekki beðið um.“
Þú sagðir að bókin væri óvenjuleg – hvernig þá?
„Þetta er blaðamennskubók, samtímasagnfræði. Slíkar bækur eru algengar í Bandaríkjunum og Bretlandi, en eiginlega óþekktar hér. Forlögin eru treg til að gefa út slíkar bækur og þá er Karolina Fund rétti vettvangurinn til að koma bókinni til sinna. Að því leyti er bókin óvenjuleg, en efnið er líka óvenjulegt.
Flestir tengja mig líklega við pólitík hin seinni ár, en mér fannst gott að finna aftur í mér blaðamanninn. Það er langt síðan síðast. Einn yfirlesari sagði að bókin væri skrifuð af sanngirni, en brútal hreinskilni. Ég er sáttur við þann dóm.“
Söfnun fyrir bók Karls lýkur á Karolina Fund í kvöld, en miðað við umsagnirnar virðist vera eftir talsverðu að slægjast.
Verkefnið er að finna hér